Galið að sjávarútvegsfyrirtæki fái skaðabætur frá ríkinu fyrir hafa fengið minni afla

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM – Félags vélstjóra Og málmtæknimanna, segir í pistli sem hann birtir á vef félagsins að það sé galið að útgerðir, sem hafa skilað met afkomu síðustu ár, geti sótt skaðabætur til ríkisins á forsendum þess að rang­lega hefði verið staðið að út­hlut­un mak­ríl­kvóta. Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur dæmdi á dögunum Huginn VE-55 og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum í vil og þurfa skattgreiðendur að borga fyrirtækjunum tvo milljarða króna. Hér fyrir neðan má lesa pistil Guðmundar Helga í heild sinni.

Á vef Morgunblaðsins þann 6. júní birtist frétt þar sem fram kemur að Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hafi dæmt ríkið til greiðslu hátt í tveggja millj­arða króna í skaðabætur. Um var að ræða tvö mál sem Hug­inn VE-55 og Vinnslu­stöðin í Vest­manna­eyj­um ráku vegna tjóns, sem út­gerðirn­ar urðu fyr­ir við út­gáfu mak­ríl­kvóta á liðnum ára­tug.

Útgerðirn­ar byggðu kröf­ur sín­ar á því að ríkið væri skaðabóta­skylt, þar sem rang­lega hefði verið staðið að út­hlut­un mak­ríl­kvóta, ann­ars veg­ar árin 2011-2014 og hins veg­ar 2014-2018. Minna hefði komið í hlut fyr­ir­tækj­anna en þeim hefði borið, sam­kvæmt lög­um.

Við þessa niðurstöðu er rétt að staldra. Hversu galið er að sjávarútvegsfyrirtæki sem tilheyra grein sem skilað hefur met afkomu síðustu ár, svo talið er í tugmilljörðum, geti farið fram á skaðabætur frá ríkinu fyrir afla sem þeir hefðu kannski getað veitt?

Ríkið er ekkert annað en fólkið í landinu. Það er þannig fólkið í landinu sem þarf að borga Huginn VE 55 og Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum hátt í tvo milljarða króna. Þessi fjárhæð verður tekin af skatttekjum ríkisins, sameiginlegum sjóðum okkar, á tímum þar sem öll okkar kerfi eru fjársvelt. Heilbrigðiskerfið, barnabætur og vaxtabætur til láglaunafólks og eftirlaunakerfið. Allt eru þetta kerfi sem vel gættu nýtt tvo milljarða til að styðja við þá hópa sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Öllum má vera fullljóst að stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja landsins tilheyra ekki þessum hópum, nema síður sé.

Í þessu samhengi má ekki gleyma að sjómenn hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, sem útgerðarmenn hafa ekki samið við svo árum skiptir, eru á hlutaskiptakerfi. Ef útgerðin fær skaðabætur frá ríkinu vegna ranglætis við úthlutun makrílkvóta fyrr á öldinni þá hljóta sjómenn að fá þann tekjumissi bættan. Þeir urðu líka af tekjum. Það getur ekki verið sanngjarnt, ef bæta á forríkri útgerðinni meintan skaða, að skilja sjómennina eftir.

Þessi niðurstaða er eitt tilefnið til að skoða betur hvernig stórútgerðin spilar á kerfið sem þeim hefur verið sniðið, til að tryggja sér hámarks arðsemi af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Viðkvæði þeirra er fyrir löngu orðið öllum kunnugt; ég á þetta – ég má þetta.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí