Heimur án fátæktar

Skoðun Sanna Magdalena Mörtudóttir 17. okt 2023
Sanna Margrét Mörtudóttir

Á alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt hugsa ég um heim án fátæktar og hvernig sá heimur gæti litið út. Í slíkum heimi fara börn hvorki svöng að sofa né svöng inn í daginn. Í þessum heimi eru börn laus við fjárhagsáhyggjur í matarröðinni í skólanum, þar sem það er engin rödd í höfðinu á þeim sem segir: „Þú færð örugglega ekki mat, mamma er pottþétt ekki búin að borga.“

Gjaldhliðunum í lífi barna hefur verið eytt, þannig að börn flæða frjáls um þau rými sem vekja áhuga þeirra. Það má æfa á píanó, stunda íþróttir og prófa dansæfingar. Ekkert er utan seilingar. Hér hafa börnin meira að segja ferðast oft út á land með fjölskyldu sinni í sumarfríunum. Í þessum heimi er sjálfsagt að hafa nokkur áhugamál og prófa nýjar frístundir. Hið sama á við um fullorðna sem mega líka vera með áhugamál og sinna þeim því í þessum heimi án fátæktar snýst lífið ekki bara um að komast af, heldur snýst lífið líka um að blómstra.

Í þessum heimi fá stórir draumar að taka pláss í hugum okkar og væntingarnar flæða óhindrað fram. Hér þarf enga væntingastjórnun til að fyrirbyggja vonbrigði sem fylgja efnislegum skorti. Í þessum heimi megum við segja upphátt hvað það er sem við þurfum og hvað það er sem við viljum. Það má leyfa sér meira en það allra nauðsynlegasta.

Að vera sífellt á varðbergi gagnvart útgjöldum er liðin tíð í þessum heimi sem er án fátæktar. Hér er í lagi að slökkva á reiknivélinni sem var í höfðinu, vélinni sem segir þér hvað matarkarfan er komin upp í margar krónur. Vélinni sem meinar þér að kaupa góðan mat og of mikinn mat. Þegar við ljúkum búðarferðinni þurfum við ekki lengur að óttast skilaboð greiðsluposanna, þar sem orðið HEIMILD birtist alltaf.

Hér eru heimilin okkar hlý, hönnuð til búsetu og þau éta ekki upp allar tekjur okkar. Þar er ekki þröngbýli, enginn raki né óþolandi leigusalar sem hækka leiguna án fyrirvara. Í þessum öruggu heimilum okkar náum við að festa rætur, þar sem sífelldir flutningar heyra sögunni til.

Börnin okkar fá að búa áfram heima eftir 18 ára aldur. Við þurfum ekki að henda þeim út af ótta við skertan húsnæðisstuðning og þar með hækkandi leiguverð.

Eftirlitssamfélag fátæktarandúðar sem snérist áður um að vakta kaup fátæktra og segja þeim að gosdrykkjarneysla þeirra sé ástæða örbirgðar er nú fjarlæg minning.

Í þessum heimi vinnur stjórnmálafólkið fyrir okkur öll, þar eru ekki lengur pabbastrákar sem vinna að því að selja eigur almennings.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí