Þjóðhátíðardagur Katalóna

Skoðun Guðmundur Hrafn Arngrímsson 11. sep 2023

Í dag 11. september er þjóðhátíðardagur katalóna en þar í landi ber hann nafnið La diada eða einfaldlega “dagurinn”. Á þessum degi árið 1714 lutu þeir í lægra haldi gegn Kastillíska konungsveldinu og alræði konungs var inleitt. Ósigurinn kom í kjölfar 13 mánaða umsáturs um höfuðborgina Barcelona sem leiddi til mikillar hungursneyðar og hörmunga fyrir íbúa borgarinnar. Með ósigrinum lauk spænska erfðastríðinu sem hafði staðið yfir í 13 ár. Saga þessa dags er mörkuð af valdatafli spænsks aðals og evrópskra konungsvelda sem leiddi til ofsókna, þrenginga og ofbeldis gagnvart katalónskri þjóð og stofnunum hennar.

Katalónía verður til
Við lok 8. aldar sameinuðustu nokkur héruð á norðaustanverðum Íberíuskaganum í mótspyrnu við innrás og uppgang Kalífsins í Kordóba sem hafði sífellt verið að færa sig norðar eftir skaganum og leggja undir sig undir sig meira landssvæði. Strax á 9. öld var Katalónía orðin að sjálfstæðu þjóðríki en það hafði þá rifið sig laust undan stjórn karólínska ættarveldisins í Frakklandi. Náði landsvæði þess norður yfir Pyreneafjöllin þar sem Katarar réðu ríkjum og inn á landssvæði sem nú er þekkt sem Occitanía. Tvö hundruð árum síðar eða árið 1137 gekk greifinn af Barcelona í hjónaband með drottningunni af Aragon og þannig í bandalag með Aragónum í viðleytni til að treysta betur mátt þeirra til að hrinda innrásum múslima úr suðri. Landssvæði Aragon náði langt suður eftir austurhluta Íberíuskagans og innan þess var til að mynda konungsdæmið Valencia.

Við þetta bandalag sameinuðust katalónar undir nafninu Katalónía, en nafn landsins kom fyrst fyrir í Ítölsku riti frá árinu 1117 þar sem landi og þjóð er líst. Árið 1164 viðurkennir svo Alfons konungur af Aragon Katalóníu sem löglegu og sjálfstætt ríki. Það var svo árið 1258 sem Jaume þáverandi konungur Aragon skrifaði undir sáttmála við Loðvík 9. frakklandskonung en með sáttmálanum er sjálfstæði Katalóníu staðfest. En við undirritun sáttmálans samþykkti Loðvík samtímis að falla frá kröfum um tilkall þess landsvæðis sem Karlamagnús forfaðir hans hafði lýst sem hernaðaralegri framlínu og hlutlausu svæði í átökum við Kalífatið á Íberíuskaganum en innan þess svæðis var Katalónía langstærsta einingin.

Við þetta samþykkti Jaume af Aragon hinsvegar að franska konungsdæmið ætti tilkall til alls þess landsvæðis sem hafði verið undir stjórn Karólínska ættarveldisins sem stofnað var til af Karlamagnúsi og náði yfir stóran hluta af vestur Evrópu. Til að tryggja sjálfstæði Katalanóíu samþykkti Jaume á sama tíma að gefa eftir eigið tilkall til þess hluta af Katalóníu sem lá fyrir norðan Pyreneafjöllin, svæði sem er þekkt sem landssvæði Katara og inniheldur meðal annars hinn fræga kastala Carcassonne.

Stjórnkerfi þróað í Katalóníu
Árið 1214 var komið á löggjafarþingi í Katalóníu með aðsetur í höfuðborginni Barcelona og er það ein af elstu starfandi löggjafarsamkomum í Evrópu. Rætur þess er raktar til ársins 1192 eftir að almenningur kom saman og tók þátt í þinghaldi um friðarsamninga. Katalónar höfðu um skeið viðhaft slíkar mikilvægar ákvörðunartökur með aðkomu almennings og er til katalónskt rit frá árinu 1175 sem lýsir þeirri ráðstöfun. Að mati margra sagnfræðinga varð katalónska þingið fljótlega að fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir í Evrópu sem hófu að stofna til þinghalds um stjórnkerfi sín. Þó var katalónska þingið í grundvallaratriðum frábrugðið langflestum öðrum þingum sem spruttu upp í álfunni því það var sjálfstætt löggjafarþing sem ekki sótti umboð sitt til konungs. Algengast var að þinghald í Evrópu væru aðeins til eiginlegra ráðgjafa til konunga og viðkomandi hirða sem þá ríktu. Þrátt fyrir að þinghald yrði almennt fyrirkomulag víða í álfunni voru það eftir sem áður konungarnir em gátu einir annaðhvort hafnað eða samþykkt tillögum þinganna. Að mati margra sagnfræðinga var katalónska þingið fyrirmynd að enska þinginu sem var stofnað árið 1236 og starfaði til ársins 1707.

Borgarastríð í Katalóníu og bakgrunnur þess
katalónska þingið starfaði með reglubundnum hætti næstu aldir í samstarfi við konungsríkið Aragon eða allt fram til ársins 1714, öll ákvarðanataka um lög og réttindi borgarana lá þó alltaf hjá þinginu sjálfu.

Árið 1462 upphófst borgarastríð í Aragon á milli annars vegar katalóna sem vildu vernda stjórnarskrárbundinn rétt sinn og stöðu þingsins og hinsvegar Aragóna sem sem vildu auka vald konungs. Upphófst stríðið vegna ásælnis Juan II sem þá var orðinn konungur yfir Aragon. Átti Juan í miklum útistöðum við son sinn Carlos sem hann átti frá fyrra hjónabandi. Þótti konugnum sonur sinn helst til frjálslyndur og hallur að alþýðumenningu, því hann sótti í að rita bækur og var músikalskur. Carlos giftist ungri aðalsdóttur sem dó aðeins sex árum síðar en eftir andlát hennar eignaðist hann alls þrjú börn utan hjónabands. Carlos vildi giftast síðar Ísabellu af Skotlandi en því hafnaði faðir hans.

Átök feðganna mögnuðust og ekki síst vegna þess að eftir andlát móður Carlos, giftist faðir hans annarri konu sem lagði fæð á Carlos. Þar sem Carlos studdi ekki ásælni föður síns í frekari völd og þótti laus í reipi varð hann fyrir reiði stjúpmóðurinnar. Fór Carlos því í útlegð til föðurbróðir síns á Ítalíu en þegar sá lést var Carlos fangelsaður og fluttur til Majorca. Carlos sóttist eftir því í framhaldinu að fá að giftast Ísabellu af Kastillíu en stjúpmóðir hans hafði hinsvegar þegar gert þá ráðstöfun að hennar eigin sonur Ferdinand II ætti að giftast henni. Sú ráðstöfun kom til vegna áætlana um að sameina Aragon og Kastillíu og leggja með því grunn að útþennslustefnu sameinaðs konugsríkis ásamt því að reyna að hrekja múslima endanlega af Íberíuskaganum.

Katalónar tóku vel á móti Carlos eftir vistina í fangelsi og studdu hinn efnilega og alþýðlega prins, þeir mótmæltu jafnframt kröftuglega fyrirætlunum um aukin völd konungs. Þegar Carlos hóf að ræða beint við Enrique IV konung í Kastillíu en hann var bróðir Ísabellu af Kastillíu sauð uppúr á milli þeirra feðga vegna þess að Juan af Aragon áleit Enrique IV sinn helsta óvin. Enrique sem var uppnefndur “hinn getulausi” átti bróðir sem hét Alfons og gekk sá undir nafninu “hinn saklausi”. Alfons hinn saklausi lést einungis 14 ára gamall og ber mörgum heimildum saman um að hann hafi verið skorinn á háls. Við andlátið tók Ísabella systir hans við öllum skyldum og þeim eignum sem hann lét eftir sig. Fljótlega eftir þetta var Enrique svo þvingaður til að stíga niður af konungstóli og eftirláta hásætið til Ísabellu systur sinnar. Kom sú ráðstöfun í kjölfar efasemda um að hann gæti getið af sér börn og þarmeð lögmæta erfingja.

Þegar Carlos var hnepptur í fangelsi í kjölfar samtals við Enrique upphófst mikil mótmælaalda í Barcelona sem endaði með því að Juan af Aragon ákvað að leysa katalónska þingið upp. Með því braut hann á aldagömlum lögum katalóna og í kjölfarið lýstu þeir yfir stríði við Aragóna. Stríðinu lauk með fullnaðarsigri katalóna sem þvinguðu konunginn til að viðurkenna erfðarrétt Carlos sem elsti sonur hans og réttmætur erfingi. Jafnframt var konungi bannað að stíga inn á katalónskt landssvæði nema með sérstöku leyfi þingsins.

Carlos deyr á grunsamlegan hátt
Fljótlega eftir að Carlos hóf að samskipti beint við Enrique deyr Carlos snögglega á mjög grunsamlegan hátt. Heimildum ber saman um að Juan sjálfur hafi örugglega borið ábyrgð á dauða hans með því að láta eitra fyrir honum. Er líklegast að Juan hafi gert það að áeggjan konu sinnar sem vildi tryggja að hennar eigin sonur sæti einn og óskoraður að erfðarréttinum og krúnu Aragons. Við dauða Carlos stofnaði stjúpmóðir hans í framhaldinu til klofnings á meðal annars vegar aðalsins í katalóníu og athafnamanna/bænda hinsvegar í þeim tilgangi að fá katalónska þingið til að afnema bannið við að eiginmaður hennar gæti stigið á katalónska jörð. Jók þetta á átökin sem höfðu byrjað með sameinaðri andstöðu katalóna við ásælni konungs og en varð að innbyrðis átökum milli stétta á sama tíma. Breiddist stríðið út um stóran hluta katalóníu og náði á tímabili vel inn yfir landamærin við Frakkland í norðri. Lauk stríðinu eftir að bandamenn katalóna hörfuðu heim til Frakklands og Juan af Aragon upphóf mikla sókn. Fór svo að lokum að Juan hafði sigur en samþykkti þó að heita tryggð við þær ákvarðanir katalónska þingsins sem höfðu verið teknar á meðan að Carlos sonur hans hafði búið á meðal þeirra.

Ísabella og Ferdinand
Stjúpmóðir Carlos tóks ætlunarverk sitt og gekk sonur hennar Ferdinand gekk að eiga Ísabellu af Kastillíu. Þegar Ferdinand varð konungur árið 1479 hafði Ísabella verið drottning af Kastillíu í fjögur ár. Þau urðu fyrstu ríksierfingjarnir til að ríkja yfir sameinuðum Spáni, eins og við þekkjum landið í dag. Valdatími þeirra varð mjög örlagaríkur fyrir Spán og þau talin eiginlegir stofnendur ríkisins. Meðal þess sem þau stóðu fyrir á valdatíma sínum var upphaf hins alræmda spænska rannsóknarréttar, arðrán og þjóðarmorð í suður Ameríku og ofsóknir gagnvart gyðingum. Við dauða Ísabellu árið 1504 varð Ferdinand einvaldur á Spáni og hefur þar síðan ríkt erfðarveldi.

Uppreisn uppskerumannana
Áratugirnir sem fylgdu voru róstursamir þar sem katalónar reyndu látlaust að standa vörð um sjálfstæði sitt og stofnanir sínar. Tryggð katalóna við stofnanir landsins jókst mikið en samtímis jukust átök og árekstrar við konungsveldið. Katalónar voru áfram afhuga konugsveldi enda búið við sjálfstætt löggjafarþing um aldir.

Náðu þessi átök hámarki í stríði milli sjálfstæðissinna í Katalóníu og spænska konungsveldisins árið 1640, stríð sem stóð í tólf ár. Katalónar höfðu hafnað því að taka þátt í kostnaðarsömu hernaðarbrölti spánarkonungs og urðu þeir í kjölfarið fyrir sífellt meiri ofsóknum og þrengt frekar að réttindum þeirra og stöðu. Fór svo að katalónar drápu fulltrúa konungs og var spænska hernum í kjölfarið stefnt þangað. Katalónar bjuggu ekki sjálfir yfir eigin her heldur stofnuðu til eigin andstöðusveita almennings. Uppistaða þeirra voru bændur vopnaðir því sem hendi var næst sem oftast voru landbúnaðartól af ýmsu tagi. Fékk stríðið því nafnið guerra dels segadors eða “stríð uppskerumannana”.

Fengu Katalónar að hluta til stuðning frá frökkum í stríðinu og náðu að stofna lýðveldi árið 1641 með þeirra stuðningi. Lýðveldið varð þó skammlíft því að katalónar voru gjörsigraðir vegna yfirburða spænska hersins. Stríðið var fyrst og fremst stríð við spænska konunginn en tók á sig aðra mynd eftir sem á leið. Þar sem bændurnir fundu til máttar síns fóru þeir í auknum mæli að beina spjótum sínum að sínum eigin aðli sem oftar en ekki var í einhversskonar slagtogi við konung. Endaði stríðið sem allsherjar stéttarstríð þar sem bændurnir börðust gegn habsborgarveldinu, einu stærsta ættarveldi sögunnar ásamt því að berjast gegn auðvaldinu í eigin röðum.

Við ósigurinn misstu katalónar töluvert af landssvæði sem nú er innan frönsku landamæranna. Kom það til í samningum Spánar og Frakklands við lok þrjátíu ára stríðsins sem þeir höfðu háð. Með samningunum gaf spánarkonungur hluta af Katalóníu til hins franska kollega síns. Þar með misstu katalónar stuðning frakka og voru núna alveg undir hinum spænska konungi. Stríðið býr enn í þjóðarminni katalóna og fjallar meðal annars þjóðsöngur þeirra “el segadors” um það.

Spænska erfðastríðið.
Spænska erfðastríðið hófst svo stuttu seinna eða árið 1701 eftir andlát Karls II sem var konungur yfir spænska veldinu en þá náði m.a. yfir Filipseyjar, stóran hluta Ítalíu og hluta Hollands ásamt nánast allri suður Ameríku. Við andlát Karls upphófust átök um erfðir veldisins þar sem Karl hafði ekki eignast erfingja. Veldistíma hans er minnst sem einskonar endalokum fyrir spænska veldið en ekki síður vegna þess að karl erfði sjálfur krúnuna við 3ja ára aldur og lifði við mikið heilsuleysi alla ævina. Sagt hefur verið að strax við fæðingu hafi endalok spænska veldisins verið ráðin og hann borið örlög þess á herðum sér. Valdastéttir Evrópu eru sagðar hafa beðið dauða hans nánast allt hans líf og þráttað látlaust um réttin til erfða á Spáni. Þrátt fyrir heilsuleysi og fötlun náði hann að halda landssvæðum spænska veldisins og lék stórt hlutverk í andspyrnunni við útþennslustefnu Loðvíks 14. frakklandskonungs.

Fyrir dauða sinn útnefndi Karl barnabarn Loðvíks sem erfingja spænsku krúnunnar og tryggði þar með bandalag frönsku og spænsku konungsveldanna. Þar með varð spænska krúnan hluti af hinu mikla evrópska ættarveldi bourbóna. Habsborgarar mótmæltu slíkri ráðstöfun harðlega en þeir voru annað slíkt ættarveldi með rætur í erkihertogadæmi Austurríks og hluti af hinu heilaga rómverska heimsveldi germanskra þjóða. Habsborgarar sem höfðu gert bandalag við englendinga og hollendinga um að hefta útþennslu og áhrif frönsku krúnunnar í Evrópu töldu sig eiga tilkall til spænsku krúnunnar vegna gildandi erfðarreglna og voru þeir í upphafi studdir af englendingum sem studdu kröfu habsborgara.

Enski konungurinn sem bar einnig nafnið Karl II hafði þó gert leynilegan samning við Loðvík um stuðning við fyrirætlanir hins síðarnefnda um að ná spænsku yfirráðasvæði í Hollandi undir sitt vald. Lofaði Karl að styðja á sama tíma kröfur Loðvíks um tilkall erfingja hans til spænsku krúnunnar gegn því að fá mikla fjármuni fyrir vikið. Lofaði Loðvík honum svo stórri upphæð að honum tókst meira að segja að kreista úr Karli loforð um að láta skírast til kaþólskrar trúar en eitt helsta markmið hans var að treysta stöðu kaþólsku kirkjunnar á meginlandinu.

Habsborgarar og franska konungsveldið höfðu háð blóðugt og kostnaðarsamt stríð á árunum 1688-1697 sem hefur verið kallað níu ára stríðið. Mikil hungursneyð hafði á sama tíma leikið stóran hluta Evrópu grátt og því nauðsynlegt fyrir aðila að semja um frið. Hið mikla þrætuepli um tilkallið til spænsku krúnunnar sem hafði hangið yfir evrópskum stjórnmálum í 30 ár náðist þó ekki að leysa í þeim samningunum. Í árslok árið 1700 tilnefndi Karl II af Spáni Filippus af Anjou barnabarn Loðvíks sem erfingja sinn og þar með hófst spænska erfðastríðið, óöld sem stóð í 13 ár.

11. september 1714
Spænska erfðarstríðinu lauk formlega þann 11. september 1714 eftir þrettán mánaða umsátur. Nokkrum árum áður hafði Karl II af Austurríki lent skipaflota sínum við strendur Katalóníu og með því hafið innrás inn í Spán. Náði hann Katalóníu fljótt á sitt vald og gengust katalónar hönum á hendur og studdu kröfur hans um tilkall til spænsku krúnunnar. Karl lýsti sig í kjölfarið sem hæstráðanda í landinu sem katalónska þingið samþykkti. Í kjölfarið börðust Katalónar með herliði hans gegn sameinuðum herjum frakka og spánverja. Karl II stýrði síðasta þingi katalóna árið 1706 en á því þingi voru samþykkt aukin einstaklings, pólitísk og borgaraleg réttindi. Staðfesti hann á sama tíma ákvörðun fyrra þings um friðhelgi einstaklinga og stofnun stjórnlagadómstóls hafði völd til að sækja konung og hans fylgdarmenn til saka.

Það fór þó svo að lokum að herir spánverja og frakka höfðu betur með allsherjar umsátri um Barcelona og linnulausum sprengjuárásum á íbúðaverfin í borginni. Með því framkölluðu þeir hörmungar og hungursneyð yfir almenning innan borgarmúranna. Eftir að spánverjar höfðu fengið mikinn liðsauka frá franska konungnum upphófst lokaorustan þann 11. september. Byrjaði hún klukkan hálfjögur að morgni og stóð fram eftir degi. Leiðtogar katalóna voru drepnir í upphafi orustunnar en borgarbúar börðust áfram. Að kvöldi dags gáfust þeir upp og óskuðu eftir viðræðum um uppgjöf. Stóðu viðræðurnar langt fram á næsta dag þar sem Filippus, tilnefndur erfingi að spænsku krúnunni krafðist þess að katalónskum almenningi skyldi refsað grimmilega fyrir andstöðu við sig. Foringi spænska hersins, Berwik hertogi ákvað þrátt fyrir það að semja til að koma í veg fyrir áframhaldandi átök og frekara blóðbað.

Í kjölfarið var katalónska þingið leyst upp og þrengt mikið að réttindum katalóna og stofnana þeirra. Þrátt fyrir að þingið hafi verið leyst upp og öðru komið á undir stjórn koungs þá bjuggu þeir við eigin áfram við eigin efnahgasleg landamæri. Sjálfstæðisbaráttan féll í ró í rúmlega 100 ár en óx ásmeginn í upphafi 19. aldar. Endaði það m.a. í sjálfstæðisyfirlýsingu árið 1873. Frá þeim tíma hafa þeir í þrígang lýst yfir sjálfstæði og reynt að losa sig undan oki spænsku krúnunnar eða árin 1931, 1934 og 2017, í öll skiptin hafa spænsk yfirvöld mætt þeim yfirlýsingum með ólýsanlegu ofbeldi og kúgun. Eitt elsta skilgreinda þjóðríki í Evrópu, sem hefur búið við sömu landamæri í meira en þúsund ár og hefur háð samfellda sjálfstæðisbaráttu í rúmlega 500 ár býr enn við ofbeldi og kúgun.

Ég óska katalónum til hamingju með daginn, í lok hans er einum degi styttra í endanlegt sjálfstæði ykkar.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí