Incel hatrið á íslensku léni og í íslenskum veruleika

Skoðun Sara Stef. Hildar 28. des 2022

Karlar sem kenna sig við „incel“ (e. involuntary celibate) eru karlar sem hata konur. Sögulega hafa þeir verið skilgreindir sem karlar sem eru skírlífir gegn eigin vilja og telja að þvingað skírlífi þeirra sé í beinu samhengi við að að konur fái að njóta mannréttinda, hafi yfirleitt rétt yfir eigin líkama og geti því neitað þeim um kynlíf.

Incel karlar telja að konur skuldi þeim kynlíf og og til þess að það megi verða sé réttlætanlegt að beita þær líkamlegu og andlegu ofbeldi. Hlutgerving kvenna meðal incel karla er algjör en þeir meta konur eftir aldri og útliti, kynferðislegum hreinleika og almennri undirgefni. Incel karlar njóta þess að niðurlægja konur.

Samkvæmt rannsóknum hefur kvenhatandi incel hugmyndafræðin sótt í sig veðrið undanfarið og tengist í auknum mæli hreyfingum sem fylkja sér bakvið hvíta kynþáttahyggju og fasisma öfga-hægrisins.

Innan incel hreyfingarinnar hafa auk þess tengslanet karla sem stunda og réttlæta kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum, karlar sem stunda sifjaspell og vilja veg nauðgunarmenningar sem mestan átt öruggt skjól. Þessir hópar hafa frá í nóvember 2018 tekið þátt í stærsta spjallsvæði incels hreyfingarinnar sem er á íslensku .is léni. Þótt vefsíðan sé ekki vistuð á Íslandi er víst mjög auðvelt að kaupa og skrá íslensk lén og því er þetta svo.

Umræða um incels hefur ekki verið áberandi hér á landi en google-leitin „hvað er incel“ skilar fjórum niðurstöðum, þremur blaðagreinum frá 2018, 2019 og 2021 og einu hlaðvarpi síðan í ár, 2022.

Sú þróun sem rakin er í þessum umfjöllunum ásamt þróun sem er að eiga sér stað í Bandaríkjunum gefur tilefni til að ætla að incel-hugmyndafræðin sé alveg eins farin að skjóta rótum hér á landi eins og annarsstaðar í nágrannalöndum okkar í Bandaríkjunum og Evrópu.

Nýlega var tveimur íslenskum mönnum sleppt úr haldi hérlendis þrátt fyrir að Europol teldi áform þeirra raunverulega hættuleg en lögreglan fann í fórum þeirra „mikið magn efnis um þekkta hryðjuverkamenn, voðaverk þeirra, stefnur yfirlýsingar og verknaðar- og undirbúningsaðferðir þeirra.“  

Mennirnir tveir höfðu rætt ýmis hættuleg og ógnandi áform. Meðal annars skipulögðu þeir hvernig væri best að keyra trukk í gegnum Gleðigönguna en fjölmörg dæmi um samskonar hryðjuverk tengjast incel-hreyfingunni. Skemmst er að minnast Charlotteville í Bandaríkjunum þar sem ein lést og 19 slösuðust árið 2017 og Toronto árásinni 2018 þar sem 11 létust og 15 slösuðust en lista yfir árásir af sama toga hefur verið tekinn saman hér.

Undanfarið hefur hugmyndafræði incel sótt sér fylgi í Bandaríkjunum. Þessi þróun er í takt við kerfislegt niðurbrot á réttindum kvenna þar í landi. Réttindi hafa einnig verið tekin af konum víða um heim, m.a. í Evrópu, en afleiðingar kvenhaturs má sjá í sínum hrikalegustu myndum t.d. í Íran og Afghanistan þar sem konur lúta ægivaldi karla.

Fyrir ekki svo löngu var kjörinn nýr forseti í Suður Kóreu, Yoon Suk-yeol, sem kallaður hefur verið incel-forsetinn. Það er ekki að ástæðulausu enda lagði hann niður jafnréttis- og fjölskylduráðuneytið nú í desember, hefur lofað að vernda karla gegn áhrifum MeToo og segir upphátt að kvenréttindi hafi gengið of langt.


Nýleg grein í Mother Jones um forsprakka America First og uppgang samtakanna þar í landi varpar ljósi á hvernig samtökin vinna markvisst að útbreiðslu kvenhaturs og fasisma.

Þetta gera þau með því að tengja sig þekktu hægra öfgafólki þar í landi en nýlegasta dæmið gerðist fyrir stuttu í Flórída þar sem sátu saman tónlistarmaðurinn Ye (Kanye West) og fyrrum ráðgjafi hans og forsprakki America First, Nick Fuentes, samankomnir í kvöldverðarboði Donalds Trump sem ætlar að bjóða sig fram til forseta 2024. Forsetaframbjóðandinn hefur fengið á sig 19 kærur vegna kynferðisofbeldis og hefur stært sig af því að „grab women by the pussy.“

Trump fór með þessu heimboði ekkert í grafgötur með tengsl sín við fasísku kvenhatarana í America First og forsprakka þeirra sem hefur m.a. velt upp hugmyndum um að myrða stjórnmálafólk og telur tímabært að brenna konur ef þær brjóta af sér:  “We need to go back to burning women alive more,“ sagði hann nýlega í útsendingu frá cozy.tv fjölmiðlinum sem hann stendur fyrir.  

Í ljósi þessa má alveg velta fyrir sér máli hinna svokölluðu sakleysingja sem notuðu m.a. dulkóðaða Signal samskiptaforritið til að grínast með hryðjuverk og morð á Íslandi og þeirrar þróunar sem er að eiga sér stað um víða veröld og talar fyrir því að níðast á fólki með kvenhatri og fasisima.


Mynd: Copyright ©2022 R. Stevens / CREST (CC BY-SA 4.0). https://crestresearch.ac.uk/resources/a-short-introduction-to-the-involuntary-celibate-sub-culture/

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí