Op­ið bréf til Guð­rún­ar Haf­steins­dótt­ur dóms­mála­ráð­herra

Skoðun Þór Saari 6. júl 2024

Ágæta Guðrún.

Eitt af því sem ég hef fengið að fást við upp á síðkastið er að starfa sem bílstjóri í aukastarfi og gegnum það starf öðlaðist ég nýverið reynslu sem þú og félagar þínir í Sjálfstæðisflokknum og ríkisstjórninni og þingmeirihlutanum öllum hafið gott af að heyra um.

Til er hópur fólks hér á landi sem, vegna reglna tilbúinna af stjórnvöldum, fær ekki að vera hér. Ástæðurnar eru ýmsar og við höfum heila stofnun sem passar upp á það að alltaf sé til nóg af ástæðum. Þessi stofnun hefur meira að segja bætt við nýyrðum í okkar ástkæra ylhýra mál, íslenskuna, „að brottvísa“ og „að vera brottvísað“ eru orðin hluti af daglegu lingói og hafa meira að segja lagalegan sess, sem ætti þá að gleðja júríu landsins sem hefur fengið safa siðferðiskenndar sinnar í lagadeild HÍ áratugum saman. Brottvísun er þó meira en bara þessi orð.

Um daginn fékk ég það hlutverk að flytja nokkra „brottvísaða“ frá höfuðborgarsvæðinu og víðar, í flug úr landi. Það var sorgleg upplifun svo ekki sé meira sagt. Einn af „brottvísuðum“ var kona um fimmtugt frá Palestínu, grönn og þreytuleg með byrðar lífsins á herðunum. Hún var tekin frá tveimur sonum sínum sem búa hér, „brottvísað“ eins og sagt er, rifin frá sonum sínum sem hún hefur alið og elskað í ríflega tuttugu ár. Hún kyssti þá, strauk andlit þeirra og hár, faðmaði þá og grét. Og þeir grétu líka. Hjálpuðu henni svo inn í bílinn og dyrnar lokuðust milli þeirra, rennihurð, eins og á járnbrautarvögnunum, í öðru landi, hérna í denn. Hvort hún sér þá nokkurn tíma aftur veit enginn.

Fram undan var óvissa, alger óvissa, alein múslimsk kona í heimi sem var henni ekki velviljaður. Hún grét, alla leið til Keflavíkur. Í hópnum voru líka nokkrir ungir menn og þar sem ég sótti þá flykktust að fjöldi vina þeirra úr nærliggjandi húsum til að kveðja þá, faðmlög og hvatningar, og eins og ungir menn gera oft þegar þeir eru í vandræðalegum aðstæðum var líka slegið á létt glens, svona til að gera stundina bærilegri. Allir vinirnir vildu myndir, prívatmyndir af sér og viðkomandi, og svo öllum hópnum, og svo var faðmast. Þetta voru sannir vinir sem nú voru slitnir frá hver öðrum, vegna aðferða sem Stofnunin, stofnun dómsmálaráðherra, ákvað að þyrfti að beita. Þarna var líka með eldri maður, líklega á sjötugsaldri, hann sagði fátt en gekk þögull drúptu höfði að bílnum. Hann fékk virðulega kveðjustund og faðmlög og kossa og óskir um góða vegferð. Hans framtíð var ekki björt og hann vissi það.

Svo lokaðist hurðin, rennihurðin, og kveðjuorðin heyrðust ei meir. Þeir störðu tómum augum fram fyrir sig, ungu mennirnir, þögulir, alla leið, svona milli þess sem þeir reyndu að hugreysta konuna sem átti tvo syni. Trámatískt augnaráð, „the thousand yard stare“ kalla hermenn það.

„Það var erfitt að kveðja þetta fólk við Leifsstöð“
Nokkru síðar var það fjölskylda frá Venesúela. Hjón með þrjú börn, fjögurra til tólf ára, sem höfðu verið hér í eitt og hálft ár, verið í skóla og leikskóla, eignast vini, eignast líf, sloppin úr hörmungum. Fjölskyldufaðirinn bar sig vel, vildi ekki láta börnin sjá áhyggjurnar. Þau voru líka þögul alla leið. Ekki eitt orð.

Það var erfitt að kveðja þetta fólk við Leifsstöð. Þau vissu ekkert, nákvæmlega ekkert hvað tæki við, nema einhvers konar líf án vina, líf án sona. Áfram endalaus barátta við að reyna að bæta líf sitt, eitthvað sem við sjálf hér á landi erum öll að gera, alla ævi. Við höfum bara fleiri tækifæri, svo miklu fleiri.

Ég sagði þeim á ensku hvað mér fyndist, hvað þetta væri sorglegt. Þau skildu mig ekki, en þau skildu mig samt. Þeim hafði verið gefin von um betra líf, um líf í stað dauða jafnvel. En svo var vonin bara hrifsuð burt, bara si svona, með einu pennastriki. Hviss! Burt með þig, útlendingur.

Guðlaugur Þór fékk að nudda lendunum upp við Mike Pence og Mike Pompeio í staðinn fyrir stundarblekkingu gagnvart flóttafólki frá Vensúela og hann fékk myndir af sér með þeim líka. Þórdís Kolbrún er þögul sem gröfin gagnvart þjóðarmorði í Palestínu. En þegar á reynir og fáir sjá til, svipta þau fólk voninni. Hiklaust. Hviss! Burt með þig, útlendingur.

Þetta þarf ekki að vera svona, það veit ég, það vitum við öll. Við getum gert betur og þurfum að gera betur, vera mennskari. Ekki láta ótta og vafasama tölfræði stjórna gerðum okkar. Ekkert okkar vildi vera í sömu stöðu og þau, foreldri rifið frá börnum sínum, vinir rifnir frá vinum sínum, send út í algera óvissu. Það er hræðileg staða. Hvernig gerðist það eiginlega að mannúðin hvarf á Íslandi? Það er nefnilega ekki mennskt að haga sér svona, að koma svona fram við fólk. Við þurfum meiri mennsku, ekki minni.

„Þetta þarf ekki að vera svona, það veit ég, það vitum við öll.“
Og þetta er ekki „Stofnuninni“ að kenna, ekki „ríkisstjórninni“ eða „þingmeirihlutanum“. Bak við þessi hugtök öll er nefnilega fólk, fólk af holdi og blóði, alþingismenn og ráðherrar. Þetta er þeim að kenna, ykkur. Þetta eru þeirra ákvarðanir, ykkar, og engra annarra. Megið þið öll sem eitt hafa ævarandi skömm fyrir.

Ágæta Guðrún. Settu þig í spor þessa fólks, þessarar konu sem tekin var frá sonum sínum, prófaðu í huganum að vera sú kona. Bentu líka félögum þínum í flokknum sem eru svo hallir undir fordóma og rasisma að gera það sama, hugsa sér að vera rifin burt frá vinum, frá öryggi og sendir út í óvissu, fyrir það eitt að reyna að búa sér til betra líf, sem eins hlálega og það hljómar, er líka kjarni sjálfstæðisstefnunnar.

Þessi framkvæmd er níðingsverk og hana þarf að stöðva. Svo snúið sé út úr orðum (allrækilega) okkar mætasta höfundar: „Þar sem stálhnefann ber við loft hætta mennirnir að vera menn en verða hlutdeild í helvíti, þar býr ekki lengur nein gleði og þess vegna er mennskan ekki nauðsynleg, þar ríkir ómennskan ein, ofar hverri kröfu.“

Breyttu því stefnunni, Guðrún, í guðanna bænum.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí