Grunnforsendur kvótakerfisins hafa ekki gengið upp

Frá upphafi hefur Jón Kristjánsson fiskifræðingur gagnrýnt kvótakerfið. Hann hafnaði grunnforsendur kerfisins um að hægt væri að byggja upp fiskistofna með verndun sem síðan gætu orðið forsenda byggðar hringinn í kringum landið. Reynslan hefur sýnt að Jón hafði rétt fyrir sér. Markmiðið um 500 þúsund tonna þorskveiði á ári er órafjarri og byggð í sjávarbyggðum hefur gefið eftir, fótunum verið kippt undan þeim.

Í samtali við Rauða borðið benti Jón á að ekkert væri fjallað um þennan forsendubrest í langri skýrslu nefnda á vegum Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um sjávarútvegsstefnu stjórnvalda. Þar væri sveigt framhjá allri gagnrýni á veiðistjórn Hafrannsóknarstofnunar. Til dæmis væri ekkert getið um skýrslu Tuma Tómassonar, skólastjóra fiskveiðiskóla Sameinuðu þjóðanna frá 2001, líklega vegna þess að Tumi var gagnrýninn á störf Hafrannsóknarstofnunar.

Í viðtalinu skýrði Jón hvers vegna ekki er hægt að geyma fisk í sjónum og láta hann vaxa þar. Fæðuframboðið stjórnar vexti fiskistofna, ekki veiðin. Hvar sem reynt hefur verið að byggja upp fiskistofna með verndarstefnu hafa þeir fallið. Jón rekur í viðtalinu mörg dæmi þess. Verndarstefnan hafi skilið stofnana eftir of stóra svo fiskurinn hætti að vaxa vegna fæðuskorts. Niðurstaðan verður því minni fiskur, minni stofn og minni afli til langs tíma.

Jón heldur því fram að Íslendingar hafi í óþarfa neitað sér um að veiða þúsundir tonna, tug þúsundir tonna, frá því að kvótakerfið var sett á. Þetta sé helsta ástæða þess að sjávarbyggðirnar hafi gefið eftir og séu enn að veikjast. Nú sé til dæmis tímaspursmál hvenær kvótinn verður fluttur frá Siglufirði til Vestmannaeyja. Og hvenær kvótinn fer úr byggðunum á Snæfellsnesi. Með því að ætla að byggja upp fiskistofna í hafinu til að tryggja byggð í landinu, eins og var forsenda kvótakerfisins, hefur kerfið þvert á móti verið veigamesta ástæða veikari byggða hringinn í kringum landið.

Ástæðan er ekki aðeins minni afli, þótt það sé sú veigamesta. Önnur ástæða er að kvótakerfið leiðir til samþjöppunar og þess að örfá fyrirtæki gleypi önnur og drottni yfir sjávarútveginum á endanum. Þetta hefur gerst alls staðar þar sem kvótakerfi hefur verið reynt. Í stað þess að fjöldinn hafi tækifæri til að stunda veiðar og vinnslu tekur við kerfi stórfyrirtækja. Og sjávarútvegsstefnan verður ekki til að þjóna fjöldanum í byggðunum heldur aðeins þessum örfáu stórfyrirtækjum.

En vandinn er ekki allir þeir hundruð, þúsundir milljarða króna sem Íslendingar hafa neitað sér um yfir tíma kvótakerfisins heldur standa fiskistofnarnir líka verr nú en við upphaf kvótakerfisins. Við stöndum því verr í dag en fyrir fjörutíu árum, byggðirnar eru veikari og framtíðin dekkri.

Kvótinn átti að byggja upp fiskistofna og auka tekjur okkar af þeim til lengri tíma. Og þessar tekjur áttu að verða forsenda byggðar hringinn í kringum landið. Markmiðið var 500 þúsund tonna þorskafli hvert ár.

Í dag þykist Hafrannsóknarstofnun ánægð með um 200 þúsund tonn árlega. Fótunum hefur verið kippt undan fjöldi sjávarbyggða. Sjávarútvegurinn er aðeins hálfdrættingur miðað við það sem að var stefnt og hvað hann hefði getað orðið.

Þrátt fyrir að þetta sé öllum augljóst, að markmið kvótakerfisins gekk ekki eftir heldur þvert á móti, þá er þess ekki getið í ítarlegri skýrslu nefndanna hennar Svandísar. Þar er Hafrannsóknarstofnun þvert á móti mærð og lagt til að farið verði eftir leiðsögn hennar í framtíðinni sem hingað til. Þöggunin um afgerandi mistök þessarar stefnu og hörmulegrar niðurstöðu kvótakerfisins segir Jón dæmi um stórkostlega þöggun.

Sjá má og heyra viðtalið við Jón í spilaranum hér að ofan.

Hér má nálgast skýrslu Tuma Tómassonar: 2001. Úttekt á gagnrýni á fiskveiðistefnu Hafró

Rætt hefur verið við fleiri gagnrýnendur kvótakerfsins við Rauða borðið frá því að sáttanefnd Svandísar skilaði af sér áfangaskýrslu. Hér má hlýða á viðtal við Arthúr Bogason, formann Landssambands smábátaeigenda:

Hér er viðtal við Arnar Atlason formann Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda:

Og hér er viðtal við Sigurjón Þórðarson, fyrrum þingmann Frjálslynda flokksins:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí