Hvað má Alþingi ganga langt?

Skoðun Sigurjón Magnús Egilsson 28. feb 2025

Haukur Arnþórsson skrifaði eftirfarandi:

Getur Alþingi gengið gegn niðurstöðu dómstóla, getur það sett ný lög sem hindra frekari málsmeðferð máls fyrir dómstólum og er Alþingi þá að taka réttinn til að sækja sér endanlega niðurstöðu dómstóla af almenningi? En hvað með að dómstólar dæmi um valdmörk stjórnvalda? Þetta eru spurningar um grundvallaratriði.

Tökum dæmi. Úrskurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála tók starfsleyfi af laxeldirfyrirtækjum í Arnarfirði og Patreksfirði á sínum tíma. Það var æðsta vald framkvæmdarvaldsins í málinu. Þá setti Alþingi ný lög um fiskeldi, laxeldirfyrirtækin sóttu aftur um – og starfsemi þeirra hófst.

Ég var lengi mjög hugsi um hvort Alþingi væri að brjóta á þrískiptingu ríkisvaldsins og hvort túlka mætti það þannig að nýju lögin væru afturvirk. En komst að því að hvorugt væri tilfellið.

Það er vegna þess að hreyfanleikinn milli hins þrískipta valds er þannig að ef framkvæmdarvaldið framkvæmir ekki lögin eins og Alþingi hugsaði sér, þá breytir Alþingi lögunum. Áður teknar ákvarðanir standa – lög eru jafnan ekki afturvirk – en nýjar ákvarðanir verða að falla að nýju lögunum og segi þau fyrir um aðrar breytingar á forsendum verður framkvæmdarvaldið að verða við þeim. Og með því geta fyrri ákvarðanir fallið úr gildi og nýjar komið í staðinn.

Hliðstætt gildir um dóma. Ef Alþingi telur dómstóla túlka lagareglur öðru vísi en það ætlast til, eða að lögunum þurfi að breyta yfirleitt (af hvaða ástæðu sem er) – getur það sett ný lög. Það á við í málinu um Hvammsvirkjun. Enda þótt fyrri ákvarðanir og dómar standi út af fyrir sig – gilda allt í einu ný lög sem varða málið. Þau gætu kallað á að málið hæfist að einhverju leyti að nýju (það þurfi að endurnýja ákvarðanir, endurflytja kærur og dómsmál o.s.frv.) og þau geta líka sett málinu nýjar leikreglur. Þannig er ekki víst að nýju lögin setji málið í sama farveg og var áður til staðar – eða veiti almenningi og stofnunum sama aðgengi að ákvörðunum og gömlu lögin gerðu. Ný lög gætu því bæði leitt til annars málsferils og annarrar dómsniðurstöðu en þau gömlu.

Ég tel þannig að ég hafi í fáeinum einfeldningslegum orðum sundurgreint þá afstöðu að frumvarp Jóhanns Páls um Hvammsvirkjun – sem er að vísu almenn lög (ég er hrifinn af að Alþingi setji almenn lög en ekki sértæk) – standist stjórnarskrá og að farið sé réttilega með vald milli stjórnarstofnana.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí