Erum við að missa vitið sem þjóð?

Skoðun Gunnar Smári Egilsson 20. feb 2024

Er fólk í alvöru að ræða um álag á innviði, eins og að leiðin að góðum innviðum sé að minnka álagið. Leiðin að góðum innviðum, er og hefur alltaf verið að byggja þá upp. Ef fólk flytur í bæinn þá byggir þú hús. Ef barn þarf menntun stofnarðu skóla. Ef fólk þarf hjúkrun þá opnarðu spítala. Ef fólk þarf að komast eitthvert þá leggurðu veg. Hvaða kemur þessi hugsun um að fólk sem byrði? Hvaða endemis mannhatur er þetta? Ætlum við að standa yfir vöggunni og dæsa yfir öllum þeim kostnaði sem barnið á eftir valda okkur? Erum við að missa vitið sem þjóð?

Fólk býr til samfélag. Samfélag stækkar og eflist eftir því sem fólki fjölgar. Stórt samfélag getur byggt upp öflugri innviði en lítið. Þótt landsmönnum hafi fjölgað hratt á liðnum árum þá er það mun minni fjölgun en varð á höfuðborgarsvæðinu á síðustu öld.

Í fyrra fjölgaði landsmönnum um 3,06%. Það er mun minni fjölgun en var að meðaltali árlega á höfuðborgarsvæðinu frá 1912 til 1972, yfir sextíu ára tímabil. Og ræddi þá enginn um að reisa múra kringum borgina til að verja innviði.

Síðustu tíu ár hefur landsmönnum fjölgað um 65.900 manns. Það er 20,5% fjölgun. Á tíu ára tímabili, frá 1940-50, fjölgaði íbúum höfuðborgarsvæðisins um 48,4%. Og það hrikti í innviðum og vantaði húsnæði. En næstu árin var markmiðið að byggja upp innviði, ekki að fækka fólki. Tíu árin fyrir 1972 fjölgaði íbúum höfuðborgarsvæðisins um 22,1%. Þá var ég byrjaður að lesa blöðin og hlusta á fréttir. Ég man ekki til þess að nokkur hafi viljað gefast upp og stoppa fólk frá að flytja í bæinn svo innviðir gætu jafnað sig.

Íslendingar hafa aldrei verið ríkari sem samfélag en í dag. En þá bregður svo við að allt verður einhvern veginn óyfirstíganlegt. Við getum ekki einu sinni reist hjúkrunarheimili, verðum líklega þrjátíu ár að reisa Landspítala, fjöldi fólks er heimilislaust, ungt fólk getur ekki flutt að heiman, það er mánaðarbið eftir viðtali við heimilislækni, það vantar leikskóla, húsnæði fyrir öryrkja og svo áfram endalaust.

Þegar landið var meðal fátækustu landa Evrópu tókst stjórnvöldum að byggja héraðsskóla um allt land og héraðssjúkrahús, stofnað var til verkamannabústaða og byggingarsamvinnufélaga sem tryggðu fólki ódýrt og öruggt húsnæði, hitaveitur voru byggðar og rafveitur.

Nú eru öll verkefni einhvern vegin of stór, við upplifum okkur vanmáttug og hrædd, viljum leggjast í vörn fremur en að sækja. Gaufast eitthvað með glærur á fundum í stað þess að hefjast handa við brýn verkefni.

Næst þegar stjórnmálafólk mætir í viðtöl til að barma sér yfir hvað það er erfitt að byggja upp innviði og grunnkerfi og hvað allt er eitthvað voðalega flókið og erfitt, ættum við að senda það í sögutíma. Eða á sjálfstyrkingarnámskeið. Alla vega ættum við ekki að hlusta á það. Við eigum að hætta að rétta stjórnmálafólki hljóðnema, eigum að rétta því skóflu frekar.

Myndin er af aðalbyggingu Landspítalans sem byggð var á fjórum árum þegar Ísland var meðal fátækustu þjóða Evrópu. Um þriðjungur kostnaðar var greiddur með söfnunarfé íslenskra kvenna en restin úr ríkissjóði.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí