Lögregla beitti offorsi gegn loftslagsmótmælum við Burning Man hátíðina í Nevada

Á sunnudag stöðvaði hópur umhverfisverndarsinna bílaumferð á leið til hins árvissa viðburðar Burning Man, í Nevada eyðimörkinni. Mótmælendurnir hlekkjuðu sig við aftanívagn á miðjum veginum, og báru skilti sem kröfðust afnáms kapítalismans og þess að Móður Jörð verði komið til bjargar. Mótmælin beindust þannig gegn neysluhyggju og kolefnisspori hátíðarinnar, sem tugir þúsunda sækja að jafnaði, en mótmælendurnir segja sóunina sem fylgi hátíðinni vera í mótsögn við uppruna hennar innan andspyrnumenningar Kaliforníu.

Bílaröðin sem myndaðist með vegatálmanum á sunnudag.

Væntanlegir hátíðargestir brugðust ókvæða við mótmælunum og kölluðu til lögreglu sem kom á vettvang þegar vegartálminn hafði stöðvað umferð í rúman hálftíma. Á meðal löggæsluaðilanna sem brugðust við dró einn „ranger“ upp skotvopn sem hann beindi að mótmælendum og ók loks bíl sínum í gegnum vegatálmann og öskraði að hópnum: “I’m going to take you all out!”.

Lögregla brást við motmælunum með offorsi, að sögn talsmanna Sjö hringja bandalagsins.

Sjö hringja bandalagið nefnir sig hópurinn, eða regnhflífarsamtökin, sem mótmælendurnir tilheyra. Á þriðjudag lét bandalagið frá sér tilkynningu um ofsaviðbragð lögreglunnar við mótmælunum, sem þau sögðu „skyndimynd af stofnanabundnu ofbeldi og grimmd lögreglunnar, sem birtist hverjum sem reynir í verki að valda kerfisbundnum breytingum innan Bandaríkjanna.“ AP greindi frá mótmælunum og viðbragði lögreglunnar en ítarlegri umfjöllun birtist í The Guardian.

Burning Man hátíðin

Hátíðin Burning Man er haldin hvert sumar í Black Rock eyðimörkinni í Nevada. Hún á rætur sínar að rekja til fyrstu ára 9. áratugarins, þegar myndhöggvari að nafni Mary Grauberger, hélt litla sólstöðuhátíð á opinni strönd við San Francisco. Meðal þátttakenda var listamaður að nafni Larry Harvey, sem tók við skipulagi viðburðarins þegar Grauberger sagði skilið við hann árið 1986. Úr afgangstimbri reistu hann og félagar hans tveggja og hálfs metra líkneski af manneskju sem var brennt á sumarsólstöðum. Þaðan fær hátíðin nafn sitt. „Róttæk sjálfstjáning“ var svar Harveys við fyrirspurnum um inntak gjörningsins. Ári síðar var seremónían endurtekin með 5 metra háu líkneski, og níu metra háu tveimur árum síðar.

Svipmynd frá hátíðinni 2019.

Eftir því sem árin liðu óx þessari samkomu ásmegin, en taldist lengi vel einhvers konar jaðarviðburður, tilheyrði neðanjarðarmenningu. Hún færðist af einum stað á annan, en þegar hún tók að hreiðra um sig sem árviss samkoma í Black Rock eyðimörkinni þurfti að koma meira skipulagi á tímabundnu byggðina sem fylgir henni, sem gengur nú undir nafninu Black Rock City. Undanliðin ár fækkaði þátttakendum í um 20 þúsund, á meðan sóttvarnir vegna heimsfaraldurs stóðu hæst, en 2019 töldust þátttakendur í hátíðinni, og þar með íbúar hinnar tímabundnu borgar, tæplega 79 þúsund.

Hugvíkkunarborgin í eyðimörkinni

Hvers konar hátíð er þetta þá? Ef þjóðhátíð í Eyjum hefði verið fundin upp af kalifornískum listamönnum eftir hippatímann og orðið eftirsótt af ungum auðkýfingum í leit að hvaða hugvíkkandi reynslu sem veröldin hefur upp á að bjóða, má kannski komast nærri um það. Nokkur núningur hefur gegnum tíðina myndast milli þeirrar ólíku sýnar sem ólíkir hópar þátttakenda hafa á hátíðina og um hvað hún snýst. „Radical inclusion“ er eitt af viðkvæðum skipuleggjenda, róttæk inngilding, með öðrum orðum að allir megi vera með. Almennt miðaverð er hins vegar 575 Bandaríkjadalir á mann, eða um 75 þúsund krónur. Er þá ótalinn annar kostnaður við þátttökuna. Fimm þúsund ódýrari miðar bjóðast fyrir fólk sem er tilbúið að reiða fram gögn um lágar tekjur, á 225 dali, eða um 29 þúsund krónur. Þegar nær dregur hátíðinni eru miðar seldir á allt að 2.750 dali, eða 360 þúsund krónur, á vegum hátíðarinnar sjálfrar.

Vænta má að átök um umhverfisvernd séu viðkvæmari blettur en útilokandi miðaverð fyrir sjálfsmynd hátíðarinnar, en þetta tvennt helst þó hönd í hönd að því leyti sem útlagður kostnaður samsvarar sér í þeirri neyslu sem nú fylgir hátíðinni.

Einnota 80.000 manna borgin í eyðimörkinni.

Hverri samkomu fylgja umtalsverðir innviðir, gatnaskipulag og byggingar: árið 2002 reis í eyðimörkinni 30 metra há bygging sem nefnd var Gleðihofið. Hof af svipaðri stærð, undir ólíkum nöfnum, hafa síðan þá verið árviss hluti af hátíðinni. Árið 2012 var vænglaus skrokkur af Boeing 747 breiðþotu fluttur í eyðimörkina og nýttur undir diskótek.

Jafn árviss viðburður og hátíðin sjálf eru tafir fólks við að komast af svæðinu að henni lokinni, þegar margra kílómetra bílaröð myndast einatt á veginum. Fátíðari eru þess háttar tafir á leið til svæðisins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí