Fjölmiðlar sem kenna ungum konum að þegja

Skoðun Sara Stef. Hildar 10. des 2022

Ráðgjafanefnd á vegum Barna- og menntamálaráðuneytisins hefur komist að þeirri niðurstöðu að í einu máli sem kom upp við speglagjörning kvenkyns nemenda við MH hafi saga um pilt ekki átt við rök að styðjast.

Tilkynning á heimasíðu skólans vísar í ráðgjafanefnd ráðuneytisins en engar upplýsingar er að hafa á vef ráðuneytisins um hvaða og hverskonar sérfræðingar sátu í þessari nefnd. Hvað þá með hvaða hætti var komist að þessari niðurstöðu að í einu málinu.

Fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa gripið niðurstöðuna á lofti og slegið upp fyrirsögnum sem gefa í skyn að stelpur í MH  hafi almennt og yfirleitt logið upp á karlkyns samnemendur sína í október sl. þegar þær rituðu nöfn nokkurra þeirra á spegil kvennasalernisins skólans í mótmælaskyni við aðgerðaleysi framhaldsskólans gagnvart kynferðislegu áreiti og ofbeldi.

Fyrirsagnir fjölmiðla bera með sér að þessar ungu konur og stelpur séu lygarar. Þær séu rógberar og að sögur sem þær segi af samnemendum sínum sé uppspuni.

Þetta kemur auðvitað ekkert á óvart.

Konur hafa lengi mátt bera harm sinn í hljóði og þessi niðurstaða ráðgjafanefndar sem fjölmiðlar grípa á lofti án þess að fjalla neitt um deili á eða fjalla um hvernig nefndarmenn unnu starf sitt, hamra á gamalkunnum skilaboðum til ungu kynslóðar kvenna að þær læri strax að þekkja sinn stað og þegja.

Það var í byrjun október sem stelpurnar létu í sér heyra. Þær létu svo vel í sér heyra að málið rataði í fjölmiðla, ráðherra og rektor mættu á skólalóðina og töluðu við nemendur og MH varð í kjölfarið fyrst framhaldsskólinn sem setti í gang vinnu við stefnu og aðgerðaáætlun um kynbundið og kynferðislega áreitni og ofbeldi. Kannski kemur það ekki á óvart að þótt sex ár séu liðin frá MeToo séu framhaldsskólar fyrst núna að taka við sér og einn byrjaður á að vinna slíka stefnu.

En það þurfti svona uppþot og opinberar afhjúpanir stúlkna til.

Menningin er þeim þakklát og fjölmiðlar hafa fengið sitt. Það er allt gott og blessað en svo skulu þær líka læra að skammast sín að vera að ljúga svona upp á strákana. Við heyrum þetta endurtekið í kvennabaráttunni gegn kynferðisofbeldi. Sögur um mannorðsmorð eru einar vinsælustu sögurnar í dag. Konur og stúlkur ættu að vara sig og gæta sinna orða. Allt er eins og það hefur alltaf verið.

Með speglagjörningnum töluðu stelpurnar gegn rótgróinni og gamalli hefð sem sannfærir þolendur um að ýmist sé bara best að aðlaga sig hegðun gerenda og þegja eða fara bara annað til að losna undan ofbeldinu.

Gamall nemandi steig fram sem hafði einmitt hrakist úr skólanum fyrir fáeinum árum vegna kynferðisofbeldis af hálfu samnemanda. Mál hennar var rifjað upp og fjallað um í fjölmiðlum auk þess sem hún fékk formlega afsökunarbeiðni frá skólanum. Fyrirsagnir um sára reynslu kvenna skila smellum á vefi fjölmiðla. Smellirnir skila svo auglýsingatekjum.

Svona er nú oft ágætt upp úr raunum kvenna að hafa.

Svo lengi sem þær þegja inn á milli.

Mynd fengin af Freepik / pch.vector

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí