Þingmenn þriggja flokka, Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata hafa nú í þriðja skiptið lagt fram þingsályktunartillögu í nær óbreyttri mynd um að stöðva brottvísanir flóttafólks og endursendingar til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands.
Um markmið tillögunnar segir að hún sé til að tryggja að stjórnvöld sendi ekki umsækjendur um alþjóðlega vernd í óviðunandi aðstæður þar sem það getur orðið fyrir vanvirðandi meðferð. Flutningsmenn hennar telja yfir vafa hafið að aðstæður í þessum löndum séu óviðunandi. Það sjónarmið er stutt af greiningu á vegum Evrópuþingsins um aðlögun flóttamanna í Grikklandi, Ungverjalandi og Ítalíu, öðrum alþjóðlegum skýrslum og frásögnum flóttafólks sem hefur dvalið með vernd í framangreindum löndum, líkt og er þar m.a. vitnað í umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks 4. febrúar 2020.
Í tillögunni er einnig tilgreint að fólk missi opinberan stuðning hafið það hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi og að á Ítalíu sé ekki skimað fyrir fólki í viðkvæmri stöðu. Stjórnvöld í Ungverjalandi leggja svo kapp á að takmarka stuðning til handa flóttafólki með löggjöf sem gerir það að verkum að lögmenn, ráðgjafar, sjálfboðaliðar og aðrir sem aðstoða umsækjendur um alþjóðlega vernd geta átt yfir höfði sér fangelsisdóm.
Tekist hefur verið á í þingsölum um túlkanir á útlendingalögum í kjölfar þess að lögregla handtók og flutti fimmtán hælisleitendur til Grikklands með harðræði í síðustu viku. Deilt er um túlkun á Dyflinarreglugerðinni sem er valkvæð. Frumvarp Jóns Gunnarssonar Dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum liggur enn fyrir í þinginu og er í umsagnarferli.
Myndin er úr flóttamannabúðum í Grikklandi.