Eftir að Sigmundur Davíð hnýtti í Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra á þinginu á dögunum fyrir aðgerðarleysi vegna þess fjölda hælisleytenda sem hér bíða svara um landvistarleyfi, hefur hann sagst ætla að leggja fram reglugerð um enduraðlögunarstyrk.
Reglugerðin inniheldur styrk allt að þrjú þúsund evrum eða 450 þúsundum íslenskra króna sem einstaklingum býðst til að yfirgefa landið innan þess tíma sem frestur er liðinn til sjálfviljugrar ferðar aftur heim. Fylgdarlausum börnum mun einnig bjóðast 1500 til 2000 evrur.
Með þessu hyggst dómsmálaráðherra freista þess að fækka málum þar sem fólk er flutt með lögreglufylgd úr landi en slíkar aðgerðir eru afar kostnaðarsamar.
Styrkir sem þessir eru ekki nýir af nálinni en þeir hafa verið veittir um árabil við ákveðnar aðstæður.
Auk þessarar reglugerðarbreytingar mælti dómsmálaráðherra fyrir frumvarpi til laga í gær um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 en í þrettándu grein þess er lagt til að ráðherra verði heimilt að útfæra nánar í reglugerð til að sannreyna rökstuddan grun um aða stofnað hafi verið til sambúðar í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Í frumvarpinu er það orðað sem svo að það sé nauðsynlegt að stjórnvöld hafi skýrari viðmið við það mat en gildandi lög og lögskýringargögn með þeim veiti ekki fullnægjandi leiðbeiningar.