Blessing Newton frá Nigeríu sem var rekin á götuna úr flóttamannabúðum útlendingastofnunar í Flatahrauni í dag kom ásamt þeim Esther og Mary sem voru í sömu stöðu seinna í dag að sækja dótið sitt eftir að hafa farið á Geðdeild LSH í áfalli.
Konurnar eru miður sín og hafa í engin hús að vend en Blessing ræddi stuttlega við Maríu Pétursdóttur blaðamann Samstöðvarinnar. Blessing gagnrýnir yfirvöld fyrir að leyfa ekki barnlausum konum að fara beint út á vinnumarkaðinn á Íslandi en hún upplifir mikla höfnun og hatur fyrir að vera öðruvísi. Þá voru þær þrjár einnig einu konurnar sem dvöldu í búðunum og fannst þeim ómannúðlegt að vera kastað út eins og fyrir þá sök að vera konur. Hún segir nýtt fólk koma inn og þá sé rýmt fyrir því með því að setja aðra út á götu.
Þær Blessing, Esther og Mary eru allar fórnarlömb mansals og vændis og hafa dvalið á Íslandi frá 3 upp í 5 ár en eiga nú að sjá um sig sjálfar án atvinnuleyfis og koma sér úr landi.
Blessing veltir fyrir sér hvort stjórnvöld ætlist til þess að þær sjái fyrir sér með vændi hér á landi líka úr því verið sé að senda þær í sömu aðstæður og þær komu úr en hún segist einmitt vilja dvelja hér þar sem hér þrífist lítill sem enginn slíkur óhugnaður. Hún vill bara vinna og greiða skatt á Íslandi og fá að lifa hér í friðsemd. Eins og staðan sé hins vegar núna þá langi hana bara til að deyja.