Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að kjarasamningarnir sem VR undirritaði í nótt við Samtök avinnurekenda gagnist ekki félagsmönnum sem skyldi.
Tækifæri sem hefði skapað launafólki sterkari stöðu og betri kjör hafi glatast. Mikilvæg forsenduákvæði sem lagt var upp með hafi ekki orðið að veruleika. Í raun standi ekkert eftir af upphaflegum markmiðum annað en hófstilltar launahækkanir til langs tíma.
Ragnar Þór upplýsir við Rauða borðið á Samstöðinni í kvöld hvers vegna VR klauf sig fá breiðfylkingunni. Hann gagnrýnir forystufólk í verkalýðshreyfingunni án þess að vilja nefna einstök nöfn þeirra sem hann telur ekki hafa staðið í lappirnar.
Formaður VR telur naflaskoðun þurfa að eiga sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar. Fólk hafi ekki verið nógu samstíga í að krefjast þeirra umbóta sem hefði þurft að ná fram í „sturluðu“ umhverfi efnahagslífsins nú um stundir. Þar sem húsnæðisskortur, verðbólga og ofurvextir geri leigjendum sérlega erfitt fyrir.
Ekki náðist samkomulag um leiguþak eða vaxtabætur í samningunum. Fríar skólamáltíðir eru þó af hinu góða, að því er kemur fram hjá formanni VR.
Þá lýsir Ragnar Þór að minnstu hafi munað að SA, sem hafði krafist verkbanns meðal félaga VR, gengi út úr viðræðunum í gærkvöld. Lengra hafi ekki verið hægt að komast. Hann sér þó enga ástæðu til að fagna samningunum – heldur þvert á móti.
Þá gagnrýnir Ragnar Þór fjármálaráðherra, Þórdísi Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur , harðlega í viðtalinu og segir að framhjá því hafi verið litið hve ríkið spari sér mikið fé með lægri kjarabótum til opinberra starfsmanna en annars hefði getað orðið.