„Ég sef í tjaldi í skóginum, einn míns liðs, geturðu hjálpað mér?“ – Afleiðingar nýrra útlendingalaga birtast

„Næstkomandi föstudag, hinn 11. ágúst líður sá frestur sem Blessing Newton og fleiri hafa til að koma sér út úr flóttamannabúðunum í Hafnarfirði. Nú þegar er búið að svipta hana félagslegri aðstoð, lögfræðiaðstoð, strætókorti og fleira sem hún naut sem umsækjandi um alþjóðlega vernd. Nú á að svelta hana og fleiri umsækjendur til að koma sér úr landi – nú síðast var fólkið í Hafnarfirð svipt bónuskorti til að kaupa í matinn.“

Þetta skrifar Drífa Snædal, talskona Stígamóta, í grein sem birtist í dag, miðvikudag, í Vísi. Drífa bendir á að þetta sé veruleiki hinna breyttu útlendingalaga, „sem var þrýst í gegnum þingið þrátt fyrir viðvaranir Rauða krossins og helstu mannréttindasamtaka“. Lögin tóku gildi 1. júlí og á föstudag reynir á framkvæmdina, segir hún.

Sveitarfélög gætu veitt aðstoð en gera það ekki

Drífa segir að í reglugerð um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga við erlenda ríkisborgara utan EES sé kveðið á um möguleikann á að veita aðstoð til dvalar ef ákvörðun stjórnvalda um að manneskja skuli yfirgefa landið getur ekki komið til framkvæmdar. Þá skuli einstaklingum veitt dvalarleyfi og atvinnuleyfi til bráðabirgða.

Yfirvöld hafi aftur á móti ekki nýtt þessa heimild í tilfelli Blessing – „og er það óskiljanlegt þar sem hún getur hvergi farið“.

„Svona förum við með konur sem hafa sætt viðbjóðslegu ofbeldi. Konur sem vilja bara sjá fyrir sér, lifa í friði á Íslandi og búa sér öruggt heimili,“ skrifar Drífa. „Eftir fjöldamörg samtöl við fólk innan kerfisins er ljóst að yfirvöld vita ekkert hvað á að gera. Taka sveitarfélögin við? Á að virkja reglur um útlendinga í neyð? Á að vísa fólki á guð og gaddinn og búa hér til neðanjarðarsamfélag örvæntingafulls fólks sem hvergi getur farið? Það virðist því miður vera planið.“

Stjórnvöld framleiði umkomuleysi

Í sama streng tekur séra Toshiki Toma í Facebook færslu á þriðjudag: „Breyttu útlendingalögin heimila stjórnvöldum að „framleiða götufólk (street living people)“ með því að slíta alls konar stuðning við hælisleitendur eftir 30 daga frá því að þeir fá endanlega synjun. Afleiðing þessarar breytingar er að birtast núna,“ skrifar hann.

Toma segist hafa fengið SMS, á meðan hann var í fríi, frá einum þeirra sem misstu stuðning í krafti nýrra útlendingalaga, og á í engin hús að venda. „Ég hef engin önnur úrræði,“ stóð í skilaboðunum, á ensku, „Ég vil að þú hjálpir mér, ég vil hvaða rúm eða stað sem er til að sofa, ég hef engan stað til að sofa á, ég sef í tjaldi í skóginum, einn míns liðs, geturðu hjálpað mér?“ Þá hafi maðurinn skrifað: „Ég hafði samband við öll þau yfirvöld sem málið varðar: Solaris, moskuna, kirkjuna, Rauða krossinn og félagsþjónustuna, en enginn kom til aðstoðar.“

Tjaldbyggð eins og í Calais ekki óraunsæ

„Það er ekki óraunsætt,“ skrifar Toma, „að hluti af Reykjavík (eða Hafnarfirði eða Reykjanesbæ) verði eins og Calais in Frakklandi … eftir mánuði.“

Toma bætir því við að þetta sé ekki „smáefni“ sem hópur góðviljaðra eða einstaklingar geti sinnt og fundið úrlausn á. Hann lýkur færslunni á áskorun:

„Ég vil skora á að Rauði Krossinn, Hjálparstarf eða borgin, eitthvert stórt batteri í málaflokknum, sýni frumkvæði og kalli á fund fyrir fólk sem er til í aðstoð við flóttafólk, svo að við fáum að ræða sameiginlega viðbragðsáætlun, fljótlega.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí