Vélbrjótar nútímans

Skoðun Gunnar Smári Egilsson 21. feb 2024

Ímyndum okkur að Íslandi muni þróast með svipuðum hætti og höfuðborgarsvæðið gerði á síðustu öld. Höfuðborgarsvæðið dró þá til sín fólk af landsbyggðinni vegna breyttra atvinnuhátta, fyrst vegna vélvæðingu sveitanna og útgerðarinnar, síðan fjölþættari atvinnuuppbyggingu, aðdráttarafls fjölbreytilegrar menningar og fleiri tækifæra. Samfélagið og atvinnulífið mun halda áfram að þróast. Undanfarið hefur það fyrst og fremst verið vegna vaxtar ferðaþjónustu en að einhverju leyti vegna tæknifyrirtækja og fjölbreytilegri starfa. En í framtíðinni mun það gerast með öðrum hætti. Þótt vöxtur framtíðar verði af öðrum ástæðum en vöxtur síðustu aldar er óráðlegt að gera ráð fyrir skyndilegri stöðnun. Ísland mun halda áfram að vaxa, eins og höfuðborgarsvæðið gerði á síðustu öld.

Borgir þróast öðruvísi en dreifðar byggðir

Kenningin er sem sé sú að þróun samfélagsins haldi áfram. Enginn sá fyrir þær samfélagsbreytingar sem fylgdu tuttugustu öldinni. Og við sjáum heldur ekki nú fyrir þær breytingar sem sú tuttugasta og fyrsta mun færa okkur. Við sjáum þó að fólksflutningar standa enn yfir, stórar og millistórar borgir soga til sín fólk, ekki bara af landsbyggðunum í kring heldur víða að úr heiminum. Þær samfélagsbreytingar sem hófust með iðnbyltingunni halda áfram. Hagvöxtur í borgum er miklum mun meiri en í dreifðari byggðum, lífskjör eru ar betri í krónum talið, þar verður til atvinna og fólk sækist í hana. Og fólk býr til samfélag og þar sem er fleira fólk vex samfélagið hraðar og dafnar.

Ísland er í dag í reynd eins og meðalstór borg í Evrópu og hefur aðdráttarafl, orku og vöxt sem slík. 94% landsmanna búa í bæ, hlutfallið er 83% í Noregi til samanburðar, 81% í Frakklandi og 71% á Ítalíu. Ísland mun því vaxa eins og borgríki næstu áratugina, líkar því sem höfuðborgarsvæðið gerði á síðustu öld en Ísland sem heild.

Ísland er borgríki

Um 80% landsmanna búa í klukkutíma radíus kringum Lækjartorg, frá Borgarnesi, austur að Árborg og út í Reykjanesbæ. Og netið hefur stytt fjarlægðir innanlands, eins og það hefur í reynd fært Ísland af útnára heimsins. Ísland hefur sömu tækifæri og hver önnur meðalstór borg í dag, sem er gerólík staða en var fyrir einni öld. Fjarlægðir eru í dag aðrar en áður, bæði í raunheimi og á netinu. Á netinu er Ísland jafn langt frá miðjunni og hver annar staður. Ef landinu tekst að byggja hér upp gott samfélag sem tryggir fólki góða afkomu og öryggi á Ísland að geta vaxið eins og helstu vaxtarsvæði heims. 

Þetta má orða svona: Ef við viljum ekki að Ísland vaxi eins og önnur vaxtarsvæði verðum við að grípa til aðgerða til að drepa niður vöxtinn. Og ástæða þess að ég er að ræða þetta er sú, að það stjórnmálafólk sem vanalega vill alls ekki hefta vöxt talar nú fyrir því að hefta verði vöxtinn vegna þess að hann leiðir til þess að útlendingar flytja til Íslands. Það vill vöxtinn en ekki augljósar afleiðingar hans, að þar sem borgríkið á suðvesturhorninu getur ekki lengur dregið til sín fólk af landsbyggðunum þá verður það (og Ísland sem heild) að sækja fólk til landsbyggða, bæja og borga annarra landa. Eins og vöxtur Reykjavíkur dró að sér fólk af landsbyggðunum mun vöxtur Ísland héðan í frá, eins og undanfarin tuttugu ár, draga til sín fólk frá öðrum löndum. Til að stoppa fólksstrauminn þarf að hefta vöxt Íslands. Vöxturinn getur ekki orðið nema að hingað flytji fólk.

Í raun ekki fleiri innflytjendur hér en á sambærilegum svæðum

Ástæða þess að það er mikilvægt að skilgreina Ísland sem vaxtarsvæði í samhengi við fjölgun íbúa og hlutfall innflytjenda má sjá í samanburði við Noreg. Hagstofa Íslands skilgreinir 20% landsmanna innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð. Í Noregi er þetta hlutfall 14%. En í Osló er hlutfallið 30% og 25% í Drammen þar skammt frá. Í Tromsö er hlutfallið 10%, svo dæmi sé tekið, og enn lægra í dreifðari byggðum. Það er því hálf glórulaust að bera fjölda innflytjenda á Íslandi saman við Noreg, án þess að leiðrétta fyrir muninum á milli vaxtarsvæði og dreifðari byggðum.

Landsmenn gætu orðið milljón árið 2050

Kemur þá að samkvæmisleiknum, ímyndum okkur að Íslandi muni þróast með svipuðum hætti og höfuðborgarsvæðið gerði á síðustu öld. Í janúar í fyrra bjuggu 387.758 manns á Íslandi. Ef íbúum mun fjölga á sama hraða og íbúar höfuðborgarsvæðisins gerðu á síðustu öld frá 1923, má gera ráð fyrir að landsmenn verði 700 þúsund árið 2040, rúm milljón árið 2050, rúmlega 1,4 milljón 2060 og næstum tvær milljónir 2080. 

Auðvitað þróast þetta ekki akkúrat svona, glöggir sjá t.d. að þarna má merkja hægan vöxt í kreppunni og mikinn á stríðsárunum, en eftir sem áður ætti fólk að fara að venja sig við þessa framtíðarsýn. Og velja sér stjórnmálaflokka sem ráða við þessa hugsun. Flokkar sem ætla ekki að byggja upp innviði heldur ganga með þær grillur að lausnin sé að fækka innflytjendum, magna upp andúð gegn þeim, munu ekki einungis eyðileggja landið heldur splundra þjóðinni. Það er í raun magnað að nokkur skuli hlusta á þetta stórhættulega fólk.

Vélbrjótar nútímans

Líkja má því stjórnmálafólki sem boðar fækkun innflytjenda við vélbrjótana í upphafi iðnbyltingar. Auðvitað var það rétt hjá vélbrjótunum að vélarnar voru að umbreyta því samfélagi sem þær komu inn í, margt gerbreyttist. Og við getum horft til baka og séð að vélvæðingin bar ekki aðeins með sér aukna velsæld heldur færði það völd í samfélaginu frá aðlinum til borgarastéttarinnar, sem hefur ekki alltaf farið vel með völd sín. Og æ verr. En vandi vélbrjótana var að lausn þeirra fór þvert á þróunina, þeir reyndu að stöðva óviðráðanlegt afl sem ekki átti aðeins rætur í tæknibreytingum heldur fólksflutningum þar sem alþýða manna flutti þangað þar sem hún sá fram á betri kjör. Og alþýðan skipulagði sig til að berjast við auðvaldið og náði til sín meira valdi en hún hafði haft áður og mun betri lífskjör, meðal annars í krafti stöðu sinnar í vélvæddum heimi.

Ég veit ekki hvernig alþýða manna mun nýta sér tækifæri sín í fyrirsjáanlegum breytingum á íslensku samfélagi, sem mun halda áfram að vaxa að draga til sín fólk. En lausnin er klárlega ekki vélbrjóta-heróp stjórnmálafólks sem vill nýta sér ótta almennings gagnvart óvissu framtíðarinnar til að brjóta vélarnar, stöðva aðflutnings fólks til landsins, lofandi að það muni bæta afkomu almennings þegar öllum ætti að vera ljóst að það mun grafa undan landi og þjóð. 

Mesta hættan

Mesta hættan í íslensku samfélagi er ekki að innflytjendur grafi undan samfélaginu, íslenskunni eða svokölluðum okkar gildum. Mesta hættan er stjórnmálafólk sem talar um innflytjendur sem ógn og kostnað, en ekki auðlegð og von. Þegar þessi óttastjórnmál eru að leggjast yfir alla flokka á þingi er mikilvægt að byggja upp mótvægi. Við getum ekki falið vélbrjótum að marka leiðina til framtíðar.

Ef þeir verða ekki stoppaðir munu vélbrjótarnir ekki aðeins skaða vöxt lands og þjóðar heldur magna upp úlfúð gagnvart innflytjendum, grafa undan öryggi um 20% landsmanna, hópi sem mun óhjákvæmilega vaxa enn frekar á næstu áratugum. Og vélbrjótarnir munu draga athyglina frá nauðsynlegri uppbyggingu innviða og grunnkerfa og með því grafa undan velsæld og öryggi.

Og þetta mun stjórnmálafólkið gera í nafni þess að það sé að verja ykkur. Ekkert er fjarri lagi. 

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí