Hvernig í veröldinni getur það verið jafnaðarstefna að minnka mannréttindi?

Skoðun Þorvaldur Sverrisson 17. feb 2024

Það kemur margt á óvart við krappa stefnubreytingu Samfylkingarinnar í málefnum sem tengjast fólki á flótta og landamærum Íslands. Eitt er að foringinn virðist hvorki hafa rætt þetta við nokkra manneskju né sett sig inn í málaflokkinn sjálf að neinu ráði. Það er furðulegt glapræði að dúndra í glænýja stefnu en hafa samt aldrei sýnt málaflokknum neinn sérstakan áhuga.

Þetta veldur svo líklega hinu, að öll orðræða foringjans er á forsendum sem eru langt til hægri við miðju, bæði andlega og líkamlega. “Opin landamæri” er til dæmis bara orðaleppur sem þýðir eiginlega það sem fólki hentar hverju sinni. Landamæri Íslands eru “opin” í þeim skilningi að Íslendingar mega koma og fara að vild, för fólks af Schengen svæðinu er frjáls og fólk frá fjölda annarra ríkja má koma til landsins án þess að fá sérstakt leyfi frá yfirvöldum. Yfir tvær milljónir ferðamanna og allir Íslendingar nýta sér það að landamærin eru opin í þessum skilningi og pælingin er vonandi ekki að breyta því. Fyrir íbúa ESB/EES landa eru landamærin enn opnari, því það fólk má flytja til Íslands, strita og borga skatta og bíða í þrjú ár eftir mjaðmaaðgerð eins og hver annar Íslendingur. Um 70.000 manns nýta sér þetta, og á móti búa um 40.000 Íslendingar í ESB/EES ríkjum á sama díl. Vill foringi jafnaðarmanna loka þessu hliði? Af nýjustu viðtölum að dæma er svarið ekki “auðvitað ekki”, heldur “hugsanlega”, því hún lýsir verulegum áhyggjum af þessum 70.000 og eyðir ekki einu orði í þá 40.000 Íslendinga sem búa og starfa í Evrópu. „Þetta er innflytjendastefna sem hefur fyrst og fremst gengið út á að fá hingað fólk í láglaunastörf,“ segir hún í spjalli við Þórarinn Hjartarson. Þessi “innflytjendastefna” felst reyndar bara í einum hlut: aðild Íslands að EES. Það, að Íslendingar ráða helst ekki útlendinga nema í skítadjobb, er ekki innflytjendastefna, heldur bara staðreynd um Ísland. Formaður Samfylkingarinnar virðist sem sagt opin fyrir þeim möguleika að breyta reglum ESB/EES um frjálsa för. Eða var bara ekki búin að hugsa þetta til enda, sem er líklegra.

Landamæri Íslands eru þá opin fyrir 2 milljónir túrista, 70.000 starfskrafta og þeirra fjölskyldur, alla íslenska túrista og 40.000 Íslendinga sem mega búa og starfa að vild í Evrópu utan Bretlands, Rússlands, Belarus, Úkraínu, Moldóvu, Albaníu og nokkurra landa í viðbót. Eini snertiflötur frasanna “opin landamæri” og “innflytjendastefna” er EES. Ef Kristrún Frostadóttir vill breyta þeirri stefnu er það ekki bara stórfrétt heldur starfslok.

Landamæri Íslands eru ekki opin fyrir fólk á flótta. Þau eru lokuð. Fólk á flótta getur komist til Íslands af því við erum með fúnkerandi alþjóðaflugvöll en því ber skylda til að tilkynna erindi sitt við allra fyrstu snertingu við íslenskt yfirvald. Það má ekki koma sem túristar, splæsa í Airbnb í viku og sækja svo um vernd. Það má ekki koma sér inn í landið á fölsuðum pappírum og sækja svo um vernd. Þá fer fólk beint í 30 daga fangelsi eða er flutt til baka á byrjunarreit. Hver einasta manneskja sem kemur út úr flugvél í Keflavík og er ekki Íslendingur, túristi eða íbúi EES/ESB kemur að lokuðum landamærum og fer beint inn í lokað kerfi sem er allt, allt öðruvísi en kerfið sem hinir tilheyra. Að kalla landamærin sem mæta þessu fólki “opin” er ótrúleg fáfræði eða vísvitandi blekking.

Hvað þýðir þá “opin landamæri” fyrir fólk á flótta? Það þýðir: fúnkerandi flugvöllur, vegur, lestarteinar, göngustígur eða höfn og réttarríki hinu megin við strik. Ef maður fer yfir þetta strik er maður ekki umyrðalaust drepinn, ekki sendur beint til baka, látinn hverfa eða seldur. Maður hefur mannréttindi. Ekki mikil, en ekki engin. Yfir þessi landamæri fara um 5.000 manns á ári. Ekki 6,2 milljónir (farþegar um Keflavík), ekki 3-4 milljónir (íslenskir farþegar) ekki 2 milljónir (túristar til Íslands), ekki 70.000 (EES innflytjendur) og ekki 40.000 (brottfluttir Íslendingar), heldur 5-6.000. Á Íslandi, eins og í öllum sæmilega siðuðum ríkjum, á þessi litli hópur rétt á talsmanni, túlki, málsmeðferð, nógum mat til að deyja ekki úr hungri, húsaskjóli og heilbrigðisþjónustu ef líf liggur við. Vill Kristrún Frostadóttir breyta þvi? Af hverju heldur hún að þessi vægast sagt takmörkuðu réttindi þessa pínulitla hóps ógni velferðarkerfi allra hinna? Hvernig geta 5.000 manns sem eru ekki hluti af velferðarkerfi nema að mjög takmörkuðu leyti ógnað velferðarkerfi sem nær til 400.000 manna og 2 milljón túrista? Og hvernig í veröldinni getur það verið jafnaðarstefna að vilja kreista einhverjar örfáar krónur út úr því að minnka mannréttindi örfárra manneskja sem höfðu vægast sagt takmörkuð réttindi fyrir?

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí