Minnkandi orkunotkun og orkuskipti eru samofin félagslegu réttlæti í húsnæðismálum.

Skoðun Guðmundur Hrafn Arngrímsson 2. jún 2023

Ein stærsta áskorunin sem samfélög standa frammi fyrir hvað varðar breytingar á lífsháttum, minnkandi neyslu og heildaraðlögun að því óhjákvæmilega ferðalagi að orkuskiptum sem er framundan er að auka ekki félagslegt óréttlæti, sundrungu og fátækt. Það er afar mikilvægt að svo verði ekki, sérstaklega þegar við þurfum mest á samstöðu, félagslegum tengslum, tryggð og þeirri tilfinningu að fólk finnist það tilheyra samfélagi sínu.

Ræða mín sem formanns Leigjendasamtakanna á Macedonian Energy Forum. Á ráðstefnunni var fjallað um forsendur fyrir minnkandi orkunotkun og orkuskiptum framtíðar útfrá hinum svokallað þríhyrningi „Stefnumörkum-Fjárfestingum-Nýsköpun“. Ræðan var önnur af tveimur ræðum í upphafi umræðu um lýðræði í orkumálum, aðferðir við nýsköpun í samfélagslegri orkuframleiðslu og þátttöku borgaranna. Í kjölfarið ræddu sérfræðingar í spjallborði um hvernig tryggja megi almenna þátttöku og möguleika borgaranna í að lýðræðisvæða orkumál, bæði framleiðslu og dreifingu.

„Ágætu gestir og kæru skipuleggjendur.

Ég þakka ykkur kærlega fyrir að gefa mér tækifæri til að ávarpa ykkur, hagsmunaaðila og ykkur sem móta þá stefnu sem mun greiða brautina inn í framtíðina.

Blagodornost gera makedonskite vlasti.

1. Ég tala hér fyrir hönd viðkvæmra hópa í samfélögum okkar þar sem örlög þeirra eru háð allri ákvarðanatöku þegar kemur að orkustefnu og framkvæmd þeirra. Ég hvet til þess að félagslegt réttlæti og lýðræði verði látin leiða nýsköpunina í orkuskiptunum fraumundan.

Til þess að hvetja og veita kynslóðunum þá nauðsynlegu andagift sem þarf til að taka á sig þá félagslegu, efnahagslegu og vistfræðilegu ábyrgð sem nauðsynleg er fyrir 21. öldina verða þær að finna að þær séu sannarlega hluti af sameiginlegri framtíð. Framtíð þar sem þeim finnst án þess að efast að þær deili örlögum, sigrum og ósigrum sem samfélagið í heild sinni verður fyrir.

Að byrðum og fórnum sé jafnt skipt, ekki bara í rauntölum eða sem afleiða af þröngum efnahagslegu samhengi heldur á samfélagslega ábyrgan og sanngjarnan hátt.

2. Ein stærsta áskorunin sem samfélög standa frammi fyrir hvað varðar breytingar á lífsháttum, minnkandi neyslu og heildaraðlögun að því óhjákvæmilega ferðalagi að orkuskiptum sem er framundan er að auka ekki félagslegt óréttlæti, sundrungu og fátækt. Það er afar mikilvægt að svo verði ekki, sérstaklega þegar við þurfum mest á samstöðu, félagslegum tengslum, tryggð og þeirri tilfinningu að fólk finnist það tilheyra samfélagi sínu.

Orkunotkun í okkar daglega lífi er yfirgnæfandi forsenda fyrir því að viðhalda nútíma lífsstíl. Hún nær til allra þátta lífs okkar, allt frá ræktun og framleiðslu matvæla, frá samgöngum, tómstundum, stafrænni væðingu, lestri á kvöldin, að halda heimilinu svölu eða sjóðandi, frá fatnaði til félagslífs.

Þess vegna er einstaklingsbundin orkunotkun mjög svo félagslegt mengi og drifkraftur þess hvernig við þróum og birtum sjálfsmynd okkar og þátttöku í samfélaginu almennt. Það þýðir að sjálfsmynd einstaklingsins og félagsleg vellíðan í nútímanum grundvallast líka á orkunotkun og aðgengi að henn.

Í mörgum löndum er orkuframleiðsla og dreifing orðin að fjármálavæddum og markaðsdrifnum iðnaði, markaðs framleiðsla frekar en mikilvægir innviðir eða forsenda fyrir því að viðhalda starfhæfu velferðarsamfélagi. Það eru vísbendingar um að orkugeirinn, bæði þróun og stefnumótun sé orðinn sjálfmiðaður og hagnaðardrifin iðnaður sem fyrirtæki leitast við að njóta góðs af í miklum mæli.

Orkustefna og orkunotkun eru ekki einangruð mengi því þau eru nátengd skipulags- og húsnæðisstefnu, þar sem ramminn um líf okkar skapast. Og innan allra þessara málaflokka verðum við að leita lausna sem létta á heimilum, en ekki að skapa nýja leið til að soga frekari fjármuni frá heimilinu. Varast verður að skattleggja nauðsynlega neyslu almennings með þeim tilgangi að draga úr notkun eða neyslu á meðan lúxusvarningur og neysla fær niðurgreiðslu frá hinu opinbera undir formerkjum umhverfisverndar.. 

3. Húsnæði, húsnæðiskostnaður ásamt orkunotkun og samgöngum eru þeir þættir sem skipta mestu máli í fjárhag fjölskyldunnar ásamt matarkaupum. Aðgangur að orku á heimilum veitir yfirleitt ekki valkosti hvort sem gildir aðganginn eða þörfina. Það sama gildir um húsnæði almennt, engir valkostir við húsnæði, við þurfum það öll. Þess vegna verðum við að huga að stöðu neytenda sem samningsaðila þegar kemur að orkuskiptum á sama hátt og varðandi húsnæði.

Það er fjárhagsleg velferð, ásamt framtíðarmöguleikum, menntun, starf, staðsetningu, vini og fjölskyldu og getu okkar til að nýta þau gæði sem skilgreina framtíð okkar. Fjárhagsleg velferð á heimilinu, öryggi og fyrirsjáanleiki er lykillinn að því að auka líkurnar á jákvæðri niðurstöðu og hvort við náum á endanum markmiðum okkar, að við getum veitt börnum okkar og fjölskyldu frekari vellíðan og öryggi.

Það er því mikilvægt að orkustefna valdi ekki félagslegri sundrungu heldur beini öllu aukaálagi frá heimilum sem þegar eru í viðkvæmri stöðu. Það er hægt að gera með því að tryggja að heildar húsnæðiskostnaður og framfærslukostnaður íþyngi ekki lágtekju heimilum með opinberum stuðningi og tryggum aðgangi að félagslegu, opinberu og góðu húsnæði.

4. Þótt að nauðsynlegt sé að draga úr orkunotkun er aðferðin til þess jafnvel mikilvægari en markmiðið. Að draga úr neyslu með fjárhagslegu aukaálagi getur skapað gremju og vantrúá markmiðið og mun einkennast frekar af neikvæðum viðbrögðum og reiði og þarafleiðandi minni trú á heildarstefnuna.

Húsnæðisstefna þar sem ríkjandi tilfinning um jafnræði, öryggi og réttlæti ríkir, þar sem megináherslan er nægilegt framboð á viðeigandi húsnæði á viðráðanlegu verði, getur lagt grunninn að skapa nauðsynlegt andrúmsloft fyrir innleiðingu nýrra sameiginlegra/lýðræðislegra leiða innan orkuskiptanna.

5. Æskan er framtíðin og hineinu  sönnu þjóðargersemi hvers samfélags. Það er hvorki fortíðin né  stofnanirnar sem tryggja framtíðar farsæld, það er unga fólkið, sköpunarkraftur þeirra og vonir. Til að búa til viðeigandi jarðveg fyrir þau fræ til að blómga og dafna þurfa húsnæðismálin að vera í lagi og innan ramma öryggis, hagkvæmni, jafnvægis og fyrirsjáanleika. Vegna þess að húsnæði er undirstaða heimila, velferðar og velmegunar.

Engin félagsleg aðstoð né opinber kerfi munu ná fullum árangri ef staða fólks á húsnæðismarkaði er íþyngjandi og veldur fátækt eða gremju.

Að eiga heimili og möguleika á því að vera sjálfstæður í samfélagi okkar er grunnurinn að því að  ungt fólk getur nýtt möguleika sína til fulls. Sjálfstætt ungt fólk er vinnusamt og skapandi, það sýnir líka samfélagi sínu frekar hollustu þegar því finnst að réttindi þeirra séu virt og að samfélaginu sé umhugað um velferð þeirra.

6. Þess vegna er mikilvægi félagslegrar og efnahagslegrar sanngirni af hæstu gráðu þegar þróaðar eru nýjar lausnir og aðferðir. Fókusinn ætti að beinast að viðkvæmum hópum til að auka þátttöku þeirra og bæta velferð, frekar en að þróa lúxus vörur með þrönga skírskotun, oft með opinberu fé og skattaívilnunum, sem eykur félagslega sundrungu og ójöfnuð.

Heimili með viðkvæma fjárhagsstöðu verður að vernda innan orkuskiptanna framundan með inngripum og með því að styðja við getu þeirra til sjálfshjálpar eða sameiginlegrar nýsköpunar. Þar sem frekari samdráttur í losun koltvísýrings á heimsvísu byggir á að við breytum og aðlögum lífsstíl okkar og er því skilyrt af þátttöku borgaranna.

7. Lækkun húsnæðiskostnaðar eykur burði borgaranna til að taka þátt í orkuskiptum. Og ef það verður óhjákvæmilegt að orkuskipti verði fjárhagslega íþyngjandi fyrir heimilin, þá verður að huga að nýrri húsnæðisstefnu þar sem leitað er allra leiða til að draga úr fjármálavæðingu húsnæðismarkaðarins og lækka húsnæðiskostnað.

Húsnæðiskostnaður veldur í auknum mæli fátækt og því mun hann virka sem náttúrleg hindrun fyrir árangur hvers konar stefnu ef hún endar með að auka fjárhagslegar byrðar heimila. Það getur heldur ekki verið hvorki sjálfbær efnahagsstefna né hollt fyrir nokkurt samfélag að valda fátækt eða draga úr getu borgaranna til að taka þátt í samfélaginu. Heimilissjóðir standa betur að vígi innan heimilisins þar sem þeir munu finna leiðir til að knýja fram nýsköpun, styðja við nærsamfélagið, hagkerfið og atvinnulífið á staðnum og auka almenna velferð.

8. Fólk byggir upp þjóð og samfélög. Tilfinningin um að „við getum gert þetta saman“ er sá andi sem þarf að verða grunnurinn að árangri við að draga úr orkunotkun og í orkuskiptum framtíðar. Íbúar Íslands á síðustu öld, sem ein fátækasta þjóð í Evrópu, byggðu upp víðtæka innviði og velferðarsamfélag sem núverandi valdhafar okkar eiga í rauninni í erfiðleikum með að viðhalda.

Sameiginlegur andi og trú á markmiðinu hjálpaði þessari áður einu af fátækustu þjóðum Evrópu að byggja upp vel starfhæft samfélag. Allir voru tilbúnir að taka þátt með stolti. En auðlegð þjóða og aðgangur að auðlindum leiðir ekki sjálfkrafa af sér samfélagslega ábyrga opinbera stefnu og framkvæmd. Dreifing á gæðum eru hugmyndafræðilegar og háðar manngerðum kerfum og þar af leiðandi ákvarðanatöku einstakra hóp.

9. Stutt hliðarorð…Jarðvarmi hefur verið stærsta viðbótin við orkuöflun á Íslandi og í samfélagi okkar á Íslandi er víðtæk sérfræðiþekking á nýtingu jarðhita. Ég heyrði nýlega að vísbendingar séu um slíka auðlind væri að finna hérna undir gistilandi okkar Norður-Makedóníu. Án þess að gefa nein loforð er ég alveg viss um að sérþekkingin sem finnst í heimalandi mínu geti verið til staðar fyrir þau lönd sem líta á jarðhitavinnslu sem einn af kostum í orkuöflun eða leitast við að þróa leiðir til að nýta jarðhita í framtíðinni.

Að lokum. Ef við ferðumst í eyðimörk eða á snævi þakinni jörð þaðan sem áfangastaðurinn sést ekki, þá er eina leiðin til að taka stefnu og stilla áttavitinn með því að líta um öxl til að sjá hvaðan skrefin koma, skrefin sem hafa verið stigin. Skrefin sem móta slóðina og hafa kennt okkur hvernig við tökumst á við áskoranir, hvar við höfum hrasað og hvar við höfum risið upp. Þannig getum við séð að grunnurinn að orkuskiptum og minnkun orkunotkunar liggur í húsnæðis- og skipulagsstefnu og aðgerðum innan þeirra, í samstöðu sem kemur með félagslegum jöfnuði og velferð. Og innan húsnæðis- og skipulagsmála höfum við allar viðeigandi lausnir bæði prófaðar í fortíðinni og nýttar allt í kringum okkur.

Ég hvet ykkur til að leitast við að vinna að heildrænni nálgun á orkuskiptum og að vernda einingu og velferð almennings með komandi lausnum og inngripum. Styrking samfélagsins og lýðræðis er heimili möguleikana, á meðan velferð og öryggi eru dyrnar að því, en aðgangur að “viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði” er lykillinn og án hans komumst við ekkert áleiðis.

Þakka ykkur öllum fyrir sýnda skuldbindingu og tryggð við þann málstað.“

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí