„Þrátt fyrir allt voru upphaflegar heimildir til strandveiða í sumar ágætis byrjun á vertíð í óbreyttu kerfi. Það sem er óvenjulegt er sú niðurstaða Matvælaráðuneytisins að koma ekki með árvissa viðbót við strandveiðipottinn í sumar, líkt og undanfarin ár,“ skrifar Bjarni Jónsson þingmaður Vg og sonur Jóns Bjarnasonar, höfundar strandveiðikerfisins í grein í Vísi sem skrifuð er gegn ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, ráðherra Vg.
Það eru því ekki bara þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem gagnrýna Svandísi fyrir ákvörðun hennar varðandi hvalavertíðina heldur sætir hún nú harðri gagnrýni frá strandveiðimönnum vegna slita á þeirri vertíð. En ekki bara strandveiðimönnum heldur fólki úr sjávarbyggðunum, fiskvinnslum án útgerðar og í raun stærsta hluta landsmanna sem styður kerfið. Þau einu sem styðja ákvörðun Svandísar eru Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Nú rísa þingmenn Vg upp og mótmæla ákvörðun Svandísar.
„Það olli miklum vonbrigðum og kom okkur mörgum á óvart, enda virðist árið í ár ekkert sérstaklega frábrugðið fyrri árum hvað varðar veiðiheimildir sem fyrirséð er að muni ekki verða nýttar á árinu, eða hægt sé að koma við lágmarks sveigjanleika á milli fiskveiðiára í strandveiðikerfinu samanborið við það sem hefur tíðkast í kvótakerfinu. Þetta árið virðist stjórnsýslan hafa farið í ótímabært sumarleyfi áður en sú heimavinna var unnin,“ skrifar Bjarni.
Í greininni fer Bjarni yfir að gott fordæmi og svigrúm hafi verið fyrir ráðuneytið að auka kvótann: „Á undanförnum árum hefur að jafnaði verið hægt að bæta við strandveiðipott ársins áður en vertíð líkur af heimildum annarsstaðar frá sem sýnt hefur verið að verði ekki nýttar á því fiskveiðiári,“ skrifar Bjarni. „Fiskveiðiárið 2021/2022 bætti núverandi sjávarútvegsráðherra þannig við 1074 tonnum 7. júlí. Almennur byggðakvóti var lækkaður úr 4500 tonnum í 3626 tonn vegna vannýttra heimilda, eða 874 tonn. Línuívilnun lækkaði úr 1400 tonnum í 1250 tonn, eða 150 tonn, heimildir til frístundaveiða lækkuðu úr 250 tonnum í 200 tonn eða 50 tonn. Með sama hætti bætti forveri hennar við strandveiðipottinn fiskveiðiárið 2020/2021, 1171 tonni. Þá var almennur byggðakvóti hækkaður úr 3800 tonnum í 4029 tonn, línuívilnun hækkuð úr 1200 tonnum í 1386 tonn, frístundaveiðar lækkaðar úr 300 tonnum í 222 tonn og strandveiðar auknar úr 10.000 tonnum í 11.171 tonn, eða alls 11.71 tonn í strandveiðipottinn. Þannig er hægt að rekja sig til baka ár fyrir ár og sjá úthlutun til strandveiða, viðbætur og heildarúthlutun.“
Bjarni minnir á að aukning strandveiða sé stefna Vg. „Síðastliðið haust mælti ég fyrir tillögu þingmanna VG til þingsályktunar um eflingu félagslega hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins. Tillagan byggir á sjávarútvegsstefnu hreyfingarinnar og felur í sér að stækka í áföngum félagslegan hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins með það fyrir augum að hlutdeild hans verði 8,3% af heildarafla í stað 5,3% í dag. Sömuleiðis er í tillögunni lagt til að endurskoða hlutverk mismunandi aðgerða innan kerfisins og skiptingu aflamagns á milli þeirra. Ástæða er til að endurskoða úthlutun og meðhöndlun aðgerða innan kerfisins með tilliti til þess hvernig þær veiðiheimildir nýtist sem best smærri byggðarlögum sem þær eiga að þjóna og færa stærri hluta þeirra til smærri útgerða og inn í strandveiðikerfið. Þá þarf að koma í veg fyrir að stór hluti þeirra endi hjá stærstu útgerðarfélögum landsins sem nú þegar halda á stærstum hluta allra veiðiheimilda við Íslandsstrendur.“
Lesa má grein Bjarna hér: Strandveiðar á tímamótum – næstu skref