Minni ótti – meira frelsi

Skoðun Trausti Breiðfjörð Magnússon 14. mar 2023

Sósíalistar voru þau einu í Borgarráði sem greiddu atkvæði gegn auknu eftirliti með íbúum. Rökin fyrir auknu myndavélaeftirliti í miðborginni voru að það þyrfti að fylgjast með mótmælendum. Þau skilaboð verða þannig send að mótmælendur séu mögulegir glæpamenn sem þurfi að fylgjast með og vakta.

Tölum hreint út: Almennum borgurum stafar engin ógn af mótmælum á Íslandi. Hins vegar er það annað mál með yfirvöld, sem þola illa þegar ljósi er varpað á ólýðræðislegar ákvarðanir og stefnumál. Lýðræðið í augum margra stjórnmálamanna er að fólk fái að setja x við tiltekinn flokk á fjögurra ára fresti. Eftir það skiptir lýðræðið engu máli. Óvinsæl mál eru keyrð í gegn og hagsmunir fjármagnsins ráða þar oftast för.

Ekki furða að fólk grípi til mótmæla og láti óánægju sína í ljós. Í stað þess að horfast í augu við óánægjuna á svo auðvitað að herða eftirlit með óánægjunni. Þá er fólk yfirleitt hrætt til hlýðni af yfirvöldum. Því er sagt að þetta sé nauðsynlegt til að uppræta glæpi og ofbeldi. Til þess að tryggja öryggi þurfi fólk að fórna frelsinu sínu. Við höfnum slíkum afarkostum.

Öryggi og minna ofbeldi verður einungis tryggt með því að byggja upp samfélag jöfnuðar. Þar sem meðvirkni með auðvaldinu verður upprætt og því gert að greiða það sem því ber í sameiginlega sjóði landsmanna. Ekki fyrr en það gerist er hægt að segja að ráðist sé að rótum ofbeldis. Þær rætur liggja í efnahagslegum ójöfnuði með tilheyrandi eymd og örvæntingu. Öryggismyndavélar eru því eins og að setja plástur á eiturbit þegar meinið hefur dreift sér um allan líkamann.

Það sem veldur mestum vonbrigðum er að sjá flokka eins og Pírata kjósa með þessari tillögu. Þau hafa lengi skreytt sig með fjöðrum borgararéttinda og friðhelgi einkalífsins. Þegar á hólminn er komið var lítið bakvið þau orð.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí