„Íslenska ríkið skipaði okkur lögfræðing, Vilborgu Bergmann. Eins og við komumst síðar að er hún sérfræðingur í fjölskyldurétti, ekki útlendingarétti. Auk þess hefur hún ítrekað sett fram opinberar yfirlýsingar sem lýsa útlendingaandúð,“ skrifar Anton Garbar, rússneskur flóttamaður um erfiðleika sína og eiginkonu hans að fá hér réttláta meðferð í umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi. Lögreglan hefur tilkynnt að þau verði flutt af landi brott á morgun.
Anton vísar til greina og ummæla Vilborgar Þórönnu Bergmann Kristjánsdóttur sem var í framboði fyrir Miðflokkinn fyrir síðustu þingkosningar. Í greinum sínum hefur hún varið útlendingastofnun og andmælt þeim sem hafa farið fram á mannúðlegri stefnu í flóttamannamálum, sjá t.d. hér: Ógeðfelldar árásir á starfsmenn Útlendingastofnunar og hér: örumst mistök annara í útlendingamálum
Anton og Viktoría eiginkona hans ráku litla ferðaskrifstofu og fóru með hópa ferðamanna til Evrópu, Japans, Kína og til Íslands. Það er ástæða þess að þau leita eftir vernd hérlendis.
Anton segir að þau hjónin hafi ákveðið að flýja Rússland vegna stríðsins í Úkraínu. „Ég andmælti stríðinu strax opinberlega á samfélagsmiðlum og í staðinn rigndi yfir mig svívirðingum frá fyrrverandi viðskiptavinum, fyrrverandi vinum og jafnvel nánum ættingjum,“ segir hann í grein sinni á Kjarnanum. „Á eftir svívirðingunum komu hótanir, og það varð hættulegt að vera um kyrrt. Við höfðum einungis tvo valkosti um framvinduna. Annað hvort að mótmæla í Rússlandi og verða án efa handtekin í kjölfarið, eða að flýja land og reyna að hafa áhrif á ástandið utan frá.“
Hann lýsir örlögum þeirra sem hafa mótmælt stjórnvöldum í Rússlandi á þessari og síðustu öld. Og hvernig stjórnvöldum hefur tekist að snúa öll þessi mótmæli og mótmælendur niður.
„Meirihluti Rússa er þegar vanur því að búa við fátækt, að heyra um pyntingar og lúta óréttlæti. Ef þú ert handtekinn, þá áttar þú þig á því að enginn mun koma þér til varnar. Kúgunarvélin mun kjamsa á örlögum þínum, eins og hún hefur áður gert við milljónir samlanda þinna. Í besta falli getur þú vonast eftir því að einhverntímann, kannski eftir 50 ár, muni land þitt birtast á lista yfir þá sem hlutu óverðskuldaða refsingu,“ skrifar Anton.
Þau hjónin ákváðu að flýja til Kasakstan þar sem foreldrar Viktoriu eiginkonu hans búa. „Skömmu eftir það komu fulltrúar frá rússnesku alríkislögreglunni til móður minnar í Kalíníngrad. Þeir voru að leita að mér vegna þess sem ég hef skrifað gegn stríðinu á samfélagsmiðla. Lögum samkvæmt framselur Kasakstan fólk til Rússlands ef eftir því er óskað og við höfðum heyrt af fleiri en einu dæmi um slíkt. Það var því fremur spurning um hvenær heldur en hvort ég yrði handtekinn. Við þurftum að flýja á ný. Í þetta sinn fórum við til vesturs, til eina landsins þar sem við áttum góða vini. Til Íslands.“
Þau flugu til Keflavíkur 5. apríl 2022 og sóttu strax um alþjóðlega vernd hjá lögreglu. Fyrst var þeim komið fyrir á Ásbrú og svo vorum þau flutt á Hótel Sögu í Reykjavík. Þau sóttu um vernd hjá Útlendingastofnun og fengum úthlutuðum lögfræðingi. „Við héldum að við værum örugg. Það reyndist rangt,“ skrifar Anton.
Lögfræðingurinn var Vilborg Bergmann, sem Anton lýsir hér að ofan að hafi ítrekað sett fram opinberar yfirlýsingar sem lýsa útlendingaandúð. „Hvorki ég né konan mín Viktoría vissum þetta og biðum róleg yfir því að Útlendingastofnun veitti okkur viðtal,“ skrifar Anton. „Hins vegar fóru undarlegir hlutir að eiga sér stað. Við hittum lögfræðinginn okkar fyrst 8. júní, í viðtalinu við Útlendingastofnun, og höfðum aldrei rætt mál okkar við hana áður. Fulltrúar Útlendingastofnunar sögðu að samtalið snerist einungis um meðferð umsóknarinnar á Íslandi, en ekki umsókn okkar um hæli sem slíka.“
Strax daginn eftir sagði Vilborg Bergmann þeim að hún teldi 80% líkur á að þeim yrði vísað úr landi. „Á þessum tíma hafði hún ekki enn undirbúið umboð um að hún myndi fara með mál okkar, og lofaði að gera það á næstu dögum,“ skrifar Anton. „Við fengum þetta mikilvæga skjal frá henni mánuði síðar. Allan tímann sem við vorum á Íslandi vorum við að leita að vinnu. Þann 10. júní létum við lögfræðinginn okkar hafa undirritaðan samning við vinnuveitanda okkar sem hún lofaði að hengja við umsókn okkar um vernd. Þann 3. ágúst tilkynnti Útlendingastofnun okkur í gegnum lögfræðinginn að sex dögum fyrr hafði stofnunin tekið ákvörðun um að hafna umsókn okkar um hæli á Íslandi. Í skjalinu var því haldið fram að Útlendingastofnun hefði tekið mál okkar til efnislegrar meðferðar, en það gerðist reyndar ekki. Í ákvörðuninni var ekki minnst á sönnunargögn okkar um pólitískar ofsóknir í Rússlandi, fyrri ferðir okkar með ferðafólk til Íslands, þörf fyrir sálfræðiaðstoð vegna greinds þunglyndis og vinnusamning á Íslandi. Það átti að vísa okkur úr landi til Ítalíu.“
Anton rekur raunasögu þeirra hjóna áfram: „Við fengum 15 daga frest til að kæra ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Vikurnar á undan hafði Vilborg Bergmann sagt okkur að henni væri sama þótt við vildum skipta um lögfræðing og virtist hún jafnvel hvetja okkur til þess. Þegar við ákváðum að gera það synjaði hún okkur hins vegar skyndilega. Með erfiðleikum tókst okkur samt að skipta um lögfræðing. Nú var Guðmundur Narfi Magnússon í forsvari fyrir okkur, og lagði fram áfrýjun. Í millitíðinni reyndum við að kynna okkur stöðu flóttafólks á Ítalíu. Við höfðum samband við sjálfboðaliða á staðnum og fulltrúa ríkisins. Okkur var sagt að þeir gætu hvorki útvegað, húsnæði, bætur né vinnu. Sem þýðir að frá Íslandi er okkur vísað út á götur Mílanó. Þrátt fyrir vandaða vinnu Guðmunds Narfa Magnússonar fengum við neitun frá kærunefndinni, þann 7. október, á fæðingardegi Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Þá voru ekki fleiri lagalegar leiðir til að koma í veg fyrir brottvísun.“
Þegar þau hjónin vöktu athygli fjölmiðla á stöðu sinni og sögu brugðust stjórnvöld við með nokkurri hörku. Og skjótt, það var eins og það væri bein lína milli ráðherra og lögreglu sem hertu alltaf tökin eftir samskipti þeirra hjóna við ráðherra.
„Við leituðum til íslenskra fjölmiðla til þess að reyna að ná eyrum Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra,“ skrifar Anton. „Mér tókst meira að segja að sjá hann í bíl nálægt Alþingi 10. nóvember, en hann svaraði beiðnum mínum um að móttaka gögn um mál okkar með því að skipa bílstjóranum að aka í burtu án þess að opna bílrúðuna. Daginn eftir að fjallað var um okkur í Stundinni vorum við boðuð á lögreglustöðina til samtals. Eftir frétt um okkur á RÚV 7. nóvember komu lögregluþjónar á Hótel Sögu og sögðu okkur að koma á lögreglustöðina á hverjum degi. Þann 14. nóvember náðum við að fá áheyrn hjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og láta hana hafa málsgögn okkar. Fimmtán mínútum eftir fundinn fengum við símtal frá lögreglunni og okkur tjáð að okkur yrði vísað úr landi 16. nóvember, kl. 5 að morgni,“ skrifar Anton. Sem er á morgun.
„Viktoría konan mín og ég sjálfur teljum enn að mál okkar sé hryggileg mistök íslenska útlendingamálakerfisins, sem enn megi leiðrétta. Allt sem þarf er lítið kraftaverk – ákvörðun á síðustu stundu frá dómsmálaráðherra. Hinsvegar er þessi trú, rétt eins og ímynd okkar af sanngjörnu Íslandi, smám saman að fjara út,“ endar Anton bænakall þeirra hjóna.
Hér má lesa grein Anton Garbar í Kjarnanum: Svona varð ég „glæpamaður“ á Íslandi
Myndin er af mótmælum þeirra hjóna á Austurvelli þar sem þau reyndu að ná athygli ráðherra og þingmanna.