Misskipt samfélag

Skoðun Sanna Magdalena Mörtudóttir 3. nóv 2022

Við búum í samfélagi þar sem gæðunum er misskipt. Almenningur er látinn taka skellinn þegar efnaghagslegir erfiðleikar ganga yfir þjóðina. Matarverð hefur hækkað með tilheyrandi álagi á þau sem þurfa að velta fyrir sér hverri krónu þegar verslað er í matinn á meðan að stóru matvælakeðjurnar á Íslandi skila gríðarlegum hagnaði. Hið sama má segja um aðra vöru og þjónustu. Bankarnir græða á tá og fingri en almenningur fær þess ekki notið. Byrðunum er augljóslega misskipt. 

Skattbyrðin hefur verið færð yfir á lág- og millitekjuhópa í kjölfar þess að henni var létt af fyrirtækjum og fjármagnseigendum á síðustu áratugum. Því var trúað að þannig myndi auðurinn hríslast niður frá þeim efnamiklu til hinna en slíkt hefur augljóslega ekki átt sér stað. Við getum ekki ætlast til þess að þau tekjulægstu í samfélaginu beri kostnaðinn af því að félagslegri uppbyggingu sé mætt.

Fámennur hópur í samfélaginu tekur til sín mesta fjármagnið, þar sem rúmlega helmingur alls nýs auðs sem varð til á síðasta ári, fór til efstu tíundarinnar, ríkustu Íslendinganna. Á árunum 2010-2020 tók þessi efsta tekjutíund til sín að meðalatali 43,5% af öllum nýjum auð sem varð til á ári en árið 2021 er sú tala komin upp í rúmlega helming, eða 54,4% af öllum nýjum auð. Efsta tekjutíundin, nokkur þúsund fjölskyldur tóku til sín 81% fjármagnstekna á síðasta ári, þ.e.a.s. tæpa 147 milljarða króna í fjármagnstekjur. 

Fjármagnstekjur bera minni skatta en launatekjur og þar að auki er ekkert útsvar lagt á þær sem þýðir að fjármagnseigendur greiða ekki eins og hinir til samfélagsins. Bilið á milli ríkra og fátækra fer vaxandi sem og ójöfnuður. Á sama tíma og efstu prósentin halda áfram að bæta við auð sinn, á rúmlega þriðjungur heimila í landinu ekkert eftir í lok mánaðar, engan pening og þarf að ganga á sparnað eða safna skuldum til að leitast við að láta dæmið ganga upp. 

Augljóslega standa ekki öll heimili vel. Í því efnahagsástandi sem nú ríkir, hefur verið talað um að heimilin standi nokkuð vel eftir faraldurinn og geti gengið á uppsafnaðan sparnað. Hér er mikilvægt að taka fram að það eru ekki öll sem eiga sparnað, eru t.d. hin stritandi snauðu (e. the working poor). Það hefur einnig fjölgað mjög í hópi öryrkja sem leita til Umboðsmanns skuldara þar sem samkvæmt tölum er fatlað fólk nú 47% þeirra sem þangað leita. 

Ójöfnuður grefur undan velferð

Ójöfnuður er hræðilegur fyrir þau sem þurfa að þola hann, búa við slíkt og leitast við að komast í gegnum lífið með þann bagga hangandi yfir sér. Ójöfnuður er einnig slæmur fyrir samfélagið í heild sinni, þar sem slíkt býður upp á að hin ríkari hafi óeðlilega mikil völd yfir lífi annara. Ójöfnuður ýtir undir líkur á frekari glæpum, og að búa í ójöfnu samfélagi getur haft slæm áhrif á heilsu fólks, með streitu og kvíða. Slíkt hefur áhrif á það hvernig við lítum á aðra í kringum okkur, ef jöfnuður er minni, þá er fólk síður líklegt til þess að treysta hvert öðru, taka þátt í félagslegum atburðum og er síður líklegt til þess að greina frá ánægju. Það er því til mikils að vinna þar sem það er gott fyrir okkur öll að vinna gegn ójöfnuði.

Mikilvægt er að taka þessa þætti til skoðunar í fjárhagsáætlunargerð, þá þarf að ræða hvernig eigi að koma með fjármagn inn í borgarsjóð, svo að áætlunin gangi upp til langtíma. Við eigum að krefjast þess að hin ríku greiði til samfélagsins og berjast gegn skattalækkunum sem hafa farið til þeirra. Brauðmolakenningin virkar ekki, hún skilar sér ekki í betri lífsskilyrðum til hinna tekjulægri heldur hefur einungis veitt þeim efnameiri aukin völd á kostnað hinna efnaminni. 

Fjármagnseigendur og fyrirtæki sem hafa sölsað undir sig eignum, láta síðan fátækasta fólkið og lágtekjuhópa ávaxta peninginn fyrir sig með ýmsum leiðum líkt og í formi okurleigu á húsnæði. Yfir 60% af öllum fasteignum sem hafa bæst við íslenskan húsnæðismarkað frá árinu 2005 til dagsins í dag, hafa endað í höndum lögaðila þ.e.a.s. fyrirtækja eða þeirra sem þegar eiga eina íbúð. Það ætti að vera hægt að ganga út frá því að fólk þurfi að jafnaði ekki meira en eitt heimili. Eignafólk og fyrirtæki komast því upp með að viðhalda óvinveittum leigumarkaði þar sem leigjendur greiða gríðarlegan húsnæðiskostnað og eru föst á milli lágra tekna og hárrar leigu, því hér á landi hefur ekki myndast gott kerfi utan um óhagnaðardrifna húsnæðisuppbyggingu. Staðan er sú að þau ríkustu halda áfram að hagnast, sleppa við að greiða skatt, eða greiða mjög lítið af sinni innkomu til samfélagsins á meðan að fátækasta fólkið greiðir af sínum tekjum í sameiginlega sjóði en fær samt sem áður ekki stuðning samfélagsins.

Sáttmáli um áframhaldandi stéttskiptingu

Heimilisleysi og það að búa til lengdar eftir húsnæði á viðráðanlegu verði, er staðreynd hér í Reykjavík.  Samfélagsumgjörðin og kerfin sem hafa verið búin til, eins og hér í borginni eiga að veita þeim sem á þurfa að halda, stuðning. En staðreyndin er sú að margt fólk hefur enga möguleika á að komast í það húsnæði sem á að vera hannað fyrir þau sem búa við erfiðar fjárhagslegar og félagslegar aðstæður. 

Stuðningur samfélagsins er ekki til staðar, þar sem umsækjendur um félagslegt húsnæði eru mörg hver metin í öruggri stöðu ef þau eru með meira en sex mánuði eftir af leigusamningi. Þar með fá þau ekki að komast í skjól. Skjól sem reyndar er ekki örugg höfn þar sem 660 eru á undan þér í röðinni. Þau sem ráða hafa brugðist þeim sem þurfa á öruggu húsaskjóli á að halda og  neyðast til að greiða átt hlutfall ráðstöfunartekna sinna í öflun heimilis. Ekkert öryggi er fólgið í því að hafa heimili en þurfa að greiða háar fjárhæðir til að halda því. Ekkert öryggi er fólgið í því að hafa heimili en þurfa þess í stað að neita þér um mat eða lyf. Við sjáum tölur þar sem leigjendur greiða um 70% af ráðstöfunartekjum sem fara í leigu og þá er nú lítið eftir fyrir alla þá nauðsynlegu þætti sem þarf til að lifa eðlilegu lífi.  

Félagsleg- og óhagnaðardrifin húsnæðisuppbygging fer ekki fram í takt við þörf. Það dugir ekki að fjölga íbúðum í byggingu ef að þær íbúðir munu ekki veita þeim allra fátækustu heimili. Á næstu fimm árum  gerir meirihluti Reykjavíkurborgar  ráð fyrir því að fjölga almennum félagslegum íbúðum hjá Félagsbústöðum um 348, ef við tökum með áætlanir fyrir árið 2022 þá er gert ráð fyrir fjölgun upp á 445 almennar félagslegar íbúðir. Fjölgunin nær ekki einu sinni utan um þau sem nú eru á bið, sem áður sagði eru 660. Það er ekki einu sinni gert ráð fyrir því að byggja fyrir öll sem eru í þörf. Eru í neyð. Þau sem eru að bíða eiga greinilega að halda áfram að bíða án þess að lausn sé í sjónmáli. Það að stefna ekki framfyrir vandann, ekki einu sinni að byggja yfir þau sem nú þegar bíða, er glapræði, og metnaðarleysi.

Biðlistar eru víða í borginni, þar sem beðið er til lengdar. Miðað við stöðuna 1. september s.l. höfðu 50 umsækjendur af 604 beðið í þrjú ár eða lengur eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði hjá borginni. 67 af 137 umsækjendur um húsnæði fyrir fatlað fólk hefur beðið í þrjú ár eða lengur eftir úthlutun húsnæðis.  

Velferð íbúa er eitt aðal hlutverk sveitarfélaga, þar er húsnæðisöryggi grunnurinn að velferð. Það er ekki verið að byggja góðan grunn að samfélagi þegar stór hópur fólks er sífellt skilinn eftir eins og við sjáum í framlögðum áætlunum og tölum.

Flokkarnir sem mynda meirihlutann, Samfylking, Framsókn, Píratar og Viðreisn leggja fram sína fyrstu fjárhagsáætlun á kjörtímabilinu. Áætlunin byggir á meirihlutasáttmálanum og ljóst er að sáttmáli þessara flokka um uppbyggingu borgarinnar, er sáttmáli um áframhaldandi stéttskiptingu. Sáttmáli sem gerir ekkert til að horfast í augu við og takast á við sívaxandi misskiptingu í okkar samfélagi. Það eina sem stendur er að unnið verði gegn fátækt og afleiðingum hennar. Ekkert meir kemur fram um það og engar stefnur. 

Meirihlutasáttmálinn og ráðstöfun fjármagns í takt við hann er áframhald þess sem hingað til hefur ekki virkað. Engar stefnubreytingar eru á dagskrá sem miða að því að uppræta rót vandans – ójöfnuðinn – heldur er leigjendum, fátæku fólki og láglaunafólki í Reykjavík gert að búa áfram við sama öfgakennda ástand eftir margra ára hunsun.

Stéttagreining nauðsynleg við útdeilingu fjármagns 

Líta þarf til allra þeirra þátta sem móta veruleika borgarbúa og þar ítreka ég að stétt og efnahagsleg staða á ekki að vera nein undantekning þegar við skoðum útdeilingu fjármagns og áhrif þess á líf borgarbúa. Eins og stendur í gögnum sem fylgja með fjárhagsáætlun þá er staða borgarbúa ólík eftir kyni og öðrum breytum, því hefur tekjuöflun og ráðstöfun á fjármunum borgarinnar mismunandi áhrif á tækifæri íbúa til lífs og leiks, vinnu og menntunar. Kynjuð strfs- og fjárhagsáætlun borgarinnar fjallar um þeitta þar sem markmiðið er að samþætta mannréttindastefnu borgarinnar við alla fjárhags- og starfsáætlunargerð og stuðla þannig að auknu jafnrétti.

Réttlát launastefna

Ekkert jafnrétti er fólgið í því að vegna útvistunar eru kjör þeirra sem eru ráðnir inn í gegnum verktaka og starfa fyrir byggðasamlagi í okkar eigu, verri en kjör þeirra sem eru fastráðnir í gegnum byggðsamlagið sjálft. Hér er um að ræða afleiðingar útvistunnar á kjör strætisvagnstjóra. Ekki er verið að fylgja stefnunni um sömu laun fyrir sömu störf. 

Jafnréttið finnst ekki í því að láta laun okkar borgar- og fyrstu varaborgarfulltrúa hækka sjálfkrafa tvisvar sinnum á ári á meðan að lykilstéttir sem halda borginni gangandi þurfa að hafa gríðarlega mikið fyrir eðlilegum launahækkunum og viðurkenningu á mikilvægi sinna starfa. Borgarfulltrúar þurfa líka að líta inn á við og skoða hvort að aðgerðir í borgarstjórn stuðli að jöfnuði eða hvort þær viðhaldi stéttskiptingu og breikki bilið enn frekar á milli okkar sem setjum stefnu fyrir borgina og þeirra sem treysta á að sú stefna sé sanngjörn og réttlát.

Í upphafi heimsfaraldurs, í apríl 2020 lögðu Sósíalistar fram tillögu um að grunnlaun borgarfulltrúa og fyrstu varaborgarfulltrúa myndu ekki hækka í takt við þróun launavísitölu á meðan á COVID og efnahagslegum afleiðingum þess stæði. Þá voru lágmarkslaun starfsfólks borgarinnar 335 þúsund krónur fyrir fullt starf. Tillagan var loks afgreidd nú í október og höfðu grunnlaun borgarfulltrúa í millitíðinni hækkað um 175.000 krónur, eða sem nemur meira en helmingi fyrr nefndra lágmarkslauna. Lámarkslaunin hækkuðu á sama tímabili aðeins um 33 þúsund krónur – úr 335.000 kr.  í 368.000 kr. 

Tillagan um að frysta laun borgarfulltrúa ávarpaði það að á meðan að COVID-19 faraldurinn gekk yfir og samfélagið tókst á við efnahagslegar afleiðingar væri mikilvægt að hinir betur launuðu í ráðandi stéttum sýndu ábyrgð í verki þannig að launin tækju ekki hækkunum á tímabilinu framundan. Tillagan var felld. Grunnlaun borgarfulltrúa voru 773.464 kr. í apríl 2020 og eru nú 948.481 kr. Meirihlutinn hefur lagt áherslu á það hversu jákvætt hafi verið að aftengja laun borgarfulltrúa við ákvarðanir kjararáðs á sínum tíma. Hér er rétt að minna á að hækkun í takt við þróun launavísitölu er mikil þegar um er að ræða há laun borgarfulltrúa, sérstaklega í samhengi við laun annarra sem vinna innan Reykjavíkurborgar. Sömuleiðis þá staðreynd að oft leggjast bónustekjur á grunnlaun borgarfulltrúa t.a.m. í formi greiðslna vegna setu í nefndum og ráðum, og benda á að þrátt fyrir að geysileg aukavinna og álag hafi lagst á framlínustarfsfólk borgarinnar á meðan faraldrinum stóð, var enginn bónus greiddur til þeirra.

29 m.kr. er áætlaður sparnaður við það að hætta við að hækka laun borgar- og fyrstu varaborgarfulltrúa á næsta ári og munum við Sósíalistar leggja fram tillögu um slíkt við síðari umræðu fjárhagsáætlunargerðar.  

Fjárhagsaðstoð til framfærslu þeirra sem geta ekki leitað neitt annað er fjárhæð sem þarf að hækka. Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar fyrir þau sem reka eigið heimili er 217.799 krónur á mánuði fyrir skatt en upphæðin tekur breytingum eftir búsetu- og sambúðarformi. Ómögulegt er að sjá hvernig ætlast sé til þess að lifa af svo lágum upphæðum. Talað er um þessa upphæð sem neyðaraðstoð til skemmri tíma en við vitum að fólk er oft á þessum upphæðum til lengri tíma og að skulda-vítahringurinn er fljótur að  byrja þegar tekjur eru miklu lægri en gjöld. Sósíalistar munu leggja fram tillögu um hækkun fjárhagsaðstoðar sem og desemberuppbót til allra á fjárhagsaðstoð. Hingað til hefur slíkt einungis náð til þeirra sem hafa fengið fulla fjárhagsaðstoð undangengna þrjá mánuði samfellt. Kostnaðurinn við þá tillögu er 20 m.kr. Það er lægri upphæð en kostnaðurinn við launahækkanir okkar borgarfulltrúa. 

Gegn harkalegri innheimtu

Þau sem eru í verstu stöðunni eru látin taka skellinn ef þau eiga ekki fyrir reikningum og gjöldum þar sem innheimtufyrirtækjum er sigað á þau sem ekki geta greitt í stað þess að skoða og fyrirbyggja þá þætti sem skapa og viðhalda þeirri stöðu. Innheimturukkun hefur verið boðin út sem er nú í höndum einkafyrirtækja og meirihlutinn hefur talað fyrir hagkvæmni þess. 

Í krónum talið kann að vera ódýrara að veita þjónustu í kjölfar útboðs en sá kostnaður lendir alltaf einhversstaðar, á þeim sem síst geta borið hann.  Þau sem eiga ekki fyrir reikningum eru beitt refsingu þar sem gjaldið á reikningum hækkar á meðan að innheimtufyrirtæki hagnast á skuldum þeirra sem ekki geta greitt. Hlutverk okkar á ekki að vera það að færa fyrirtækjum skuldavanda borgarbúa heldur eigum við að byggja upp borgina fyrir fólk, fyrir fjölbreyttar þarfir þeirra sem byggja þessa borg. 

Margir reikningar hafa verið sendir frá borginni í innheimtu með tilheyrandi álagi fyrir þau sem fá þannig rukkun. Þannig má greina frá því að börn eru rukkuð fyrir skólamáltíðir, ef foreldrar geta ekki greitt, þá fer gjald fyrir máltíðir til innheimtufyrirtækja.  Af 49.314 reikningum sem voru gefnir út vegna skólamáltíða á tímabilinu janúar til maí 2022 fóru 2.152 reikningar í milliinnheimtu eða 4,36% reikninga. Hér erum við að tala um máltíðir grunnskólabarna.  Sósíalistar lögðu fram tillögu ásamt VG við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar, um að gjaldtaka yrði afnumin á skólastigum borgarinnar og á frístundaheimilum. Tillagan var felld.  

Við eigum ekki að rukka fyrir þjónustu sem er sniðin að börnum og við eigum ekki að senda ógreidda reikninga þaðan til innheimtu.  Þann 5. apríl s.l. lögðu Sósíalistar fram tillögu um að borgin hætti notkun á starfsemi innheimtufyrirtækja. Skoða átti tillöguna nánar en slíkt hefur ekki átt sér stað og samningur við innheimtufyrirtækin var framlengdur á fundi borgarráðs í sumar. Það skýtur skökku við að það sé ákveðið án þess að taka tillögu Sósíalista um fyrirkomulag á innheimtuverklagi til skoðunar og rýni.  

Sósíalistar leggjast gegn því að borgin styðjist við innheimtufyrirtæki til að rukka borgarbúa. Innheimtufyrirtæki eiga ekki að græða á erfiðri efnahagsstöðu borgarbúa. Fátækt fólk sem er ekki í aðstöðu til þess að greiða reikninga sína á ekki að þurfa að kljást við slík innheimtufyrirtæki.

Byggjum upp barnvæna borg

Umgjörðin okkar á ekki að vera þannig að hægt sé að græða á fólki í viðkvæmri stöðu og við eigum ekki að vera vettvangur fyrir fyrirtæki til þess að færa fé úr opinberum sjóðum í vasa eigenda þeirra í formi arðgreiðslna líkt og við höfum séð hjá einkareknum skólum. Arðgreiðslur eru fjármagnstekjur, sem bera ekki útsvar og því verða þær tekjur ekki einu sinni til þess að hjálpa við rekstur grunnþjónustunnar í borginni. Fjármagnið sem fer í skólana, á að nýtast börnum í skólum. 

Börn hafa engar tekjur og eiga ekki að greiða gjöld og slíkt á að vera útgangspunkturinn okkar í allri vinnu og áætlunum. Við búum í þannig samfélagi að það er ekki verið að rukka þau ríku, ekki er verið að skattleggja þau og þá birtist gjaldtakan með öðrum hætti, t.a.m. börn fyrir grunnþjónustu. Þannig sjáum við gjaldskrár hækka hjá skóla- og frístundasviði á mataráskrift og á aðra þjónustu og gjaldskrárhækkkanir á ölllum sviðum borgarinnar sem eiga að taka gildi í upphafi árs en samt er nýbúið að hækka gjaldskrár í september á þessu ári.  

Hærra hlutfall barna býr á lágtekjuheimilum miðað við landsmenn í heild og hátt hlutfall barna á Íslandi skortir tómstundastarf. Meirihlutinn hefur boðað hækkanir frístundastyrksins frá 50.000 kr. á ári upp í 75.000 kr.. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi. Þessi árlegi fjárhagslegi styrkur sem virkar eins og inneign sem öllum börnum stendur til boða nær ekki að veita öllum börnum aðgang að frístundastarfi. Það kostar miklu meira en 75.000 krónur á ári að æfa eitthvað. Því mikilvægt að skoða hvernig við getum tryggt aðgengi barna að því sem þau hafa áhuga á. 

Frístundakortið er ekki öflugt jöfnunartækifæri eins og er oft haldið fram. Tækifæri barna til að stunda frístundir verða ekki betri ef barni eru réttar 75.000 krónur yfir árið, þegar  foreldrarar eru alltaf í stærri mínus um hver mánaðarmót. Létta þarf gjaldtökunni af börnum, fjölskyldum og almenningi og setja áhersluna á að ríkasta fólkið greiði einnig samfélagsins vegna allrar þeirrar mikilvægu þjónustu sem hér fer fram. 

Skattleggjum hin ríku

Uppruni útsvarstekna sýna okkur að á fyrstu 8 mánuðum ársins er gert ráð fyrir því að 78,4% útsvarstekna komi vegna launatekna, 1,9% vegna þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum, sem við vitum að eru ekki háar og 19,8% vegna annars uppruna. Annar uppruni vísar til fæðingarorlofsgreiðslna, lífeyrisgreiðslna, bóta frá Tryggingastofnun og Sjúkratryggingum, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og aðrar staðgreiðsluskyldar greiðslur. Eins og Sósíalistar hafa bent á í gegnum tíðina, þá greiða þau ríkustu ekki útsvar af sínum fjármagnstekjum.

Flestir innan tekjuhæsta eina prósentsins voru skráð til heimils í Reykjavík árið 2021 og ef útsvar hefði verið lagt á fjármagnstekjur má áætla að um 9 milljarðarhefði farið til borgarinnar árið 2021. Áætlað er að sú tala geti numið í kringum 10 milljarða árið 2023, þar af eru 8 milljarðar vegna tekjuhæstu tíundarinnar. Fjármagnseigendur greiða ekki útsvar af sínum tekjum en það gera öryrkjar, þau sem eru á lágum tekjum fjárhagsaðstoðar og aðrir lágtekjuhópar og nýbakaðir foreldrar í fæðingarorlofi. 

Sú staðreynd að hin ríku eru ekki rukkuð um samfélagsþjónustu sem þau njóta óneitanlega eins og aðrir borgarbúar, hefur alvarlegar afleiðingar á stöðuna. Fjármagnseigendur ættu að sjáfsögðu að greiða í okkar sameiginlega sjóð. Að sama skapi þarf að leggja aftur á aðstöðugjald, þannig að fyrirtækin greiði fyrir þá innviði sem eru notaðir í borgarlandinu. Sósíalistar hafa talað fyrir því að slíkt aðstöðugjald geti verið þrepaskipt eftir stærð borgarinnar.  Á meðan hin ríku eru ekki skattlögð, né fyrirtækin þá er ekki hægt að fjármagna alla þá mikilvægu þjónustu sem borgin veitir þeim sem til hennar heyra. Lítum til almenningsamgangna. 

Stöðvum útvistun því hún keyrir niður launakjör

Gjöld eru hækkuð á farþega strætó og þjónustan hefur veirð skorin niður. Á sama tíma er yfirlýst stefna borgarinnar sú að metnaður borgarinnar í loftslagsmálum sé mikill. Hér fer hljóð og mynd ekki saman. Nauðsynlegt er að byggja upp góðar og áreiðanlegar almenningssamgöngur fyrir þau sem treysta á þær samgöngur og svo að hægt sé að búa í umhverfisvænna samfélagi. Við þurfum að fá inn raddir farþega og vagnstjóra um hvernig megi bæta þjónustuna og heyra í þeim sem eru í strætó alla daga. Með röddum þeirra byggjum við upp góða þjónustu. Við náum ekki fram góðum lausnum sem byggjast á sýn farþega og vagnstjóra með því að útvista þjónustunni frá okkur

Hugmyndir um meira útboð hafa heyrst frá stjórn strætó. Þar er talað um að meiri útvistun geti verið hagkvæm. Hér er rétt að taka fram að hagkvæmnin eins og hún er nefnd, er alltaf tekin einhversstaðar út. Ef það er ódýrara fyrir einkafyrirtæki að veita þjónustu þá er það látið bitna á einhverju eða einhverjum. Núna sést það í lakari kjörum vagnstjóra sem eru ráðnir inn í gegnum útvistun. 

Ekkert þak er á því hversu mikið magn grunnþjónustu megi bjóða út. Þetta kom fram í svari við fyrirspurn Sósíalista á síðasta ári. Engin stefna hefur verið mótuð varðandi slíkt, hvorki hjá Reykjavíkurborg sjálfri né fyrirtækjum í hennar eigu. Það er sláandi að heyra að engin stefna hafi verið mörkuð og að hægt sé að útvista þjónsutu án þess að pólitísk umræða um slíkt hafi farið fram í borgarstjórn. 

Breytingar á fyrirkomulagi ræstinga eru fyrirhugaðar hjá menningar- og ferðamálasviði borgarinnar. Þar kemur fram að fækkun sé um 1,2 stöðugildi á Borgarbókasafni vegna breytinga á fyrirkomulagi ræstinga. Sama á við um Listasafn Reykjavíkur sem fækkar starfsfólki um 2,8 stöðugildi vegna ræstinga. Aðkeypt vinna ræstingaþjónustu komi á móti en í heild sé um sparnað að ræða. Ég spurði því á fundinum hvort um útvisutn á störfum væri að ræða og hvort að starfsfólkið sem nú sjái um ræstingar hjá sviðinu verið rekið? Ég bíð eftir svörum varðandi það en það er augljóst í huga okkar sósíalsita að það má ekki má reka starfsfólk til þess að lækka laun. 

Hvar er félagshyggjan?

Hagræðingarkrafa upp á 1% er sett á öll svið borgarinnar. Erfitt er að sjá hvernig útfæra eigi slíkt. Það á ekki að vera setja niðurskurð á sviðin heldur eigum við að berjast fyrir því að efla tekjustofnana. Áhersla sósíalista snýr að því að létta byrðunum af þeim sem síst geta borið þær og ná fram réttlátu skattkerfi til að veita góða þjónustu. Þegar tekjur eru ekki nægar þá leggjast gjöld á þau sem ættu ekki að greiða fyrir þjónustu og gæði í borgarlandinu eru seld til þess að afla tekna eins og með því að selja lóðir til húsnæðisuppbyggingar í útboði þar sem lóðin fer til hæstbjóðenda. Við sósíalistar viljum félagslegar áherslur, að lóðum sé úthlutað til byggingarsamvinnufélaga, óhagnaðardrifinna félaga og þeirra sem byggja fyrir fólk en ekki fjármagn. 

Við þurfum félagslegar áherslur til að skapa góða borg fyrir okkur öll. 

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí