„Mig langar að beina sjónum að því hvaða hugmyndir og gildismat liggur að baki velferðarríkinu. Og höfuðatriðið er hvaða afstöðu við höfum til þess hvort bætur eigi að vera almennar fyrir allan hópinn eða hvort við eigum að afmarka þær og beina að fólki með minni tekjur,“ segir Guðmundur Jónsson prófessor sem kom að Rauða borðinu til að ræða velferðarríkið, hugmynd eða hugsjón sem mótaði mjög samfélög okkar heimshluta á árunum eftir stríð.
Guðmundur rakti í samtali hvernig hugmyndir um velferðarkerfið komu hingað og staldraði við þátt Jóns Blöndal, skrifstofustjóra Tryggingarstofnunar, sem nú er sjaldan getið, en Guðmundur telur að hafi verið lykilmaður í þessari sögu. Jón var hagfræðingur og foringi í vinstri armi Alþýðuflokksins. Hann sótti hugmyndir bæði til Wiliams Beveridge, sem kalla má föður velferðarríkisins, en líka til Johns Maynards Keynes um hlutverk ríkisins til að auka jöfnuð og stöðugleika.
Jón lagði áherslu á að byggja upp almenn félagsleg réttindi allrar þjóðarinnar en ekki aðeins bættan hag verkalýðsstéttarinnar. Og á blandað hagkerfi þar sem beitt var Keynesískri hagstjórn með eftirspurnarstjórn, sveiflujöfnun, áætlanagerð og samþættingu félagsmála- og efnahagsstefnu.
Krafa Alþýðuflokksins við myndun nýsköpunarstjórnar með Sjálfstæðisflokki og Sósíalistum voru almannatryggingar. Og Jón Blöndal vann að uppbyggingu Tryggingastofnunar eftir það, sneri frá stjórnmálum og er því kannski ekki minnst eins og þeirra sem þar störfuðu. En kannski er Jóns ekki minnst vegna þess að hann dó ungur, á miðjum aldri.
Strax í upphafi varð ágreiningur um hvort bætur ættu að vera almennar eða fyrst og fremst aðstoð til fátækar. Það var deilt um hversu víðtækt kerfið ætti að vera og hvernig ætti að fjármagna það. Og Jón og Alþýðuflokksmenn náðu sínu ekki fram að öllu leyti. Í meðförum þingsins var elli- og örorkulífeyrir tekjutengdur, jarðarfararstyrkur var felldur niður, heilsuverndarstöðvum frestað og Atvinnustofnun ríkisins, sem sjá átti um áætlanagerð um atvinnuuppbyggingu, atvinnuleysisbætur og fleira, var felld burt úr frumvarpinu.
Eftir sem áður var breytingin mikil. Páll Hermannsson, þingmaður Framsóknar, lýsti henni svo í ræðustól: „Ég tel að þetta frumvarp eigi sér enga hliðstæðu í íslenskum lögum aðra en sjálfa stjórnarskrána. Ég álít, að með lagasetningu þessari sé verið að búa til nýtt þjóðfélag sem að minni hyggju verður betra en það sem við nú búum við.“
En þótt velferðarríkið hafi verið samfélagssáttmáli eftirstríðsáranna var aldrei full sátt um það. Róttækari sósíalistar töldu það umbúðir utan um kapítalismann sem troða mætti honum ofan í kok verkalýðsins. Og hægrimenn sögðu velferðarríkið dulbúinn sósíalisma sem myndi draga úr afli og frumkvæði samfélagsins.
Halldór Laxness gagnrýndi hugmyndir Beveridge um velferðarríkið, sagði það miða að því fyrst og fremst, þegar öllu er á botninn hvolft, að tryggja auðvaldsþjóðfélagið fyrir óeirðum og byltingarhættu, með því að skipuleggja þjáningalítið atvinnuleysi upp að ákveðnu marki.
Sigurður Nordal orðaði andstöðu hægri manna svo: „Ef fólki er innrætt að ríkið eigi að leysa og geti leyst öll þessi vandamál fer það að lokum að kenna ríkinu um öll sín mein.“
Í efnahagslægð áttunda áratugarins hertist róðurinn gegn velferðarríkinu, þegar hugmyndir nýfrjálshyggjunnar tóku að skjóta rótum og lita alla samfélagsumræðu. Rætt var um hugmyndalega og efnahagslega kreppu velferðarríkisins. Velferðarríki á villigötum, skrifaði Jónas Haraldz. Og áhersla á aðra þætti varð ofan á. Guðmundur vitnar í Morgunblaðið undir lok aldar þar sem stóð: „Baráttan fyrir varðveislu velferðar í landinu er fyrst og fremst barátta fyrir samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega.” Og veltir upp hvort samkeppnisríkið hafi tekið við af velferðarríkinu sem hugsjón um gott samfélag.
Í fyrirlestri sem Guðmundur hélt í vikunni um velferðarríkið dró hann helstu niðurstöður saman á glæru:
Velferðarmál voru lengstum í bakgrunni þjóðmálaumræðu á 20. öld. Breyting eftir 1990.
Velferðarríki hefur alltaf verið umdeilt hugtak. Framan af andstaða gegn velferðarríki sem þjóðfélagsgerð, síðar um inntak velferðarstefnu þar sem hugmyndir um norræna velferðarsamfélagið og frjálslynda velferðarsamfélagið takast á.
Ágreiningur í stjórnmálunum hefur einkum hverfst um:
- Hverjir eiga að veita velferðina: ríkið, samtök eða einkaaðilar?
- Almenn félagsleg réttindi eða aðstoð við fátæka?
- Hversu örlátt á velferðarkerfið að vera?
- Hvaða grunngildi á að hafa að leiðarljósi: samstaða, samhygð, jafnrétti, jöfnuður, frelsi, sanngirni?
Heyra má og sjá viðtalið við Guðmund í spilaranum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga