Hvaða hlutverki á skólinn að gegna í þjóðfélaginu öðru enn að kenna börnum að lesa, skrifa, reikna og kristinfræði eins og lagt var upp með í byrjun skólaskyldu í okkar heimshluta. Það er nokkuð augljóst að þar fari saman hagsmunir heildarinnar og einstaklingsins að hver og einn kunni að lesa, skrifa og reikna en kanski ekki jafn augljóst hvað varðar kristinfræði sem nú er líklega frekar kennd sem trúarbragðafræði. Hvert er aðalmarkmið með skólanum, þar sem öllum er gert skylt að verja stórum hluta tíma síns í heil 10 ár, er það að efla einstaklinginn á hans eigin forsendum til undirbúnings fyrir innihaldsríkt og gleðifylgt líf eða forma einstaklinginn sem tönn í tannhjóli framleiðslutækja neysluþjóðfélagsins? Hver á að eiga framtíð barna okkar, þau sjálf eða fjármagnseigendur sem eiga fyrirtækin og nútildags jafnvel skóla? Auðvitað getur þetta farið saman að einhverju leyti, það getur verið mjög gaman í vinnunni ef maður var svo heppinn að rata rétt í frumskógi valkosta á þessum mótunar árum og síðan árunum í framhaldsskóla sem má að flestu leyti segja að lúti sömu lögmálum og grunnskólinn.
Nútíma neysluþjóðfélag eins og það hefur þróast er ekki bundið náttúrulögmálum hvað form eða áherslur varðar. Það er mannanna verk með þá kosti og galla sem þeim gjarnan fylgir. Það er að miklu leyti fyrir ákvarðanir stjórnmála sem það er eins og það er og líka þannig sem breytingar verða gerðar. Þegar ákvarðanir eru teknar um slíkar breytingar er gott að hafa í huga fyrir hverja þær breytingar eru hugsaðar, er verið að hagræða til þess að minka kostnað eða er verið auka gæði vegna augljósrar þarfar til slíks. Er verið að fjölga nemendum í bekkjum eða fækka þeim, sem dæmi. Það er nokkuð augljóst að gæðin í skólastarfinu eru háð því hversu margt vel menntað starfsfólk er til staðar fyrir nemendur en einnig efnisleg umgjörð skólanna. Hefur tekist vel til þegar nemendur útskrifast sem góðir og tryggir neytendur efnisgæða, tilbúnir til að þræla stóran hluta sólarhrings nánast til þess eins að vera þessir tryggu og góðu neytendur, eða er það kanski þannig að vel hefur tekist til þegar nemendur útskrifast dansandi og syngjandi með eitthvað minna af efnislegum gæðum og yrkja kanski bara ljóð eða mála mynd fyrir svefninn.