Stríðsrekstur er vanmetnasta umhverfisógnin

Skoðun Laufey Líndal Ólafsdóttir 9. ágú 2023
Aðgerðarsinnar frá Code Pink vekja athygli á umhverfisspjöllum stríðsreksturs og hernaðar.

Ein af stofnendum og helstu talskonum samtakanna Code Pink, Madea Benjamin, skrifaði fyrr á árinu pistil um vanmat alþjóðasamfélagsins og umhverfisverndarsamtaka á umhverfisáhrifum stríðsreksturs. Þar telur hún upp 10 atriði sem samtvinna umhverfisvána og hernað og beinir augum fyrst og fremst að Bandaríkjunum, sem stærsta herveldis heimsins. Madea lýsir í pistlinum yfir furðu á því að stríðsrekstur sé nær aldrei nefndur sem sérstök umhverfisvá og segir að réttilega ætti afnám hernaðar og ákall um frið að vera efst á blaði í öllum aðgerðaráætlunum gegn loftslagsbreytingum þar sem stríð leggja gríðarlega þungan kostnað á móður jörð og alla hennar ábúendur til frambúðar. Hér á eftir er lausleg þýðing á punktunum 10.

  1. Bandaríski herinn heldur verndarvæng yfir olíubransanum og öðrum auðlindafrekum iðnaði. Hernaðarinngrip bandaríkjanna hafa oft verið notuð til þess að tryggja bandarískum fyrirtækjum aðgang að auðlindum heimsins og þá sérstaklega að olíuauðlindum. Persaflóastríðið 1991 var skýrt dæmi um stríð um olíu, en í dag er stuðningur bandaríska hersins við Sádí-Arabíu eitt besta dæmið um ásæld bandarískra olíufyrirtækja í að stýra aðgengi að olíuauðlindum. Hundruðir herstöðva bandaríkjahers um allan heim eru einmitt ýmist staðsettar á svæðum með miklar auðlindir eða nálægt mikilvægum flutningsleiðum varnings. Við getum ekki slitið sambandi okkar við jarðefnaeldsneyti nema við stöðvum þessar aðgerðir Bandaríkjahers.
  1. Pentagon er einn stærsti neytandi jarðefnaeldsneytis í heiminum. Ef Pentagon væri land myndi notkun þess gera það að 47. stærsta losanda gróðurhúsalofttegunda í heiminum, stærri en heilar þjóðir á borð við Svíþjóð, Noreg og Finnland. Losun Bandaríkjahers kemur helst frá notkun vopna og annarra hergagna, en einnig af rekstri ýmissa bygginga sem telja vel yfir hálfa milljón um allan heim.
  1. Pentagon hirðir fjármagnið sem okkur vantar til að takast af alvöru á við umhverfisvána. Stærsta ógnin við þjóðaröryggi Bandaríkjanna er hvorki Íran né Kína, heldur lofslagsbreytingar. Bandaríkin gætu skorið niður framlög ríkisins til hersins um helming, og samt verið með stærri fjárveitingu til hernaðar en Kína, Rússland, Íran og Norður Kórea til samans. Þetta fjármagn gæti til dæmis nýst mun betur við fjármögnun “The Green New Deal” en aðeins eitt prósent af fjármagni hersins 2023 gæti t.d. fjármagnað 144.480 störf við græna innviði.
  1. Hernaður og hernaðaraðgerðir skilja eftir sig eitraða arfleifð. Herstöðvar Bandaríkjahers spilla landslagi, eyðileggja jarðveg og eitra drykkjarvatn og hafa 149 svæði innan Bandaríkjanna verið skilgreind sem “SuperFund” svæði þar sem Pentagon er skaðabótaskylt vegna umhverfisspjalla hersins. Þegar hefur 11,5 milljörðum Bandaríkjadala verið varið í að hreinsa slík svæði og er áætlað að það þurfi um 3,4 milljarða til viðbótar. Á einu svæði Kadena herstöðvarinnar í Japan hefur fundist arsen, blý, asbest, díoxín og fjölklóruð bífenýl (PCB efni) í jarvegi og drykkjarvatni eftir Bandaríska flugherinn. Á svæðinu eru nú m.a. fótboltavöllur og tveir skólar, en það voru áhyggjufullir foreldrar sem fyrst fóru fram á rannsókn á svæðinu, þar sem fundist höfðu tankar með spilliefnum grafnir í jörðu eftir herinn.
  1. Stríð tæta í sundur viðkvæm vistkerfi sem eru nauðsynleg heilsu fólks og loftslags. Bardagar valda raski á jarðvegi og sprengjuárásir eyðileggja nauðsynlega innviði sem ætlað er að viðhalda hreinlæti og aðskilja úrgang frá hreinu drykkjarvatni. Víða eru dæmi um að sprenguárásum hafi sérstaklega verið beint að slíkum innviðum til að valda skaða þar sem skólplagnir hafa verið sprengdar gagngert til þess að menga drykkjarvatn (t.d. í Jemen og í Palestínu). Innrás Bandaríkjahers í Írak 2003 skildi eftir sig eiturefni í jarðvegi sem hefur leitt til þess að börn sem fæðast í návígi við herstöðvarnar eru í áhættu að fæðast með lífshættulega sjúkdóma (t.a.m. hjartasjúkdóma eða krabbamein) eða ýmsar fatlanir.
Myndir frá vitundarvakningu Code Pink um umhverfisáhrif hernaðar og stríðsreksturs.
  1. Það eru ekki bara stríð sem ýta undir eyðileggingu á náttúrunni og loftslagsbreytingar, heldur auka náttúruhamfarir og loftslagsbreytingar einnig áhættuna á átökum og stríðum en hvort tveggja veldur stórtækum flótta fólks frá heimkynnum sínum. Eftir því sem hitastig fer hækkandi, hækka jafnframt líkurnar á náttúruhamförum, fólksflótta og stríðsátökum (bæði innan landa og milli ríkja). Svæðin sem eru í mestri hættu á að lenda í slíkum hamförum eru; Afríka sunnan Sahara, Mið-Austurlönd og Suður- Mið- og Suðaustur-Asía. Óeirðirnar sem urðu í Sýrlandi 2011 mátti t.a.m. rekja til mikilla þurrka (þeirra mestu í 500 ár), en þurrkarnir hröktu bændur af jörðum sínum til borganna þar sem mikið atvinnuleysi varð vegna hratt vaxandi mannfjölda. Þetta leiddi til mikillar óánægju og pólitískrar ókyrrðar sem kynnti undir óeirðirnar.
  1. Bandaríkin grafa undan alþjóðasamningum um bæði umhverfismál og stríðsrekstur og er það engin tilviljun. Bandaríkin neituðu að vera þátttakendur í Kyoto bókuninni 1997 og nýjasta dæmið um vanvirðinguna fyrir náttúrunni er afturköllun Donalds Trump á þátttöku Bandaríkjanna í Parísarsamkomulaginu 2015. Bandaríkin hafa einnig neitað þátttöku í Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum og eru nú að draga sig út úr samningum við Rússa um kjarnorkuvopn. Í krafti stærðar sinnar hunsar ríkið einnig alþjóðalög með innrásum í fullvalda ríki og viðskiptabönnum og öðrum afskiptum til að þvinga þau til hlýðni.
  1. Bæði loftslagsbreytingar og átök auka á flóttamannastrauminn, sem svo eykur á framleiðslu hergagna þar sem flóttafólki er mætt með auknum vígbúnaði lögreglu og hers. Langflest fólk sem leggur á flótta flytur sig um set innan landamæra síns ríkis, en þau sem freista þess að fara yfir landamæri leggja líf sitt og mannlega virðingu að veði þar sem ferðalögin geta verið lífshættuleg og áfangastaðurinn gjarnan flóttamannabúðir (jafnvel fangabúðir) með tæplega lágmarks aðbúnaði.  Vopnaframleiðendur heimsins hafa risavaxna hagsmuni af því að viðhalda þessum hörmungum og kynda á sama tíma undir þær enn frekar með aukinni framleiðslu vopna og víggirtra búða fyrir flóttafólk. Samkvæmt skýrslu frá Alþjóðabankanum frá 2018 mun fólki sem leggur á flótta af völdum loftslagsbreytinga stóraukast á næstu árum og þá helst frá fátækustu og fjölmennustu svæðum heimsins.
  1. Hervaldi ríkisins er beitt gegn samfélögum sem berjast gegn ágangi stórfyrirtækja á heimili þeirra og nærumhverfi. Samfélög sem reyna að vernda heimkynni sín fyrir olíborunum, námugreftri, stórfelldri verksmiðjuræktun og öðrum náttúruspillandi iðnaði er mætt með vopnum og hernaðaraðgerðum og hafa hundruðir aktivista verið drepnir í slíkum aðgerðum í Suður-Ameríku og víðar á undanförnum árum. Í Bandaríkjunum var mótmælendum frumbyggjasamfélaga í Suður-Dakóta mætt með táragasi og öðru lögregluofbeldi þegar Keystone olíuleiðslunni var friðsamlega mótmælt. Hugtakið “eco-terrorist” (umhverfisverndarhryðjuverkafólk) hefur verið fest í sessi til að berja slíkar hreyfingar á bak aftur með kerfisbundnum aðgerðum ríkisvaldsins.
  1. Loftslagbreytingar og kjarnorkustríð eru hvort tveggja ógn við allt líf á jörðinni og hafa sameiginlegan þann eiginleika að geta þurrkað út mannkynið. Kjarnorkusprengjan var fundin upp og þróuð af alheimshernaðarmaskínunni en er samt ekki oft nefnd sem sérstök ógn við tilvist mannkyns og jarðarinnar. Jafnvel mjög “takmarkað” kjarnorkustríð, þar sem aðeins 0,5% allra kjarnorkuvopna heimsins yrðu notuð, gæti valdið stórskaðlegum loftslagsbreytingum og sett 2 milljarða manns í bráða hættu. Dómsdagsklukka kjarneðlisfræðinga tifar og aldrei hefur verið mikilvægara en nú að samningurinn um bann við kjarnorkuvopnum (TPNW) sé undirritaður og lögfestur af öllum ríkjum. Það er stórkostleg þörf á samvinnu umhverfisverndarsamtaka og friðarhreyfinga að taka höndum saman  gegn kjarnorkuvopnum og stöðva þessa yfirvofandi ógn við allt líf á jörðinni í eitt skipti fyrir öll.

Að lokum er vert að taka fram að Dómsdagsklukka kjarnorkuvísindamanna hefur færst framávið um 10 sekúndur (úr 100 sekúndum í 90) síðan greinin hér að ofan var birt í janúar á þessu ári. Það ætti ekki bara að vera umhugsunarefni, heldur grafalvarleg viðvörunarbjalla til aðgerða gegn stríðsrekstri í heiminum ásamt pólitíkinni og iðnaðinum sem drífur hann áfram.

Samtökin Code Pink hafa barist fyrir ákalli um friðarviðræður um stríðið í Úkraínu fram yfir auknar hernaðaraðgerðir frá byrjun. Samtökin benda á að á meðan stórfé sé varið til hernaðaraðgerða sé engan áhuga að finna meðal stjórnmálafólks og flokka til friðarviðræðna og illa hefur tekist að ná til ráðamanna með þann boðskap þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. 

Stríð er ekki grænt – Code Pink

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí