„Bein efnahagsleg áhrif hvalveiða á Íslandi eru ekki mikil í þjóðhagslegu samhengi, sé miðað við útflutningsmagn og verðmæti síðustu ára. Þegar best lét nam útflutningsverðmæti þessara afurða rétt ríflega 0,6% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða, þ.e. árið 2016. Hér ber þó að hafa í huga að útflutningsverðmætið ræðst að mestu leyti af því magni sem leyft er að veiða á hverjum tíma. Þá hafa átt sér stað rannsóknir og þróun á frekari nýtingu afurða úr hvölum,“ segir í skýrslu ráðgjafafyrirtækis sem unnin var fyrir matvælaráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur.
Tímabundið bann Svandísar við hvalveiðum rennur út um mánaðamótin, á föstudaginn í næstu viku. Birting skýrslunnar nú má líta á sem undirbúning ráðherra til að framlengja banninu, benda á að hvalveiðar skiptir íslenskt þjóðarbú nánast engu máli. Kristján Loftson útgerðarmaður er meira og minna að drepa hvali upp á sportið, nánast sem pólitískan gjörning. Og þær 120 manneskjur sem hafa tekjur af veiðum og vinnslu á hval gætu án efa fundið sér aðra vinnu, enda atvinnuleysi lítið á Íslandi.
Skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Intellecon má lesa hér: Efnahagsleg áhrif hvalveiða
Í niðurstöðum hennar segir einnig: „Ekki verður séð að hvalveiðar hafi verið arðbær atvinnugrein á síðustu árum í því rekstrarumhverfi sem greinin hefur búið við. Laun þeirra sem vinna við hvalveiðar og vinnslu eru mun hærri en í flestum öðrum greinum, en vinnan er bæði vaktavinna og bundin við vertíðartímabilið sem er alla jafna um fjórir mánuðir á ári. Þrátt fyrir að hvalveiðar séu ekki efnahagslega mikilvægar í þjóðhagslegu samhengi þá eru þær mikilvægar fyrir þá einstaklinga sem starfa í greininni á vertíðinni. Ætla má að þeir einstaklingar sem alla jafna vinna í greininni verði af töluverðu tekjutapi verði þeir að vinna við önnur störf í stað hvalveiða og vinnslu.
Þegar leitað er eftir viðhorfum fólks erlendis til hvalveiða er það alla jafna mjög neikvætt. Ekki er hægt að fullyrða að þau viðhorf hafi merkjanlega neikvæð efnahagsleg áhrif hér á landi s.s. að auka verulega erfiðleika við að selja framleiðsluvörur okkar erlendis eða dragi úr aðdráttarafli Íslands sem ferðamannalands. Aðrir þættir en neikvæð viðhorf til hvalveiða Íslendinga virðast vega þyngra hvað varðar ákvarðanir um að eiga í viðskiptum við íslensk fyrirtæki eða hvort sækja beri landið heim.
Af ofansögðu má ráða að erfitt er að draga miklar ályktanir um að hvalveiðar hafi yfirhöfuð mikil áhrif á útflutningshagsmuni Íslands þar sem ekki verður séð að hvalveiðar dragi úr komu ferðamanna til landsins né öðrum útflutningi vöru og þjónustu. Þessi áhrif eru ekki merkjanleg, að öðru óbreyttu, þrátt fyrir augljósa og mikla andstöðu almennings í helstu viðskiptalöndum okkar við hvalveiðar yfirleitt.“