Prósentuhækkun viðheldur ójafnrétti og eykur verðbólgu

Skoðun Sólveig Anna Jónsdóttir 24. nóv 2022

Formaður BHM birtir grein í Fréttablaðinu í dag. Í greininni dregur hann upp mynd af sjálfum sér sem talsmanni staðreynda og hófstillingar, en telur að aðrir gerist sekir um að mistúlka hagtölur, taka þær úr samhengi eða láta sér staðreyndir í léttu rúmi liggja. Sumir þessarar ónefndu aðila gerast einnig sekir um „gífuryrði“ um stéttastríð. Svoleiðis munnsöfnuð myndi formaður BHM sjálfur ekki viðhafa, þrátt fyrir að vera í afskaplega áberandi stéttastríði við láglaunafólk. Ein af staðreyndum mannlegrar tilveru er jú sú að sumt fólk vill kalla hlutina réttum nöfnum, annað fólk ekki. Vilja til dæmis kalla stéttastríð hinna betur settu við hin verst settu „sátt á íslenskum vinnumarkaði“ eða „varðveislu efnahagslegs stöðugleika“.

Formaður BHM beinir spjótum sínum að Eflingu og málflutningi okkar í samninganefndinni, og ræðst að kröfu okkar um krónutöluhækkun. Segir að við notum vafasamar fullyrðingar um stöðu launafólks án þess að rekja það frekar. Minnir á að vegna lífskjarasamninganna hafi kaupmáttur láglaunafólks aukist allt að sexfalt á við aðra. Ég get auðvitað ekki annað en þakkað formanninum fyrir að benda á góðan árangur láglaunafólks í síðustu kjaralotu. En verð þá að vekja athygli á því að ástæða þess að við í Eflingu náðum góðum árangri, á almenna markaðnum og svo enn betri í samningum okkar við Reykjavíkurborg og aðra viðsemjendur á opinbera markaðnum, er sú að við vorum tilbúin til að nota verkfalls-vopnið og sýndum með beitingu þess öllum fram á algjört grundvallarmikilvægi okkar í verðmætaframleiðslu þjóðfélagsins og í því að halda umönnunarkerfum samfélagsins gangandi. Við náðum góðum samningum einfaldlega vegna þess að efnahagsleg og pólitísk valdastétt gat á endanum ekki annað en komið til móts við okkur vegna þess að við erum algjörlega ómissandi, þrátt fyrir að vera ekki háskólamenntuð.

Formaður BHM heldur því fram eins og ekkert sé að á Íslandi sé lítið uppúr úr háskólamenntun að hafa. Það er mögnuð og röng fullyrðing. Það er augljóst að háskólamenntun borgar sig. Í alþjóðlegu samhengi er munurinn á milli svokallaðra menntunarhópa á Norðurlöndunum vissulega minni en annars staðar í veröldinni. En er það ekki almennt viðurkennt að við viljum miða okkur við Norðurlöndin, en ekki lönd þar sem að grimmdin gagnvart vinnuaflinu er töluvert meiri? Þess ber einnig að geta að ef samanburður á tímakaupi háskólamenntaðra og grunnskólamenntaðra á Norðurlöndunum er skoðaður kemur í ljós að í öðrum löndum en á Íslandi eru háskólamenntaðir með 27-44% hærra tímakaup en grunnskólamenntaðir, en á Íslandi er munurinn 60% (upplýsingar frá stefnumótunar og greiningardeild ASÍ). Tímakaup háskólamenntaðra karla á Íslandi er 112% hærra en tímakaup ómenntaðra kvenna.

Formaður BHM heldur því fram að sumir háskólamenntaðir sérfræðingar starfi á afslætti fyrir samfélagið. Erfitt er að átta sig á því hann á við. En ég ætla að gera frasann hans hans að mínum með dálítilli umorðun: Félagsfólk Eflingar, vinnuafl höfuðborgarsvæðisins, framleiðendur hagvaxtarins, hefur verið látið starfa á afslætti fyrir samfélagið. Þetta fólk kom ekki að ákvörðunartökunni um að greiða ætti þeim niðursett verð fyrir unna vinnu. Nei, sannarlega ekki. Sú ákvörðun var tekin af fólki ofar í stigveldinu af algjöru skeytingarleysi gagnvart tilveruskilyrðum þeirra lægra settu. Ákörðunin var tekin af þeim sem að aðhylltust og aðhyllast hugmyndir um stéttskipt samfélag misskiptingar, en ekki velferðarsamfélag jöfnuðar. Ákvörðunin um að greiða fólki niðursett verð fyrir unna vinnu hefur haft ömurlegar afleiðingar. Meðal annars þær að 60% Eflingar-félaga hafa freka miklar eða mjög miklar fjárhagsáhyggjur. Ef að við skoðum aðeins Eflingar-konurnar hafa 65% þeirra fjárhagsáhyggjur. Árið 2009 voru 63,5% Eflingar-félaga í eigin húsnæði en nú eru einungis 38% Eflingarfélaga í eigin húsnæði. Eflingar-fólk vinnur vel yfir 40 stundir á viku til að hafa í sig og á, og nær samt ekki endum saman. Heimili láglaunafólks búa við viðvarandi hallarekstur alveg sama hvað fólk gerir til að reyna að bæta stöðu sína. Og svo mætti áfram nefna fjölmörg dæmi úr efnahagslegum raunveruleika vinnuafls höfuðborgarsvæðisins, dæmi sem að sanna að fullvinnandi fólki er einfaldlega haldið niðri af fólki sem að hefur tapað sér í græðgi og óhófi.

Formaður BHM lætur það hljóma sem svo að ákall sé frá almenningi þessa lands um að ekki verði samið með hagsmuni verka og láglaunafólks í huga. Við því vil ég segja þetta:

Ef að ákall er frá almenningi um að ómissandi vinnuafl í láglaunastörfum, bílstjórar borgarinnar, ræstingakonurnar sem halda vinnustöðum allra og verslunarmiðstöðvum hreinum, iðnverkafólkið sem framleiðir neysluvarninginn okkar, hótelþernurnar sem að halda ferðamannaiðnaðinum gangandi með vöðvaafli sínu og svita, byggingarverkamennirnir sem að byggja öll hús og hýbíli höfuðstaðarins, fiskverkafólkið sem að vinnur sjávarauðlegðina okkar, fólkið sem býr til matinn sem við borðum, konurnar sem að vinna á elliheimilunum og við almenna öldrunarþjónustu, fólkið sem að vinnur við allskonar aðra umönnun, fólkið sem vinnur við að gæta barna þessarar borgar í úrsér gengnum og vanræktum húsakosti, mennirnir sem að hirða sorpið okkar allra, og svo mætti áfram telja; ef að það er virkilega svo að almenningur kallar á að þetta ómissandi fólk eigi aftur að fara aftast í kjarasamnings-röðina til að bíða þar eftir prósentu-ölmusu hinna vel settu þá verður auðvitað svo að vera. En ef að einhver lætur sér detta til hugar að við, stolt og upprisið Eflingarfólk sem að veit nákvæmlega hversu óendanlega mikils virði við erum, ætli að hlýða slíku ákalli þá er það stórfenglegur misskilningur. Bæði á eðli okkar og eðli þeirrar baráttu sem að við heyjum um þessar mundir. Að láta sér detta til hugar að við munum samþykkja að við séum minna virði en aðrir; nei, við munum aldrei samþykkja slíkt kúgunar-verðmætamat, útbúið til að halda okkur niðri í okkar efnahagslegu réttlætisbaráttu. Þeir dagar eru liðnir og koma ekki aftur.

Formaður BHM segist vilja gera samning sem tryggi efnahagslegan stöðugleika. Ólíkt okkur, hinum krónutölu-óðu og óstilltu stéttastríðurum í Eflingu. En nálgun formannsins mun gera akkúrat hið öfuga. Leið prósentuhækkana er einmitt leið launaskriðs og höfrungahlaups. Leið prósentuhækkana er verðbólguhvetjandi og neysluvaldandi því að hún færir því fólki sem að þegar hefur það afskaplega gott enn meira og sendir það á neyslu-fyllerí. Og leið prósentuhækkana er vaxta-valdandi því að prinsinn í Seðlabankanum kann engin ráð önnur en að refsa öllum fyrir neyslu-syndir þeirra vel settu.

Formaður BHM hefur gefið kröfugerð bandalagsins nafnið Jafnréttissamningurinn 2023. Það er auðvitað mjög í tísku að nefna ýmislegt allskonar nöfnum. Sögur herma að börn séu nefnd Batman eða Barbí, og sum reyna að halda því fram að Harpan heiti alls ekki Harpan heldur Harpa. En líkt og það að nefna afkvæmi sitt Batman gerir afkvæmið ekki að raunverulegum Leðurblökumanni gerir Jafnréttissamningurinn ekkert fyrir jafnrétti. Þvert á móti. Áherslur kröfugerðar BHM munu færa þeim sem að best hafa það mest með prósentuhækkunar-nálguninni, munu auka neyslu þeirra sem að eiga miklu meira en nóg, á meðan að þau sem minnst hafa á milli handanna fá minnst. Kröfugerð BHM er verðbólgu-hvetjandi og óstöðugleika-valdandi. Það er einfaldlega ekkert jafnréttis-legt við hana. Ekki nema að við trúum því að jafnrétti verði náð með því að viðhalda ójafnrétti.

Að lokum: Við forðmaðurinn erum sammála um eitt. Það er vissulega svigrúm til launahækkana á Íslandi. En vilji minn og samninganefndar Eflingar er að svigrúmið renni þangað sem að það á heima: Hjá þeim sem að með vinnu sinni snúa hjólum atvinnulífsins, hinu ómissandi verka og láglaunafólki samfélagsins. Við höfum barist með góðum árangri og ætlum að halda því áfam. Við erum satt best að segja rétt að byrja. Við stígum fram með okkar vel unnu, sanngjörnu og góðu kröfugerð, og segjum: Við erum hér, við erum ómissandi, sættið ykkur við það.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí