Ekkert magn kratískrar kurteisi eða vinsemdar mun bjarga okkur

Skoðun Andri Sigurðsson 24. jan 2023

Sósíal-demókratismi er ófær um að leiða fram þær breytingar sem hann segist standa fyrir. Ástæðan er stéttasamvinna, þjónkun við viðskiptalífið, og skortur á gagnrýni á rót vandans, kapítalismann sem er kerfið sem samfélög okkar ganga fyrir. Ég benti á þetta í gagnrýni á Jacinda Ardern, fráfarandi forsætisráðherra Nýja Sjálands, í spjallhópi sósíalista fyrir tveimur árum og fékk bágt fyrir frá félaga Merði Árnasyni sem svaraði með biturð og beiskju:

„Er hún ekki bara hálfgerður stéttasvikari? Allavega kratadrusla. Viljum ekki sjá svona sósíalfasista í rikisstjórnum.“

Á þessum tíma voru vinsældir Ardern gríðarlegar og hún var oftar en ekki sögð vera framtíðin í stjórnmálum hinnar frjálslyndu miðju. Sjálf lofaði hún stórkostlegum breytingum á samfélaginu og sagði að nýfrjálshyggjan hefði brugðist okkur. Vinsemd, samkennd og samúð voru einkunarorð hennar.

Úttekt Branko Marcetic hjá Jacobin sýnir hins vegar það sem margir sósíalistar vissu. Millistéttar kratismi Ardern var einfaldlega ekki að fara að breyta neinu sem skiptir máli:

„Í stað þeirrar „umbreytingar“ ríkisstjórnar sem Ardern lofaði, fylgdu sex ár af hefðbundinni miðjustjórn sem var í grundvallaratriðum fullkomið framhald forvera hennar, hægrisinnaða Þjóðarflokksins, sem hvorugur þessara aðila vill viðurkenna. Á leiðinni stýrði Ardern, sem hefur lýst sjálfri sér sem „lýðræðislegum sósíalista“, gífurlegri tilfærslu auðs upp á við og miklum efnahagslegum þrengingum sem höfðu jafnvel áhrif á millistéttarfólk.“

En þrátt fyrir margt gott líkt og hærri lágmarkslaun, tvöföldun veikindaleyfis, skattaafslátts til fjöskyldna, og lækkun skólagjalda, stórhækkaði húsnæðiskostnaður í landinu og heimilisleysi jókst, á sama tíma og fyrirtæki greiddu sér út met arð í boði COVID aðgerðar stjórnvalda (líkt og á Íslandi og víðar). Biðlistar eftir félagslegu húsnæði hafa þar að auki lengst og á þeim sex árum sem Ardent var við völd tókst henni aðeins að draga úr barnafátækt um 3% þrátt fyrir að það væri ástæðan fyrir því að hún væri í stjórnmálum, að hennar sögn. Barnafátækt á Nýja Sjálandi er enn talsvert meiri en innan OECD meðaltalið.

Stjórninn hennar neitaði að auka skuldir ríkisins en líka að auka tekjur með því að skattleggja hin ríku. Frekar en að fylgja eftir djörfum kosningaloforðum, sneru Ardern og fjármálaráðherra hennar, Grant Robertson, sér fljótt að því að forgangsraða „ábyrgð“ í ríkisfjármálum. Strax í byrjun valdatíðar sinnar samþykktu þau útgjaldareglur sem jafngiltu „spennitreyju í ríkisfjármálum“ og eyddu næstu árum í að monta sig við fyrirtækjaeigendur og leiðtoga í viðskiptalífinu hversu litlu þau eyddu og hversu miklum skuldum þeim hafi tekist að greiða niður.

Hljómar þetta kunnuglega? Þetta gerðist þrátt fyrir að Ardern væri ekki með neinn Bjarna Ben hangandi yfir sér og þess vegna er ekki svo fjarstæðukennt að ætla að svona verði það líka ef Samfylkingin sigrar næstu kosningar. Sérstaklega ef stefnan er enn stjórn með hægrinu í Viðreisn. Hvað þá með Sjálfstæðisflokknum sem Kristrún Frostadóttir neitar að útiloka. Vandinn er ekki að okkur vanti betri einstaklinga með meiri vinsemd eða kærleika til að stýra kapítalismanum, heldur er vandinn sjálfur kapítalisminn. Ekkert magn af kratískri kurteisi eða samkennd breytir því.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí