Aðalmeðferð í máli níu mótmælenda gegn íslenska ríkinu fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Krafist er miskabóta vegna meintra ólögmætra aðgerða lögreglunnar.
Á meðal sönnunargagna eru upptökur úr búkmyndavélum lögreglu en samkvæmt heimildum Samstöðvarinnar þurfti dómari að beita sér sérstaklega fyrir því að fá þau gögn hjá lögreglu sem vildi ekki verða við ítrekuðum óskum lögmanns þar um. Oddur Ástráðsson, lögmaður hópsins, segir lögreglu hafa með valdbeitingu sinni „með ólögmætum hætti skert tjáningar- og fundafrelsi þeirra og með því vegið að rétti þeirra til stjórnarskrárvarinnar þátttöku í lýðræðislegri umræðu“.
Á meðal þess sem fram kemur í myndefninu eru samtöl lögreglumanna í þeim aðstæðum sem leiða að kærðu atviki, þegar mómælendur voru beittir piparúða.
„Ég var hræddur þarna. Helvítis dýrið en við náðum honum,“ heyrist lögreglumaður að nafni Níels segja í búkmyndavél annars lögreglumanns sem var til vitnis í dómssal en fram kom í vitnisburði hans að lögreglumaðurinn hafi verið hræddur við að fá sjálfur á sig piparúða sem gengið hafi í allar áttir. Spurður hvort „dýrið“ sé einn mótmælenda vildi vitni ekki svara því en taldi það líklegt.
„Eigum við ekki bara að gasa fólkið til að koma ráðherrunum?“ Heyrist Ívar Ísak Guðjónsson, lögreglumaður og einn eiganda Crossfit Reykjavík segja við varðstjóra en hann var einnig til vitnis og neitar því að hafa verið sá sem fyrirskipaði beitingu gas-vopnsins. Ívar Ískak hefur verið starfandi hjá lögregluembættinu síðan árið 1994. Hann kvaðst sjaldan hafa upplifað jafn „aggressíva“ stemmningu hjá mótmælendum á ferli sínum innan löggæslunnar. Þá fullyrðingu dró lögmaður stefnenda í efa og varpaði myndefni á vegginn, því til stuðnings, þar sem sjá mátti mótmælendur nokkuð langt frá þeirri línu sem upp hafði verið dregin á svæðinu af lögreglu.
Á undan Ívari Ísaki tók til máls Arnar Rúnar Martensson, yfirvarðstjóri á Höfuðborgarsvæðinu. Hann lýsti þvi yfir að hafa fyrirskipað ákvörðunina um beitingu gas-vopnsins. Hann sagði aðstæður hafa verið mjög erfiðar bæði vegna fjölda mótmælenda og einning vegna stemmningunar en þau hafi verið mjög æst og ekki farið eftir tilmælum. Spurður hvort að tilmæli þessi hafi verið öllum hlutaðeigandi skýr kvað hann svo vera. Hann var ánægður með vitnisburð sinn sem hann lýsti fyrir blaðamanni að hafi verið í lengri kantinum og til þess að ekki náðist að gera hlé á þinghaldinu samkvæmt dagskrá. Við náðum af honum tali fyrir utan þingsal.
Í fréttum af atburðinum kom fram að lögreglumaður hefði slasast í atgangi mótmælenda. Hann var kallaður til vitnis og bar fyrir dómi því sama og kollegar hans á undan um ákveðna „stemmningu“ og „spennu“ á meðal mótmælenda. Hann vitnaði svo um að óhappið sem hann varð fyrir hafi ekki verið neinum að kenna og ekki sök mótmælenda, „hreint óhapp,“ fullyrti hann en bíll ráðherra ók á fót hans með þeim afleiðingum að hann tognaði á ökla. Athygli vekur að samkvæmt ofangreindum vitnisburði höfðu mótmælendur á þessum tímapunkti ekki gert neitt til þess að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu en í málflutningi verjenda lögreglunnar var óhlýðni við téð fyrirmæli, að hleypa ráðherrabílnum í gegn, til marks um mikinn óróa á svæðinu og síðar kveikjan að beitingu gas-vopnsins.
Samstöðin ræddi við mótmælendurna við Rauða borðið skömmu eftir atburðina og sögur þeirra lýstu vægast sagt hrottalegri framkomu lögreglunnar. Það sem meira er höfðu mótmælendur náð miklum hluta lögregluofbeldisins á myndbönd, sem einn sækjendanna níu, Pétur Eggerz, hefur haldið utan um á instagram síðu sinni.