Fengu lögfræðing sem ítrekað hafði viðrað útlendingaandúð

Flóttafólk 15. nóv 2022

„Íslenska ríkið skip­aði okkur lög­fræð­ing, Vil­borgu Berg­mann. Eins og við komumst síðar að er hún sér­fræð­ingur í fjöl­skyldu­rétti, ekki útlend­inga­rétti. Auk þess hefur hún ítrekað sett fram opin­berar yfir­lýs­ingar sem lýsa útlend­inga­andúð,“ skrifar Anton Garbar, rússneskur flóttamaður um erfiðleika sína og eiginkonu hans að fá hér réttláta meðferð í umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi. Lögreglan hefur tilkynnt að þau verði flutt af landi brott á morgun.

Anton vísar til greina og ummæla Vilborgar Þórönnu Bergmann Kristjánsdóttur sem var í framboði fyrir Miðflokkinn fyrir síðustu þingkosningar. Í greinum sínum hefur hún varið útlendingastofnun og andmælt þeim sem hafa farið fram á mannúðlegri stefnu í flóttamannamálum, sjá t.d. hér: Ó­geð­felldar á­rásir á starfs­menn Út­lendinga­stofnunar og hér: örumst mistök annara í útlendingamálum

Anton og Viktoría eiginkona hans ráku litla ferða­skrif­stofu og fóru með hópa ferða­manna til Evr­ópu, Jap­ans, Kína og til Íslands­. Það er ástæða þess að þau leita eftir vernd hérlendis.

Anton segir að þau hjónin hafi ákveðið að flýja Rússland vegna stríðsins í Úkraínu. „Ég and­mælti stríð­inu strax opin­ber­lega á sam­fé­lags­miðlum og í stað­inn rigndi yfir mig sví­virð­ingum frá fyrr­ver­andi við­skipta­vin­um, fyrr­ver­andi vinum og jafn­vel nánum ætt­ingj­um,“ segir hann í grein sinni á Kjarnanum. „Á eftir sví­virð­ing­unum komu hót­an­ir, og það varð hættu­legt að vera um kyrrt. Við höfðum ein­ungis tvo val­kosti um fram­vind­una. Annað hvort að mót­mæla í Rúss­landi og verða án efa hand­tekin í kjöl­far­ið, eða að flýja land og reyna að hafa áhrif á ástandið utan frá.“

Hann lýsir örlögum þeirra sem hafa mótmælt stjórnvöldum í Rússlandi á þessari og síðustu öld. Og hvernig stjórnvöldum hefur tekist að snúa öll þessi mótmæli og mótmælendur niður.

„Meiri­hluti Rússa er þegar vanur því að búa við fátækt, að heyra um pynt­ingar og lúta órétt­læti. Ef þú ert hand­tek­inn, þá áttar þú þig á því að eng­inn mun koma þér til varn­ar. Kúg­un­ar­vélin mun kjamsa á örlögum þín­um, eins og hún hefur áður gert við millj­ónir sam­landa þinna. Í besta falli getur þú von­ast eftir því að ein­hvern­tím­ann, kannski eftir 50 ár, muni land þitt birt­ast á lista yfir þá sem hlutu óverð­skuld­aða refs­ingu,“ skrifar Anton.

Þau hjónin ákváðu að flýja til Kasakstan þar sem foreldrar Viktoriu eiginkonu hans búa. „Skömmu eftir það komu full­trúar frá rúss­nesku alrík­is­lög­regl­unni til móður minnar í Kalínín­grad. Þeir voru að leita að mér vegna þess sem ég hef skrifað gegn stríð­inu á sam­fé­lags­miðla. Lögum sam­kvæmt fram­selur Kasakstan fólk til Rúss­lands ef eftir því er óskað og við höfðum heyrt af fleiri en einu dæmi um slíkt. Það var því fremur spurn­ing um hvenær heldur en hvort ég yrði hand­tek­inn. Við þurftum að flýja á ný. Í þetta sinn fórum við til vest­urs, til eina lands­ins þar sem við áttum góða vini. Til Íslands.“

Þau flugu til Kefla­víkur 5. apríl 2022 og sóttu strax um alþjóð­lega vernd hjá lög­reglu. Fyrst var þeim komið fyrir á Ásbrú og svo vorum þau flutt á Hótel Sögu í Reykja­vík. Þau sóttu um vernd hjá Útlend­inga­stofnun og fengum úthlut­uðum lög­fræð­ingi. „Við héldum að við værum örugg. Það reynd­ist rangt,“ skrifar Anton.

Lögfræðingurinn var Vil­borg Berg­mann, sem Anton lýsir hér að ofan að hafi ítrekað sett fram opin­berar yfir­lýs­ingar sem lýsa útlend­inga­andúð. „Hvorki ég né konan mín Vikt­oría vissum þetta og biðum róleg yfir því að Útlend­inga­stofnun veitti okkur við­tal,“ skrifar Anton. „Hins vegar fóru und­ar­legir hlutir að eiga sér stað. Við hittum lög­fræð­ing­inn okkar fyrst 8. júní, í við­tal­inu við Útlend­inga­stofn­un, og höfðum aldrei rætt mál okkar við hana áður. Full­trúar Útlend­inga­stofn­unar sögðu að sam­talið sner­ist ein­ungis um með­ferð umsókn­ar­innar á Íslandi, en ekki umsókn okkar um hæli sem slíka.“

Strax dag­inn eftir sagði Vil­borg Berg­mann þeim að hún teldi 80% líkur á að þeim yrði vísað úr landi. „Á þessum tíma hafði hún ekki enn und­ir­búið umboð um að hún myndi fara með mál okk­ar, og lof­aði að gera það á næstu dög­um,“ skrifar Anton. „Við fengum þetta mik­il­væga skjal frá henni mán­uði síð­ar. Allan tím­ann sem við vorum á Íslandi vorum við að leita að vinnu. Þann 10. júní létum við lög­fræð­ing­inn okkar hafa und­ir­rit­aðan samn­ing við vinnu­veit­anda okkar sem hún lof­aði að hengja við umsókn okkar um vernd. Þann 3. ágúst til­kynnti Útlend­inga­stofnun okkur í gegnum lög­fræð­ing­inn að sex dögum fyrr hafði stofn­unin tekið ákvörðun um að hafna umsókn okkar um hæli á Íslandi. Í skjal­inu var því haldið fram að Útlend­inga­stofnun hefði tekið mál okkar til efn­is­legrar með­ferð­ar, en það gerð­ist reyndar ekki. Í ákvörð­un­inni var ekki minnst á sönn­un­ar­gögn okkar um póli­tískar ofsóknir í Rúss­landi, fyrri ferðir okkar með ferða­fólk til Íslands, þörf fyrir sál­fræði­að­stoð vegna greinds þung­lyndis og vinnu­samn­ing á Íslandi. Það átti að vísa okkur úr landi til Ítal­íu.“

Anton rekur raunasögu þeirra hjóna áfram: „Við fengum 15 daga frest til að kæra ákvörð­un­ina til kæru­nefndar útlend­inga­mála. Vik­urnar á undan hafði Vil­borg Berg­mann sagt okkur að henni væri sama þótt við vildum skipta um lög­fræð­ing og virt­ist hún jafn­vel hvetja okkur til þess. Þegar við ákváðum að gera það synj­aði hún okkur hins vegar skyndi­lega. Með erf­ið­leikum tókst okkur samt að skipta um lög­fræð­ing. Nú var Guð­mundur Narfi Magn­ús­son í for­svari fyrir okk­ur, og lagði fram áfrýj­un. Í milli­tíð­inni reyndum við að kynna okkur stöðu flótta­fólks á Ítal­íu. Við höfðum sam­band við sjálf­boða­liða á staðnum og full­trúa rík­is­ins. Okkur var sagt að þeir gætu hvorki útveg­að, hús­næði, bætur né vinnu. Sem þýðir að frá Íslandi er okkur vísað út á götur Mílanó. Þrátt fyrir vand­aða vinnu Guð­munds Narfa Magn­ús­sonar fengum við neitun frá kæru­nefnd­inni, þann 7. októ­ber, á fæð­ing­ar­degi Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta. Þá voru ekki fleiri lagalegar leiðir til að koma í veg fyrir brott­vís­un.“

Þegar þau hjónin vöktu athygli fjölmiðla á stöðu sinni og sögu brugðust stjórnvöld við með nokkurri hörku. Og skjótt, það var eins og það væri bein lína milli ráðherra og lögreglu sem hertu alltaf tökin eftir samskipti þeirra hjóna við ráðherra.

„Við leit­uðum til íslenskra fjöl­miðla til þess að reyna að ná eyrum Jóns Gunn­ars­sonar dóms­mála­ráð­herra,“ skrifar Anton. „Mér tókst meira að segja að sjá hann í bíl nálægt Alþingi 10. nóv­em­ber, en hann svar­aði beiðnum mínum um að mót­taka gögn um mál okkar með því að skipa bíl­stjór­anum að aka í burtu án þess að opna bíl­rúð­una. Dag­inn eftir að fjallað var um okkur í Stund­inni vorum við boðuð á lög­reglu­stöð­ina til sam­tals. Eftir frétt um okkur á RÚV 7. nóv­em­ber komu lög­reglu­þjónar á Hótel Sögu og sögðu okkur að koma á lög­reglu­stöð­ina á hverjum degi. Þann 14. nóv­em­ber náðum við að fá áheyrn hjá Katrínu Jak­obs­dóttur for­sæt­is­ráð­herra og láta hana hafa máls­gögn okk­ar. Fimmtán mín­útum eftir fund­inn fengum við sím­tal frá lög­regl­unni og okkur tjáð að okkur yrði vísað úr landi 16. nóv­em­ber, kl. 5 að morgni,“ skrifar Anton. Sem er á morgun.

„Vikt­oría konan mín og ég sjálfur teljum enn að mál okkar sé hryggi­leg mis­tök íslenska útlend­inga­mála­kerf­is­ins, sem enn megi leið­rétta. Allt sem þarf er lítið krafta­verk – ákvörðun á síð­ustu stundu frá dóms­mála­ráð­herra. Hins­vegar er þessi trú, rétt eins og ímynd okkar af sann­gjörnu Íslandi, smám saman að fjara út,“ endar Anton bænakall þeirra hjóna.

Hér má lesa grein Anton Garbar í Kjarnanum: Svona varð ég „glæpamaður“ á Íslandi

Myndin er af mótmælum þeirra hjóna á Austurvelli þar sem þau reyndu að ná athygli ráðherra og þingmanna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí