Innviðir innviðaráðherra fréttamatur

Skoðun María Pétursdóttir 17. feb 2023

Það vekur athygli í dag að innviðir innviðaráðherra þykja fréttnæmir. Meginstraums fjölmiðlar telja það allavegana frétt að facebook aðgangi innviðaráðherra hafi verið rænt. Það var ekki einu sinni hans persónulega síða heldur aðdáendasíðan hans þar sem hann efur átt hátt í átta þúsund fylgjendur. Er þetta virkilega fréttamatur dagsins?

Það hefur lítið heyrst frá Sigurði Inga í vetur þrátt fyrir allar þær hamfarir sem gengið hafa yfir innviði landsins en þar má nefna dreifikerfi hita- og og vatnsveitna sem ekki voru að standast álag í mestu vetrarhörkunum, stóra stofnstrengi rafmagns sem hafa slitnað og vegi og brýr sem drukknað hafa í vatni og standa eftir stórskemmdir. Þá hafa innviðir í húsnæðismálum verið mikið í umræðunni í tengslum við fúsk í byggingariðnaði, lélegt eftirlit og regluverk sem ekki hefur staðist skoðun. Í þau skipti sem fjölmiðlar hafa náð tali af honum í tengslum við slík mál hefur hann lítið sem ekkert haft fram að færa. Honum finnst grábölvað að verða fyrir þessu facebook-hakki en fólkið sem keypti íbúðir í lekri blokk í Borgarnesi er fólkið sem er raunverulega að upplifa eitthvað grábölvað. Sigurður Ingi er að glíma við lúxusvandamál.

Ráðherra lagði fram drög að svokallaðri grænbók á dögunum inn í samráðsgátt stjórnvalda sem á að leggja línurnar sem húsnæðisstefna næstu árin. Þá hafa fjölmiðlar aðrir en Samstöðin ekkert fjallað um þann stórvægilega galla á grænbókinni að þar eru engar lausnir fyrir leigjendur sem er sá hópur sem er hvað verst staddur á húsnæðismarkaðnum. Hins vegar þykir fréttnæmt að nú noti innviðaráðherra Instagram reikning sinn í stað Facebook eftir að þeim síðarnefnda var stolið.

Verðmætamat fjölmiðlafólks virðist vera ansi brenglað í dag. Þetta hefur verið afar áberandi i allri umfjöllun um verkfall Eflingarfólks en þar hefur RUV jafnvel byrjað fréttatímana sína í sjónvarpi með því að fréttamaður lýsi yfir fordæmalausum tímum út frá verkfallsboðunum þeirra. Þar er skautað yfir sögu verkalýðsbaráttunnar og Sólveig Anna og forysta eflingar gerð varhugaverð.

Fjölmiðlafólk í meginstraums fjölmiðlum og ríkisrekna fjölmiðlinum okkar virðist aldrei detta til hugar að setja upp stéttagleraugun né að það sé eitthvað skakkt við að slá upp innihaldslausum fréttum á borð við FB síður ráðherra á sama tíma og innviðir landsins hafa verið að rakna upp í boði nýfrjálshyggjunnar. Ég er nokkuð viss um að fólkið sem keypti köttinn í sekknum í Borgarnesi sé ekki skemmt yfir fréttum dagsins.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí