Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað gegn svokallaðri jákvæðri mismunum (e. affirmative action). Er bandarískum háskólum nú bannað að taka tillit til kynþáttar þegar kemur að vali á umsækjendum. Er dómurinn rökstuddur með því að slík „mismunun“ brjóti í bága við stjórnarskrá Bandaríkjanna, nánar tiltekið 14. viðauka hennar sem tryggir öllum jafna vernd laganna.
Kemur þessi dómur Hæstaréttar í kjölfar annarra sem snúið hafa við dómum fŕa 7. og 8. áratugnum. Dómar sem álitnir hafa verið tímamótasigrar og komu í kjölfar þrotlausrar baráttu hinna ýmsu fjöldahreyfinga þess tíma.
Má þar t.d. nefna hið svokallaða Voting Rights Act frá 1965, en sá dómur gerði kosningar sem mismunuðu á grundvelli kynþáttar eða annars ólöglegar. Þrátt fyrir að Hæstiréttur Bandaríkjanna hafi ekki enn beinlínis snúið þeim dómi við, þá hefur hann dregið verulega tennurnar úr honum má segja, einna helst árið 2013 þegar Hæstirétturinn gaf ríkjum Bandaríkjanna mun meira frelsi til að ráða sínum ráðum sjálf þegar kæmi að kosningum.
En frægast er þó þegar Hæstirétturinn sneri við Roe vs. Wade á síðasta ári, en sá dómur – sem gerði í stuttu máli fóstureyðingar ólöglegar á ný – hneykslaði stóran hluta heimsbyggðarinnar og gerir enn. Var sá dómur, frá 1973, afleiðing þrotlausrar baráttu femínistahreyfingar þess tíma.
Er þetta því einungis nýjasti liðurinn í því að snúa við hinum ýmsu fortíðar sigrum róttækra vinstri baráttuhreyfinga. Í þessu tilviki var jákvæða mismununin sem um ræðir eitthvað sem borgararéttindahreyfingin í Bandaríkjunum barðist mikið fyrir að ná almennilega í gegn á sínum tíma. En var hugsunin á bakvið hana sú að hún leiðrétti að einhverju leyti þá gríðarlega miklu mismunun sem blökkufólk og aðrir minnihlutahópar stóðu frammi fyrir.
Hafa íhaldsmenn mikið gagnrýnt þessa stefnu síðustu áratugi. Langoftast með þeim rökum að kynþáttur ætti ekki að skipta neinu máli þegar kemur að vali á umsækjendum, einungis hæfni. Hafa verjendur hennar þó bent á að ekki sé hægt að líta fram hjá hinni sögulegu og kerfisbundnu mismunun sem fólk af öðrum kynþáttum hefur og glímir enn við. En jákvæða mismununin var einmitt hugsuð sem tól til að vega upp á móti henni – með réttlátari og sanngjarnari niðurstöðu fyrir alla.
En nú er, eins og áður segir, búið að banna háskólum með lögum að líta til kynþáttar þegar kemur að ákvörðunartöku um umsækjendur. Búast gagnrýnendur dómsins við miklu hruni í fjölda háskólanema af öðrum kynþætti í beinu framhaldi – fyrst og fremst í hinum svokölluðu Ivy League eða topp háskólum.
Vel fjármagnaður dómur
Dómur Hæstaréttar gegn jákvæðri mismunun féll í tveimur ólíkum málum, sem bæði komu þó frá einum samtökum: SFFA (Students for Fair Admission). En samtökin höfðuðu málin til að láta reyna á lagalegt réttmæti ákvörðunaferlis tveggja háskóla þegar kæmi að umsækjendum – en báðir háskólar tóku kynþátt til greina í því ferli.
Af nafninu á samtökunum að dæma mætti ætla að um væri að ræða einhvers konar samtök stúdenta. Hinsvegar, þá er það einfaldlega ekki tilfellið. Samtökin eru í eigu, og leidd af, íhaldssömum auðmanni að nafni Edward Blum, sem ræður yfir gríðarmiklu fjármagni sem hann hefur notað til að styðja hinar ýmsar baráttur af svipuðum toga, gegn fyrri sigrum vinstrisins. Þar á meðal baráttuna gegn Voting Rights Act sem áður var minnst á, en sú barátta er enn í fullum gangi.
Hvað næst?
Íhaldsmenn hafa því unnið annan stórsigur. Ekki þarf að velta mikið fyrir sér hvað gæti verið næst á dagskrá hjá þeim, en þeir hafa verið nokkuð opnir og hreinskilnir með það.
Dómari íhaldsmanna, Clarence Thomas, sagði til að mynda eftir að Roe vs. Wade dómurinn féll að í sigtinu væri einnig réttindi samkynhneigðra, ásamt lög um getnaðarvarnir, svo eitthvað sé nefnt.