Heilbrigðiskerfið lifir ekki af biðina eftir nýjum Landspítala

Skoðun Gunnar Smári Egilsson 5. jan 2023

Þegar æxli við nýra Davíðs Oddssonar var skorið burt árið 2004 og hann meðhöndlaður á Landspítalanum vegna krabbameins í skjaldkirtli opnuðust augu hans fyrir að sveltistefna nýfrjálshyggjunnar undir hans stjórn hafði dregið mátt úr heilbrigðiskerfinu. Það hafði ekki endurnýjast undir linnulausum aðhaldsaðgerðum og spítalinn var orðinn eftir á, veikur og burðalítill. Þjóðinni til skammar, en auðvitað einkum Davíð Oddssyni og hirðinni í kringum hann.

Davíð reis upp af skurðarborðinu og boðaði bót og betrun. Hann myndi láta nýfrjálshyggjuna sjálfa borga fyrir skaðann sem hún hafði valdið. Eignir almennings í Landsímanum yrðu seldar og sjá: Nýtt hátæknisjúkrahús mun rísa upp fyrir söluverðið. Hókus pókus-hagfræði nýfrjálshyggjunnar myndi leiðrétta allt.

Síðan var Síminn seldur bröskurum sem töpuðu honum í hendur annarra braskara, sem seldu alla innviði innan úr félaginu og græddu ógeðslega.

Þegar Davíð fékk vitrunina í joð-meðferðinni voru sjúkrahúsrýmin 340 á Íslandi en þau eru nú aðeins 230, hefur fækkað um þriðjung. Skurðstofum hefur fækkað um helming og líka gjörgæsluplássum. Neyðarljósin hafa logað í heilbrigðiskerfinu í tuttugu ár og stjórnvöld vanist þeim, líta nú á þau sem venjulegt ástand og þolanlegt. Og stjórnvöld halda áfram herða að heilbrigðiskerfinu með það markmið að almenningur fallist á víðtæka einka- og græðgisvæðingu kerfisins. Fallist á að auðfólk taki heilbrigðiskerfið yfir og noti til að blóðmjólka skattfé og þau sem þurfa á læknishjálp að halda.

Í dag er ástandið þannig að fólki sem er vísað frá bráaðdeild deyr heima hjá sér. Fólk missir heilsuna endanlega á biðlistum. Fátækt fólk neitar sér um lyf og læknisþjónustu vegna kostnaðar. Starfsfólkið flýr spítalann, vill ekki taka þátt í því með stjórnvöldum að grafa undan heilbrigði fólks og setja það í bráða lífshættu. Og þegar stjórnvöld eru krafin um aðgerðir benda þau á Nýr Landspítali sé rétt handa við hornið og muni leysa allan vanda.

Á meðan eigendur Símans greiddu sér út 80 milljarða króna í arð á örfáum árum, andvirði heils nýs Landspítala, þokast byggingin hægt. Hún er komin upp úr jörðinni en þar eru engar framkvæmdir, allt dautt. Ríkisstjórnin leggur of lítið fé til framkvæmdanna. Hún vill fremur standa vörð um skattaafslátt til hinna ríku og auðugu. Bara hluthafa Símans borga 15-20 milljörðum króna minna í skatta af arði sínum en þeir hefðu gert ef skattkerfið á Íslandi væri líkt og í næstu löndum.

Þegar skóflustunga var loks tekin að nýjum Landspítala árið 2018, 14 árum eftir vitrun Davíðs, var því lýst yfir að meðferðarkjarninn væri kominn í notkun 2024. Nú er stefnt að sama markmiði 2028, en þeim sem fylgjast með grunar að raunhæfara sé að reikna með 2030. Þá á eftir að klára allt annað sem tilheyrir þessari framkvæmd, þá verður enn langt í land með að hátæknisjúkrahúsið sem Davíð nýfrjálshyggjupáfi lofaði 2004 rísi. Framkvæmdir hafa verið svo hægar að kominn er tími til að skipuleggja og hefja byggingu á næsta spítala, sem taka á við auknum kröfum sem hinn svokallaði Nýi Landspítali ræður ekki við.

Og eins og fréttir dagsins bera með sér er heilbrigðiskerfið að brotna. Og með óbreyttum stjórnvöldum mun það halda áfram að brotna fram til 2030 að meðferðarálma Nýs Landspítala opnar. Þá munu margir hafa dáið vegna vanrækslu stjórnvalda og skipulags niðurbrots á mikilvægustu grunnkerfum samfélagsins.

Myndin er af meðferðarhluta Nýs Landspítala, 19 árum eftir vitrun Davíðs. Svona birtist nýfrjálshyggjan okkur. Sem sá hryllingur sem hún er.

Eftir vitrun Davíðs hafa ýmsir ráðamenn og -konur greinst með krabbamein og alvarlega sjúkdóma. Þau hafa öll leitað sér læknisaðstoðar erlendis, vitandi manna best að íslenska heilbrigðiskerfið hefur dregist aftur úr.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí