Kraftaverk eru ekki möguleg, en ef að við stöndum saman þurfum við ekki á þeim að halda

Skoðun Sólveig Anna Jónsdóttir 1. maí 2024

Kæru félagar, kæra vinnuafl, kæra ómissandi fólk,

ég byrja fyrir löngu: Ég man eftir afa mínum sitjandi við borð fullt af myndum. Hann er með stækkunargler og hann ætlar að nafngreina þær manneskjur sem að gengu árið 1923 fyrstu kröfugöngu alþýðunnar í Reykjavík. Hann býður mér að nota skoðunarglerið og skoða myndirnar. Hann býður mér að horfa í gegnum gler tímans: Hann býður mér í tímaferðalag; Hann segir mér frá því hversvegna fólkið á myndunum gekk: Gegn auðvaldi, gegn fátækt, gegn kúgun. Fyrir upprisu, fyrir virðingu. Fyrir frelsi vinnandi fólks. Vinnan ein skapar auðinn, sögðu þau og  þau voru vinnuaflið. Þau sköpuðu auðinn en voru þó fátæk. Því skyldi breyta. Þau sem gengu þekktu sannleikann um mannlega tilveru: Til að breyta þarf að berjast. Afi minn segir mér að fólkið sem að gekk fyrstu kröfugöngu alþýðunnar á Íslandi hafi verið hætt og smánað. Hversvegna? Vegna þess að þau ætluðu að breyta samfélaginu: Öll skyldu leggja til eftir getu og öll skyldu uppskera eftir þörfum. Kjartan, Héðinn, Þóra. Erlendur, Jónína, Oddur. Þorbjörg, Þórbergur, Hallgrímur. Hallgrímur heldur ræðu og morguninn eftir er búið að drepa hænsnin hans. Mér finnst mikið til fólksins á myndunum koma, mér finnst þau hugrökk, falleg og djörf. Ég vil tengjast þeim í gegnum tímann. Þegar tímaferðalagið í gegnum stækkunarglerið er á enda teikna ég mynd af því sem að mig langar að gera: Nokkrar manneskjur ganga saman. Tvær konur bera borða og á honum stendur aðeins þetta: Sömu laun.

Kæra vinnuafl,

Eflingarmenn og konur vinna langa daga við andlega og líkamlega erfið störf. Eflingarkarlar tilheyra hópi þeirra á íslandi sem að vinna lengstan vinnudag allra. Stór hópur Eflingarkvenna er í tveimur vinnum til að gera séð fyrir sér og börnunum sínum. Þrátt fyrir þetta hefur Eflingarfólk skipað sér í framvarðasveit íslenskrar verkalýðsbaráttu. Þrátt fyrir andstöðu and-baráttufólks og auðvalds hefur Eflingarfólk óþreytandi risið upp, barist og unnið sigra. Það er mögnuð elja Eflingarfólks, fólksins sem var ekki hægt að berja til hlýðni, sem fékk valdastéttina til að taka tillit til hagsmuna okkar og þarfa á þeim vetri sem að nú er nýliðinn. Það er ómdeilanlegur sannleikur málsins. Skref af skrefi hefur Eflingarfólk vakið atvinnurekendur og stjórnmálastéttina til vitundar um að kúgun og arðrán á vinnu okkar er ekki náttúrulegt ástand, heldur óréttlæti sem við getum og munum rísa upp gegn. Líkt og þau gerðu sem að á undan okkur gengu.

Kæra ómissandi fólk. 

mér finnst mikilvægt, mér finnst það aldrei hafa verið mikilvægara en nú að segja að í Eflingu lítum við ávallt á það sem að sameinar okkur, aldrei á það sem að skilur okkur að. Konur í hefbundnum kvennastörfum og karlar í hefðbundnum karlastörfum berjast saman hlið við hlið. Ungt fólk og fólk sem að unnið hefur alla sína löngu æfi berst saman hlið við hlið. Fólk fætt hér á Íslandi og fólk fætt í Póllandi, Litháen, Rúmeníu, Lettlandi, Filippseyjum, Víetnam, Tælandi, Úkraínu, Spáni, Afganistan, Venesúela, Bretlandi, Portúgal, Króatíu, Bandaríkjunum, Hondúras, Ghana og Palestínu stendur saman, berst saman og sigrar saman, hlið við hlið, hönd í hönd. Við í Eflingu höfnum lyginni um að ólíkur uppruni sé vandamál í mannlegum samskiptum, við sjáum ólíkan uppruna okkar þvert á móti sem einstakan styrkleika, afl ólíkt öllu öðru á landinu, afl sem að gerir okkar hörðu og lífsnauðsynlegu stéttabaráttu kraftmikla og markverða. Fjölbreytni okkar og samstaða er raunverulegt hreyfiafl breytinga og framfara í íslensku samfélagi. Fylking sem að leiðir sókn til frelsis, líkt og kveðið var forðum.

Kæra verkafólk,

ein merkasta manneskja mannkynssögunar, Frederick Douglass, maðurinn sem frelsaði sjálfan sig úr þrældómi og hófst svo handa við að frelsa aðra mælti um miðja nítjándu öld þessi orð:
„Ef að ekki er barist verða engar framfarir. Þau sem segjast hlynnt frelsinu en afneita upprisunni er fólk sem vill uppskeru án þess að þurfa að plægja, þau vilja regnið án þrumuveðursins. Þau vilja hafið án þess mikla gnýs. Baráttan getur verið mórölsk. Hún getur verið líkamleg, hún getur verið hvorutveggja. En hún skal vera barátta. Valdhafar láta ekkert eftir nema gegn kröfu. Þeir hafa aldrei gert það og munu aldrei gera það.“

Kæru alþjóðlegu, fjölbreyttu, ómissandi félagar. 

Við þau á þessu landi sem halda að hægt sé að breyta óréttlátu þjóðfélagsskiplagi því sem að við búum inn í einfaldlega vegna þess að við viljum breyta því vil ég segja þetta: Mannfólk getur ekki framið kraftaverk. Það staðreynd sem að við verðum að horfast í augu við, hvort sem að okkur líkar betur eða verr. En auðnist okkur sem að raunverulega trúum á óumdeilanlegan rétt hverrar manneskju til að gleðjast, hvílast, njóta lífsins, uppskera eftir þörfum eftir að hafa sáð eftir getu, að beisla samstöðuna með því að byggja á mennskunni, getum við umbreyst í ósigrandi afl. Getum orðið líkt og náttúruafl sem að ekkert getur staðið gegn. 

Kraftaverk eru ekki möguleg, en ef að við stöndum saman þurfum við ekki á þeim að halda.

Við mannfólk, sköpuð af náttúru og guði, óendanlega fjölbreytt, eigum það ávallt sameiginlegt, sama hvaðan við komum, sama hvert við förum, að við þolum ekki að vera kúguð. Við þolum ekki að vera undirsett. Við þolum ekki að vera lítilsvirt. Það er ástæðan fyrir því að við rísum upp, þá og nú. Það er ástæðan fyrir því að setjum fram kröfur um efnahagslegt og tilvistarlegt frelsi okkar og félaga okkar með heilaaflinu okkar, hjartaaflinu og vöðvaaflinu okkar, aflinu sem að nærir okkar einstaka kraft; vinnuaflið sem að skapar verðmætin og viðheldur öllu samfélaginu. Vinnuaflið okkar sem að gerir okkur ómissandi. Vinnuaflið sem að gerir okkur ósigrandi.

Við vitum að ef við berjumst ekki getum við ekki unnið. Ef að við trúum því að aðrir muni færa okkur það sem við þurfum verður það aldrei okkar. Það vissu þau sem á undan okkur gengu. Þau lögðu af stað 1. maí árið 1923, ekki afþví að það væri auðvelt, nei, þvert á móti.  Þau gengu af stað vegna þess að þau þekktu sannleikann um mannlega tilveru: Til að uppskera þarf að sá. Til að fá valdastéttina til að fallast á kröfur alþýðufólks þarf að sameina raddir okkar svo að þær verði sem gnýr hins mikla hafs. Þau sem gengu af stað fyrir hundrað og einu ári síðan vissu ekki hvaða sigrar væru mögulegir. Þau vissu aðeins eitt: Ef þau leggðu ekki af stað myndi ekkert breytast. Við í Eflingu deilum þessari vitneskju með þeim.

Kæru félagar, kæra fólk: Að lokum tileinka ég fólkinu á Gaza þessar línur úr Maístjörnunni:

ég hef ekkert að bjóða,
ekki ögn sem ég gef,
nema von mína og líf mitt
hvort ég vaki eða sef,
þetta eitt sem þú gafst mér
það er alt sem ég hef.

Í nafni alþjóðlegrar samstöðu verkafólks og í nafni stjórnar Eflingar sendi ég kveðjur til fólksins í Palestínu. Sálsjúk og spillt valdastétt Vesturveldanna vakir yfir og heimilar þjóðarmorð á fólki, innilokuðu og án flóttaleiðar. Allir skólar, allir spítalar, allt samfélag fólksins á Gaza hefur verið eyðilagt. Meira en 34.000 manneskjur hafa verið myrtar af ísraelskum stjórnvöldum með stuðningi Bandaríkjanna og valdastéttar Evrópu. Næstum því 15.000 börn myrt. Næstum því 10.000 konur. Það er því sem næst óbærilegt. Þjáning fólksins á Gaza er okkur ávallt í huga. En við megum ekki fyllast deyfð þegar við stöndum frammi fyrir svo skelfilegum atburðum. Við verðum að standa saman og krefjast þess öll sem eitt að íslensk stjórnvöld láti samstundis af sjúkri undirgefni sinni gagnvart Bandaríkjunum og standi með fólkinu í Palestínu á alþjóðavettvangi. Að íslensk stjórnvöld fordæmi glæpi Ísraelsríkis og krefjist samstundis vopnahlés, og þess að fólkið í Palestínu fái að lifa frjálst í eigin fagra landi.

Lifi frjáls Palestína! Lifi frjáls Palestína! Lifi frjáls Palestína!

Takk fyrir.

Ræða flutt á Ingólfstorgi 1. maí 2024

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí