Samkvæmt áætlun

Skoðun Helgi Páll Einarsson 20. apr 2024

Nú þegar skipulögð hungursneyð og útbreiðsla sjúkdóma gæti farið að setja í gang atburðarás á Gaza sem varla er þorandi að leiða hugann að, mun fjölga í hópi stuðningsmanna Ísrael sem reyna að koma sér í skjól. 

Það vakti nokkra athygli á dögunum þegar Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings, hélt ræðu í þinginu þar sem hann gagnrýndi stjórnvöld í Ísrael og kallaði eftir kosningum. Hvort ræðan er til marks um örvæntingu yfir stöðu Biden í forsetaslagnum, eða yfir því að framtíð Ísraelsríkis sé hreinlega ógnað, þá er augljóst að valdamiklu fólki úr röðum síonista er hætt að lítast á blikuna.

Fjölmiðlar hafa haldið því að okkur mánuðum saman að Biden sé orðinn pirraður á Netanyahu, að hann reyni að tala um fyrir honum en án árangurs — en gremjan virðist stafa frekar af því að forsætisráðherrann niðurlægi hann ítrekað á opinberum vettvangi, heldur en að Biden sé ósáttur við þjóðarmorðið sem slíkt. Enda heldur hann áfram í slagtogi við Antony Blinken að senda Ísraelum vopn sem augljóst er að verði notuð til fjöldamorða á almennum borgurum. Þar á meðal stórvirkar sprengjur til notkunar á einu þéttbýlasta svæði jarðarinnar. Vopnasendingar sem eru í trássi við alþjóðalög og að minnsta kosti fimm mismunandi lög í Bandaríkjunum, sem ætlað er að koma í veg fyrir vopnasölu til ríkja sem fremja stríðsglæpi og gróf mannréttindabrot. Á meðan horfir Blinken sorgmæddur í myndavélarnar og endurtekur í sífellu að Ísraelar verði að gera meira til að vernda almenna borgara. Leikrit sem allir sjá í gegnum sem vilja.

Á komandi vikum og mánuðum má telja líklegt að valdastéttin fari í auknu mæli að tala um „stríð Benjamin Netanyahu”. Að fleiri valdamiklir síonistar stigi fram og fordæmi ísraelsk stjórnvöld, en á þeim forsendum að hér sé um að ræða nokkur skemmd epli í annars heilbrigðu og eðlilegu lýðræðisríki.

En þá er mikilvægt að halda því til haga að Netanyahu og öfgamennirnir í ríkisstjórn hans, sem hafa allir sem einn kallað eftir þjóðarmorði á opinberum vettvangi, eru ekki undantekningin frá reglunni í Ísrael. Kannanir hafa sýnt að mikill meirihluti almennings þar í landi er ánægður með framgöngu hersins á Gaza, og stefnan sem núverandi stjórnvöld reka gagnvart palestínsku þjóðinni er efnislega sú sama og Ísraelsríki hefur haft frá upphafi.

Ekkert nýtt

Stjórnmálafræðingurinn Norman Finkelstein, sem lengi hefur beitt sér fyrir málstað Palestínu, sat fyrir svörum á viðburði í Princeton-háskóla nú á dögunum. Þar talaði hann um að í anda þess að láta ekki góða krísu fara forgörðum hafi ísraelsk stjórnvöld ákveðið að nýta árásina 7. október til að leysa „Gaza-vandamálið” í eitt skipti fyrir öll. Að hefndarþorsti hafi vissulega komið við sögu, sem og þörfin fyrir að lappa upp á fælingarmáttinn gagnvart nágrönnum sínum, en að stríðið hafi snúist fyrst og síðast um að losna við íbúa Gaza.

Hann taldi upp þrjár leiðir sem lágu fyrir til að ná því markmiði. Í fyrsta lagi að freista þess að smala fólkinu yfir til Egyptalands. Í öðru lagi að gera eins og Giora Eiland, fyrrverandi forstöðumaður ísraelska þjóðaröryggisráðsins, lagði til, sem er að gefa fólkinu tvo valkosti; að fara burt frá Gaza eða að vera um kyrrt og svelta. Þriðja leiðin sem Finkelstein nefndi var sú að taka fólk af lífi í massavís. 

Fyrsta leiðin mætti mikilli andstöðu forseta Egyptalands, sem sagðist ekki ætla að taka þátt í því að Palestínumenn yrðu hraktir í burtu frá heimkynnum sínum í stórum stíl, og Egyptar hófu fljótlega að byggja varnarvegg nærri landamærunum til að koma í veg fyrir straum flóttafólks út á Sinaiskagann. Seinni tvær leiðirnar höfum við svo fyrir augunum í beinni útsendingu: fjöldamorð á almennum borgurum og skipulagða hungursneyð.

Spyrill kvöldsins á viðburðinum í Princeton var blaðamaðurinn Chris Hedges, en Hedges tekur í sama streng í nýlegum pistli þar sem hann segir að ekkert af því sem við horfum upp á núna þurfi að koma á óvart. Áætlanir í þessa veru hafi legið fyrir í áratugi og að árásirnar 7. október hafi gefið Ísraelum afsökun fyrir því sem þeir hafi lengi þráð að gera, sem er að þurrka út palestínsku þjóðina. Hedges fer yfir það helsta sem Ísraelsher hefur orðið ágengt undanfarna sex mánuði; hvernig þeim hefur tekist að leggja í rúst 77% af öllum byggingum heilbrigðiskerfisins, 68% af íbúabyggð, alla háskóla og meirihluta annarra skóla og menntastofnana, 267 moskur og kirkjur, nær allar ríkisstofnanir, og Þjóðskjalasafn Gaza sem hafði að geyma 150 ára safn mikilvægra gagna um sögu palestínsku þjóðarinnar. Hvernig þeim hefur tekist að drepa meira en 34.000 manns, þar af um 14.000 börn, þó að tala látina sé líklega umtalsvert hærri þar sem fjöldinn allur af fólki liggur grafinn undir húsarústum. Tala slasaðra er yfir 75.000 og þar af eru mörg sem munu aldrei ná sér að fullu.

Hann segir að þó við höfum aldrei orðið vitni að öðru eins í árásum Ísrael á palestínsku þjóðina, þá hafi aðferðirnar löngu einkennt herferð þeirra gegn Palestínumönnum og ekkert nýtt þar á ferðinni. Þjóðarmorðið á Gaza sé lokaþátturinn í landnámsnýlendu-verkefni Ísrael, löngu fyrirséð og fyrirsjáanleg niðurstaða.

Áætlanir um þjóðernishreinsun

Hugmyndir um „tilfærslu” fólks frá Palestínu hafa fylgt síonismanum frá upphafi og mætti segja að þær séu grundvöllur hugmyndafræðinnar um þjóðríki Gyðinga. Enda byggir sú hugmyndafræði á því að Gyðingar séu í meirihluta og algerlega ráðandi í landinu, sem felur í sér nauðsyn þess að fækka í hópi innfæddra.

Árið 1937 skrifaði David Ben-Gurion, stofnandi og fyrsti forsætisráðherra Ísraelsríkis, í bréfi til sonar síns: „Arabarnir verða að fara, en við þurfum rétta tækifærið til að koma því í kring, eins og stríð.” Fyrsta stóra tækifærið gafst svo áratugi síðar, þegar hersveitir síonista lögðu í rúst meira en 500 palestínsk þorp, drápu 15.000 manns og hröktu 750.000 á flótta, yfir tveggja ára tímabil sem er þekkt sem Nakba, eða hörmungarnar. Þetta var ekki upphafið að þjóðernishreinsunum í Palestínu, sem höfðu staðið yfir um nokkurt skeið, en þarna voru væntingar meðal ráðamanna um að „klára dæmið”. 

Það mistókst, og allar götur síðan hafa Ísraelar glímt við þetta vandamál. Þeir hafa beitt ýmsum ráðum til að hrekja fólk frá heimilum sínum og til að koma í veg fyrir að það eigi afturkvæmt; hreinu vopnavaldi, drápum og eyðileggingu, en líka lögregluvaldi, lagasetningum og stjórnvaldsbrellum af margvíslegum toga.

Gremja Ísraela yfir því að sitja uppi með milljónir Palestínumanna, eftir um hundrað ára sögu tilrauna til að bola þeim í burtu, hefur í gegnum tíðina bitnað hvað mest á íbúum Gazasvæðisins. Svæðinu hefur verið lýst sem heimsins stærstu fangabúðum, en það hefur verið innilokað í grimmilegri herkví frá árinu 2007. Ísraelsher hefur ráðist þar inn með reglulegu millibili frá árinu 2008, eyðilagt innviði, tekið fólk í gíslingu, limlest og drepið – farið inn á Gaza til að slá grasið eins og það er kallað í Ísrael, til að koma í veg fyrir að samfélagið næði að vaxa og dafna.

Síðla árs 2014 gerði Ísraelsher árás sem var sú stærsta í röðinni og mannskæðasta árásin á Gaza fram til þjóðarmorðsins sem stendur nú yfir. Á meðan á þeirri árás stóð birti þáverandi aðstoðarforseti Ísraelsþings, Moshe Feiglin, ítarlega áætlun um þjóðernishreinsun svæðisins. Áætlunina birti hann í opnu bréfi til forsætisráðherrans Benjamin Netanyahu, þar sem hann afneitar tilvist palestínsku þjóðarinnar og segir að Ísraelar eigi tilkall til landsvæðisins alls og þar á meðal Gaza.

Í bréfinu leggur hann til að íbúum Gaza verði komið fyrir í tjaldbúðum við landamæri Egyptalands á meðan fundið er út úr því hvaða lönd séu tilbúin að taka við þeim. Vatn og rafmagn skuli tekið af allri íbúabyggð og hún svo sprengd til grunna. Í kjölfarið myndi herinn skipta svæðinu upp í hluta og taka til við að „útrýma” eftirstandandi meðlimum andspyrnunnar. Að þessu loknu yrði svæðið svo innlimað með óformlegum hætti eins og Vesturbakkinn og byggt upp að hætti Ísraela.

Eitthvað í ætt við þessa áætlun sjáum við nú raungerast á Gaza. Þegar þetta er skrifað voru að berast fréttir um kaup Ísraelshers á 40.000 tjöldum til að undirbúa rýmingu Rafahborgar, þangað sem búið er að reka stærstan hluta íbúa svæðisins. Og þó svo að fjöldamorð hafi ekki verið á dagskránni hjá Feiglin árið 2014 var hann heldur ákafari í nýlegu sjónvarpsviðtali, þar sem hann kallaði eftir „Dresden” sprengjuherferð á Gaza; að eldi og brennisteini yrði látið rigna yfir allt svæðið og að engu yrði eirt.

Fjölmargt áhrifafólk í Ísrael hefur sett fram hugmyndir um það hvernig stjórnvöld eigi að tækla Gaza, og það virðast engin takmörk fyrir því hvað sumir eru tilbúnir að leggjast lágt í þeim efnum. Áðurnefndur Giora Eiland, ráðgjafi varnarmálaráðherrans Yoav Gallant, skrifaði grein í dagblaðið Yedioth Ahronoth í nóvember sl. þar sem hann hvatti stjórnvöld til að standa í lappirnar gagnvart umheiminum. „Alþjóðasamfélagið varar okkur við mannúðarslysi og útbreiðslu alvarlegra smitsjúkdóma á Gaza. Við megum ekki veigra okkur við því, eins erfitt og það kann að reynast. Enda myndi alvarlegur faraldur smitsjúkdóma á suðurhluta Gazasvæðisins vera okkur í hag og draga úr mannfalli innan hersins.”

Áratuga herferð afmennskunar hefur gert það að verkum að þjóðarmorð á Palestínumönnum er rætt eins og hvert annað pólitískt viðfangsefni í Ísrael, á opinberum vettvangi. Fjölmörg dæmi um þetta má nú lesa á vefsíðunni israelquotes.com, safni hátt í 700 tilvitnana sem gefa innsýn í hugarheim síonista og staðfesta það sem blasir nú við öllum sem vilja sjá: að stofnun Ísraelsríkis fól í sér áætlun um þjóðarmorð Palestínumanna, sem hefur verið í framkvæmd allar götur síðan og er nú að ná hámarki.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí