Íslenski listamaðurinn og aðgerðasinninn Oddur Eysteinn Friðriksson stendur fyrir söfnun vegna lagalegrar baráttu sinnar við Samherja.
Forsaga málsins er sú að Oddur Eysteinn stofnaði vefsíðu, samherji.co.uk, sem liður í listrænum gjörning hvers tilgangur var að vekja athygli á Samherjaskjölunum svokölluðu sem afhjúpuðu víðtæka spillingu Samherja í Namibíu. Síðan sem listamaðurinn stofnaði var keimlík raunverulegri heimasíðu Samherja, fyrir utan að þar bætti hann við afsökunarbeiðni til Namibíu þar sem lofað var skaðabótum. Var þetta hluti af listrænum gjörningi hans sem hann nefndi “We’re sorry”, og var hluti af honum einnig sýning sem hann hélt í Reykjavík.
Viðbrögð Samherja var að gefa út tilkynningu þar sem fyrirtækið þvertekur fyrir að biðjast afsökunar á nokkrum sköpuðum hlut, og hefur nú kært listamanninn fyrir rétt í London fyrir brot á höfundarrétti. Því stendur hann fyrir söfnun í þessari lagalegu baráttu, sem hann lýsir sem Davíð á móti Golíat.
Listamanninn má styrkja í þessari baráttu í gegnum hlekkinn hér fyrir neðan.
Samherjaskjölin
Árið 2019 afhjúpaði Wikileaks, í samstarfi við alþjóðlega sem og innlenda fréttamiðla víðtæka spillingu Samherja í Namibíu. Hefur þessi afhjúpun haft mikil áhrif þar í landi, en tveir fyrrum ráðherrar ríkisstjórnar Namibíu sitja nú í fangelsi ásamt því að mikil rannsókn á málinu stendur þar enn yfir.