Mölbrjótum vegg óréttlætis og ójöfnuðar

Skoðun Sanna Magdalena Mörtudóttir 13. nóv 2022

Við sósíalistar sættum okkur ekki við stöðuna sem er í samfélaginu, myndina sem er dregin upp af því að hér hafi flestir það bara nokkuð gott, velmegun sé mikil og ekkert til að hafa áhyggjur af. Allt í kringum okkur er dregin upp fölsk mynd af veruleikanum, hér sé engin fátækt, engin stéttaskipting og ef einhver hefur það skítt þá hafi viðkomandi sennilega bara komið sér sjálfur í slíka stöðu.

Við sósíalistar höfnum því, þar sem við vitum hvernig veruleikinn er. Við vitum að það þarf að laga rótina sem býr til og viðheldur misskiptingu og óréttlæti.

Óréttlæti sem leyfir okkur ekki að eiga öruggt heimili, borða út mánuðinn, borða næringarríkan mat, eiga gott líf, slaka oftar á og njóta þess að vera til. Óréttlætið sem skilur okkur eftir föst í síhlaupandi stressi dagsins við að uppfylla allar þær óraunhæfu kröfur sem eru settar á okkur.

Og hvernig lögum við þetta allt saman?

Það gerum við með því að skapa sterkan hamar sem brýtur niður vegg óréttlætis og ójöfnuðar.

Hamarinn er mótaður af krafti allra þeirra sem hafa fengið nóg.

Það er erfitt að brjóta niður múr einn og sér en sameinuð myndast krafturinn til þess. Það er hlutverk okkar borgarfulltrúa að sameina þau sem hafa búið við skort, hundsun og óréttlæti og þannig verðum við nógu sterk til þess að, ekki bara ýta við veggnum sem stendur á milli okkar og jöfnuðar, heldur til þess að mölbrjóta hann.

Og hvernig sameinum við raddirnar, hvar náum við í þær? Við í borgarstjórnarhópnum erum fulltrúar fólksins og þurfum og eigum að ná fram röddum og reynslu þeirra sem hafa beðið eftir félagslegu leiguhúsnæði í 3 ár en ekki fengið lausn, ná fram röddum þeirra sem eru á grimmum leigumarkaði sem étur upp allt þeirra, hlusta á og taka undir kröfur heimilslausra sem leita skjóls á daginn.

Stefnumótun borgarinnar á að byggja á reynslu þeirra sem vita hvað þarf að laga, líkt og reynslu leikskólastarfsfólks sem starfar í of litlu rými með of mörgum börnum. Og röddum vagnstjóra sem óttast að missa störf sín vegna útvistunar.

Það er okkar hlutverk að bregðast við og berjast gegn þeirri útvistun. Við eigum að ná til starfsfólksins sem lætur þessa borg ganga upp og tryggir að allt sé til staðar fyrir okkur, við of krefjandi aðstæður. Að sama skapi þarf að vinna út frá röddum þeirra sem telja í ofvæni niður í mánaðamót því peningurinn sem þeim er ætlað að lifa af teygist aldrei yfir 31 dag, sama hvað er reynt.

Þessar raddir eiga að óma um Ráðhúsið í gegnum okkur þegar við krefjumst breytinga.

Breytingar sem eru byggðar á sannleikanum um lífið í borginni.

Þannig setjum við fram kröfur um húsnæði fyrir þau sem eru í þörf, þannig að biðlistinn eftir félagslegu húsnæði fari úr 741 niður í núll. Kröfur um félagslega uppbyggingu húsnæðis, þannig að við byggjum fyrir fólk en ekki fjármagn. Að eignafólki verði bannað að sjúga til sín hagnað úr grunnþjónustu okkar. Kröfur um að allir hafi þak yfir höfuðið allan sólarhringinn og að engum sé vísað út í kuldann.

Við förum fram á það að ríkasta fólkið greiði til samfélagsins. – Krafa sem þótti stórundarleg af flestum innan stjórnmálastéttarinnar en er nú byrjuð að fá hljómgrunn víðar. Enda stórfurðulegt að ríkasta fólkið fái milljarða skattaafslátt á hverju ári á meðan ætlast er til þess að þau tekjuminni beri kostnaðinn af því að félagslegri uppbyggingu sé mætt. Hlutverk okkar í borgarstjórn er að laga það sem ekki virkar.

Við gerum það með því að segja skýrt og satt frá. Frá þeirri stéttabaráttu sem við erum í. Að við séum að berjast gegn skömminni sem er sett á manneskjur ef þær ná ekki að eiga fyrir og mæta öllum sínum grunnþörfum ein og óstudd. Skömmin er ekki þín heldur er er það samfélagsgerðin sem er meingölluð.

Enginn á að þurfa að skammast sín fyrir að vera fátækur. Heldur er skömm að því að tilheyra samfélagi sem býr til fátækt. Það er ekkert að þeim sem geta ekki útvegað sér húsnæði, heldur er eitthvað að samfélagi sem meinar manneskjum að eiga heimili. Skömmin er ekki þín ef þú þarft að leita í matarbanka til að bjarga þér. Heldur er eitthvað að því að búa í borg sem sér ekkert athugavert við það að annars gætu manneskjur ekki borðað alla daga mánaðarins.

Við skilum skömminni til þeirra sem bera ábyrgð og krefjumst þess að fá það sem við eigum rétt á.

Með því að halda áfram að lýsa veruleikanum eins og hann er, brjótum við niður þá fölsku mynd sem hefur verið dregin upp. Þá fölsku mynd um að hér séu ekki til nægir peningar til að búa til almennilegt samfélag. Að loftlagsmál séu í forgrunni á meðan almenningssamgöngur eru látnar grotna niður. Að hér sé kraftmikill vöxtur í húsnæðisuppbyggingu sem mæti öllum. Þá fölsku mynd að borgin sé barnvæn á sama tíma og börn eru rukkuð fyrir alla þætti í tilveru sinni og meinaður aðgangur ef greiðsla fer ekki fram.

Í reynslu allra þeirra sem búa við skort, óréttlæti og hafa upplifað hundsun, birtist þrá um hvernig eigi að byggja upp samfélagið.

Samfélag þar sem við eigum öll rétt á húsnæði, heimili. Þar sem skattkerfið hyglir ekki lengur þeim ríku. Þar sem litið er á borgarbúa sem manneskjur en ekki afmarkaða greiðandi viðskiptavini þar sem allar hliðar mannlegs lífs eru markaðsvæddar og öll tilvist brotin niður í seljanlega vöru. Við stefnum að samfélagi þar sem ekki er gengið á orku okkar, tíma og þrek til að eiga rétt á góðu lífi og möguleikanum til að taka þátt í samfélaginu.

Raunverulegu frelsi til þess að ákveða hvernig lífið þitt á að vera. Hvar þú vilt búa og hvernig þú vilt búa. Þar sem valið er ekki á milli þess að vinna eða svelta. Við ætlum að njóta allra þeirra allsnægta sem eru til staðar.

Til þess að allt þetta sé hægt þá sveiflum við hamarinum sem við notum til að brjóta niður vegg óréttlætis.

Og hamarinn er mótaður af krafti sannleikans.

Erindi flutt á fundi um baráttuleiðir alþýðunnar, þar sem ég talaði um hlutverk borgarfulltrúa.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí