Giorgia Meloni: Ásjóna konu með andfeminísk áform

Skoðun Sara Stef. Hildar 21. des 2022

Giorgia Meloni: Ásjóna konu með andfeminísk áform


eftir Söru R. Farris

Lauslega þýtt og staðfært af Söru Stef. Hildardóttur
„Fyrst birt í Jacobin (jacobin.com) sem er sósíalískt tímarit, gefið út á ensku.

Fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni, verður seint talin feministi. En kynjabaráttan er þrátt fyrir það lykillinn að árangursríkum uppgangi hennar innan öfgahægri stefnu sem sameinar móðurhlutverkið, þjóðernishyggju og skrímslavæðingu múslima.

Á síðmiðöldum var talið að konungurinn ætti tvo aðskilda líkama. Annar var hinn náttúrulegi og dauðlegi líkami, háður tíma og mannlegum veikleikum, hinn var líkami stjórnmálanna, með óhagganalega skapgerð, sem með því að fara frá einum valdhafa einstaklingi til annars slapp við takmörk mannlegs eðlis og dauða. Myndlíkingin um tvíþættan líkama valdhafans fangaði hvernig hið pólitíska fullveldi og ríki var hafið yfir breytilega náttúru einstaklingsins sem fékk það hlutskipti að stjórna ríkinu hverju sinni.

Sögulega hefur náttúrulegur líkami konungsins oftast verið karlkyns þótt stundum hafi hann verið kvenkyns. Drottningin Nubia í Forn-Egyptalandi, Keisaraynjur Japans milli 1500 og 1700, spænsku drottningarnar, að ógleymdu Bretlandi sem hefur átt nokkrar vel þekktar drottningar. Konur eins og Jóhanna II af Napólí og Eleonora D’Arborea frá Sardiníu á fimmtándu öld eru dæmi um konur sem réðu í ítölsku ríkjunum fyrir sameininguna 1860.

Allar þessar drottningar héldu þó um stjórnartaumana í samfélögum og í tíðaranda sem var afar fjandsamlegur konum. Eiginleikar taldir til kvenna á þessum tímum voru jafnan taldir skaðlegir listinni að stjórna. Kvenleiki stóð fyrir rökleysu og veikleika og kvenlíkaminn var því ekki talinn geta staðið fyrir pólitískan líkama.

Engu að síður gat Elísabet I af Englandi beitt þessari gömlu hugmynd um tvíþættan líkama höfðingjans sér í hag með það að markmiði að festa völd sín í sessi. Hugmyndin gaf enda í skyn að „náttúrulegir gallar“ líffræðilega líkamans (sem hrjáðu karla alveg eins og konur) gæti ekki mengað stjórnmálalíkamann, sem var talinn ódauðlegur.  Fræg er tilvísun hennar til þessa í svokallaðri Tilbury-ræðu frá 1588 þar sem hún hvatti enska hermenn til að verja Bretland fyrir spænska hernum: „Ég veit að ég á veikan og máttlítinn líkama konu, en ég hef hjarta og maga konungs.” Elísabet I var líka ein af þeim fyrstu sem setti fram þá kenningu að höfðingi ætti að búa yfir bæði karllægum og kvenlegum eiginleikum – styrk jafnt sem miskunn, hugrekki jafnt sem umhyggju og kærleika. Reyndar lýsti hún sjálfri sér sem allt í senn og var því kölluð af þegnum sínum, jafnt konungur, prins og drottning.

En þótt sagan frá því á 1500 til loka 1800  telji ófáa kvenkyns valdhafa, þá endurspeglar það ekki betri veruleika kvenna þess tíma. Ástæðan er miklu frekar sú að margar ættir kusu frekar að fela kvenkyns dætrum forystuna en að hætta á að missa völd til karlkyns sona sem tilheyrðu öðrum ættum eða til karla innan valdhafafjölskyldunnar sem sitjandi höfðingja var í nöp við. Konur urðu því drottningar í beinan ættlegg engu að síður en fyrir tilviljun, en búist var við að þær myndu ríkja sem konungar. Engin þeirra aðhylltist málstað „kvenréttinda“, í hvaða mynd sem hún tók á hverjum tíma, ekki einu sinni eftir að fyrstu femínistahreyfingarnar komu fram (eins og í tilfelli Viktoríu Bretadrottningar, sem var andvíg bæði kosningarétti kvenna og inngöngu þeirra í háskóla).

Það voru nefnilega borgaralegu byltingarnar sem héldu konum frá völdum með því að koma á frjálslyndum lýðræðisríkjum sem neituðu þeim – sem og verkalýðnum öllum – um sjálfan kosningaréttinn. Það er ekki fyrr en á fyrri hluta tuttugustu aldar, í kjölfar baráttu Súffragettanna, að sumar konur fá að kjósa og geta yfirleitt farið í framboð til kosninga. Þannig var það alveg til ársins 1979, þegar Margaret Thatcher var kosin í Bretlandi – en sú kosning kom í kjölfar tveggja áratuga baráttu femínista fyrir jafnrétti kynjanna á öllum sviðum félags- og stjórnmálalífs – að kona var kosin forsætisráðherra í Evrópu.

Frá því á tíma Thatcher urðu kvenkyns valdhafar ríkisstjórna sífellt fleiri. Nokkrum mánuðum eftir að Thatcher var kjörin var röðin komin að Portúgal, með forsætisráðherraefni Maria de Lourdes Pintasilgo, svo kom Ísland 1980 með kjör Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta, Noregur árið 1981 með kosningu Gro Harlem Brundtland og síðan Júgóslavía, Pólland , Írland og svo framvegis. Enn eru þó nokkur lönd í Evrópu sem hafa ekki fengið kvenkyns forsætisráðherra að minnsta kosti einu sinni. Fram að kosningunum 25. september 2022, sl. var Ítalía eitt af þessum fáu löndum. En nú er það breytt.

Andfeminísk áform

Þessi sögulegi bakgrunnur er gagnlegur til að setja sigur Giorgia Meloni og kjör hennar sem fyrstu konunnar til að fara fyrir ríkisstjórn Ítalíu í samhengi. Hún er nefnilega ekki einsdæmi og sigur hennar er miklu frekar hluti af þróun sem hefur átt sér stað í Evrópu undanfarna áratugi.

Tilfellið er nefnilega að á undanförnum fjörutíu árum hafa konur skipað sífellt fleiri valdastöður í Evrópu —sífellt fleiri konur eru í lykilstöðum, þar á meðal í æðstu stöðum ríkis og stjórnmála. Þessi þróun er tilkomin vegna baráttu feminista sem ruddu þennan veg. En ekki er allt sem sýnist eins og ítalska blaðakonan Ida Dominijanni orðaði í nýlegri grein, „sigur Meloni byggir á afrakstri feminískrar baráttu sem hún tilheyrir ekki —þótt hún nýti sér þann afrakstur óspart.“

Sem femínistar getum við ekki glaðst yfir sigri Meloni —engan veginn. Árangur Meloni og annarra kvenna sem fá framgang til æðstu valda byggir nefnilega á óbreyttu ástandi, stigveldi karlamenningar, helgisiða karla og feðraveldið haggast ekki með þessu kjöri – konur sem ná völdum undir þessum formerkjum breyta engu fyrir aðrar konur. Meloni er fulltrúi pólitískrar hugmyndafræði sem vinnur markvisst gegn réttindum kvenna, hugmyndafræði og menningu sem kúgar konur og vinnur gegn grundvallarkröfum femínista um sjálfræði kvenna yfir eigin líkama, hvort sem er m.t.t. þungurrofs og kynfrelsis.

Spurningin um Meloni er því ekki hvort sigur hennar sem fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Ítalíu sé merki um pólitískt afrek í nafni kvenna almennt, heldur hvernig hún sem kona hefur orðið til sem fulltrúi yfirlýsts andfemínísks stjórnmálaafls.

Eins og önnur róttæk þjóðernissinnuð samtök hægrimanna í Evrópu, hvort sem þau eiga sér sögulega rætur í fasisma eða ekki, hefur Fratelli d’Italia, Bræðralag Ítalíu, um árabil lagt mikla vinnu í að mála sig upp sem lýðræðislegt afl og Meloni hefur þannig fært sig nær miðjunni til að auka trúverðugleika sinn sem frambjóðandi til að stjórna landinu. Kvenkyns forysta Meloni, í karllægum og hægri öfgaflokki, eins og má einnig sjá í tilfelli Marine Le Pen í Frakklandi, eða Alice Weidel í Þýskalandi, hefur þann tilgang að sýna nýstárlega og kvenlæga framhlið á hefðbundnum karlægum stjórnmálaöflum sem færir þeim svo fleiri atkvæði, þar á meðal atkvæði kvenna, „sem taka þannig þátt í að mýkja og fegra afturhaldsöm skilaboð þeirra,“ eins og Dominijanni skrifar.

Hugmyndafræðin sem liggur til grundvallar pólitískri stefnumótun Meloni er þjóðernishyggja og þar eru kynþáttafordómar mikilvægur þáttur.  Þegar feminisma og þjóðernishyggju er splæst svona saman eins Bræðralagið og Meloni gera þá hef ég kallað það „femonationalism“. Þegar betur er að gáð má sjá að þessi samþætting á sér alltaf stað í samhengi við herferðir gegn innflytjendum og Islam.  Hugmyndafræði „femonationalism“ gerir okkur hinsvegar kleift að skilja hvers vegna Meloni veifar bara fánanum um réttindi kvenna stundum en ekki alltaf. Hún veifar kvenréttindafánanum bara þegar kemur að því að skrímslavæða innflytjendur (eins og hún gerði í kosningabaráttunni með því að birta myndband af hælisleitanda að nauðga konu), þegar hún leggur til þannig stefnu um jafnvægi milli fjölskyldu og vinnu sem myndi gera ítölskum konum kleift að eignast fleiri börn, þegar hún leggur til að vinna hart gegn meintri óhóflegri frjósemi múslimskra kvenna því í því felist hótun um að taka yfir Evrópu undir merkjum Islam.  

Fyrir þjóðernishreyfingar eru konur í rauninni aðeins mikilvægar sem „mæður“, það er að segja sem líffræðilegir og menningarlegir endurframleiðendur þjóðarinnar. Sem slíkar verða konur að vernda þjóðernissinnann gegn kynferðislegri (sem og efnahagslegri, menningarlegri og pólitískri) ógn sem stafar af erlenda karlinum. Við getum hugsað okkur myndmál þjóðernishyggjunnar sem hefur gjarnan stillt upp hinu kvenlega með hinu karllæga í einskonar eðlishyggju kynjanna til að mýkja hin mannfjandsamlegu og fordómafullu skilaboð stefnunnar. Þó að þjóð sé bæði söguleg og samfélagsleg afurð, byggir eðlishyggjuvæðingin undir einskonar lögmæti hennar sem náttúrulegrar vegna þess að meint eðli hennar felur í sér allt í senn —nauðsyn þjóðarinnar, hollustu við hana og óumbreytanleika.

Samsömun þjóðar við móðurmál og föðurland gerir þjóð kleift að vera tákn fyrir uppsprettu ákveðinnar sjálfsmyndar, sjálfsmyndar sem krefst skyldurækni gagnvart móður og föður. Bræðralag Ítalíu, Fratelli d’Italia, endurskapar bókstaflega hina „femonationalísku“ hugmyndafræði um fjölskyldu þar sem ákall fjölskyldunnar og kvenlíkamans er til þess fallið að kalla fram hugmyndina um „tilurð“, „fæðingu“ og „ætterni“. Bræðralagið gerir þetta beinlínis með vali á flokksnafninu – á íslensku „Bræðralag Ítalíu,“ sem er einnig skýr tilvísun í þjóðsöng Ítalíu. Þjóðsöngurinn vísar aðeins á samneyti milli karla (bræðra) en allt þetta samanlagt er svo táknað með kvenlíkama (andliti Meloni á veggspjöldum flokksins úti um allt), og undirtónarnir kalla svo fram kröfu um tryggð og þakklæti með föðurlandsástinni (e. patriotism).

Allt myndmál og pólitísk stefnumál Meloni, þar með talið tækifæriskennt látbragð hennar í garð kvenréttinda, eru markvisst notuð til að virkja þjóðerniskennda og rasíska sjálfsmynd Ítala gegn útlendingum. Það kemur ekki á óvart að Meloni hefur mótmælt fyrirhuguðu „ius soli“ frumvarpinu, sem myndi gera börnum innflytjenda sem fædd eru á Ítalíu kleift að fá ríkisborgararétt við fæðingu.

Mótstaðan sem Fratelli d’Italia stundaði gegn baráttunni um sk. borgararlaun er einnig hægt að lesa í samhengi við mótstöðu þeirra gegn innflytjendum. Aðgerð Meloni um að afnema lágmarksbætur atvinnulausra, strípuð borgaralaunin, myndi hafa þær afleiðingar að fólk sem hefur litla sem enga möguleika á að finna mannsæmandi vinnu neyðist til að taka við ótryggum og illa launuðum störfum, þ.e.a.s. þeim störfum sem innflytjendur þurfa ítrekað að sinna vegna skorts á öðrum valkostum. Þetta veit Meloni vel.  

Þótt aðgerðin eigi að líta út sem ráðstöfun sem miði að því að meta vinnu sem uppsprettu mannlegrar reisnar og þátttöku í samfélaginu virðist afnám borgaralaunanna í raun fjalla um að gera hið andstæða, þ.e.a.s að þjóðnýta og kúga fjárhagslega það vinnuafl sem felst í innflytjendum. Aðgerðin felur einnig í sér þá gamalkunnu hugmynd fasismans um að vinna sé félagsleg skylda borgaranna — allt þetta gerist undir stjórn Meloni án nokkurrar umræðu um þær niðurlægjandi aðstæður sem vinnandi fólk er sett í við þessar aðstæður.

En það er meira. Þótt Meloni tali um að koma á aðgerðum til að hækka fæðingartíðni Ítala myndi afnám borgaralauna einnig hafa þær afleiðingar að fæðingartíðni myndi lækka, í ljósi þess að fátæku konurnar sem fá bæturnar – og samkvæmt nýlegum rannsóknum – eru líklegri til að eignast börn. Þjóðernis-rasísk (og póstfasísk) þráhyggja Fratelli d’Italia í þessum málaflokki á því á hættu að refsa einmitt þeim konum sem Meloni segist vilja hjálpa.

Karlkyns greinir

Ákall Meloni og Bræðralagsins um mikilvægi kvenna er, þegar öllu er á botninn hvolft, eingöngu sett fram í samhengi við kynþáttafordóma og mannfjandsamlega stefnu gegn innflytjendum. Þetta var auðséð um leið og Meloni steig fæti inn á þing sem yfirmaður ríkisstjórnar – sem valdhafinn, sem höfðinginn. Um leið og hún komst til valda umkringdi hún sig körlum í helstu ráðuneytum og kallaði aðeins á örfáar konur til að leiða minniháttar ráðuneyti —næstum eins og aukaatriði. Í setningarræðu sinni nefndi hún konur aðeins með fyrra nafni. Konur sem hún sagði hafa byggt stigann sem hefði gert henni kleift að brjóta glerþakið. Eini þingmaðurinn í þingsalnum sem hún ávarpaði á óformlegan hátt var ítalsk-fílabeinski verkalýðsmaðurinn Aboubakar Soumahoro.

Í báðum tilfellum – þegar hún ávarpaði konurnar og eina svarta varaþingmanninn aðeins með fyrra nafni sýndi Meloni feðraveldistakta og fyrirlitningu (sem hún reyndi ekkert að fela) sem ættfeður og yfirmenn hafa alltaf sýnt konum, verkalýðsfólki og innflytjendum. Á næstu mánuðum verðum við svo stöðugt minnt á að afturhaldssömustu löggjafarframkvæmdir Meloni munu líklega ná fram að ganga með þessari aðferð: að tvinna stefnu um kynja-, innflytjenda- og vinnumarkaðsmál.

Að lokum, og til að ítreka þá hugmynd að vald, þegar allt kemur til alls, sé enn í grunninn karlkyns, þá  sóaði Meloni engum tíma í að krefjast þess að hún yrði kölluð „il presidente“, með karllæga en ekki kvenlega greininum, eins og til að fullvissa fylgdarlið og grasrót flokksins um að hún sem kona ógnaði engum karli, heldur styrkti hún feðraveldistákn flokksins með sinni forystu.

Nokkuð eins og Elísabet I fyrir meira en fjögur hundruð árum síðan, næstum hálfu árþúsundi síðar, leggur Meloni þannig áherslu á að á meðan líffræðilegi líkami hennar er kvenkyns, þá er pólitíski líkami hennar óhagganlegur sem karlkyns (og hvítur). Við verðum að vera á varðbergi gagnvart því að stefna hennar dragi ekki árangur kvenna aftur í jafn mörg ár.

Þessi grein var upphaflega þýdd úr nýjasta prenthefti Jacobin á ítölsku

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí