Sema Erla útskýrir hvað breyttist með nýju útlendingalögunum

Í streymi á Instagram á mánudagskvöld útskýrði Sema Erla Herdar, forseti hjálparsamtakanna Solaris, hvaða breytingar á Útlendingalögum það eru sem valda þeirri mannúðarkrísu sem birst hefur síðustu daga, að tugir umsækjenda um vernd hér á landi eru ekki aðeins gerð heimilislaus heldur um leið réttlaus, fyrirmunað að afla sér viðurværis hér innanlands og í mörgum tilfellum ómögulegt að fara frá landinu líka.

Klippt á kortin og þú ert borin út á götu

„Þegar þú ert í kerfinu, þá ertu í úrræði á vegum Útlendingastofnunar. Þú færð 8000 krónur á viku til þess að kaupa mat, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, svo er það bara mismunandi eins og það er. Og erfiðlega gengur að fá slíka þjónustu. En eftir að þessum lögum var breytt þá ber þér að fara út úr úrræði Útlendingastofnunar 30 dögum eftir synjun á umsókn. Þú ert sviptur allri þjónustu á Íslandi. Það er klippt á kortin og þú ert bókstaflega borin út á götu af lögreglu. Og það er það sem er búið að vera að gerast núna, síðustu daga og vikur.

38 þingmenn sem vissu að þetta myndi gerast, gerðu þetta að lögum.

Það var búið að vara við því að þetta myndi auka heimilisleysi á Íslandi, þetta myndi hreinlega dæma flóttafólk til sárafátækar, fólk á flótta er ekki með neitt bakland á Íslandi. Það er ekki í stöðu til þess að mótmæla lögum eins og þessum eða að berjast án stuðnings fyrir réttindum sínum.

Það var búið að vara við því að þetta myndi gerast. Og það er nákvæmlega þetta sem nú er að gerast. Fólk er heimilislaust. Það á ekki fyrir mat. Og það sefur undir berum himni. Og það sem að þetta þýðir er náttúrlega að fólk er berskjaldað, mjög berskjaldað, gagnvart hverskyns misnotkun, ofbeldi, mansali, jafnvel, og öðrum hörmungum, fyrir utan það að búa við þessar aðstæður.“

Sum búin að vera hér í fjölda ára

„Ókei, þannig að þessi lög taka gildi í sumar. Og það sem er gert er að það er byrjað að nota þessi lög á fólk sem hefur verið á Íslandi lengi. Þannig að það er verið að vinna lögin afturkræft, ef svo má segja. Það er ekki þannig að lögin taka gildi og þetta gildir um þá sem frá og með þeim degi koma til Íslands og sækja um vernd. Nei. Það er gengið á hóp fólks, sem er hér á Íslandi. Sum eru búin að vera hérna í 3, 4, 5, 6, jafnvel 7 ár, fast á milli kerfa.

Þið sáuð örugglega mörg fréttir af konunum þremur frá Nígeríu, sem eru þolendur mansals. Þær eru til dæmis í þessum hópi. Blessing, sem er ein af þeim, hún er búin að vera á Íslandi núna í meira en fimm ár. Hún fær ekki vernd á Íslandi en það er ekki hægt að brottvísa henni úr landi. Þannig að hún er föst á milli kerfa, hún getur ekki unnið fyrir sér, hún getur einhvern veginn ekki bara haldið áfram með sitt líf. Það er ekki hægt að senda hana úr landi. Þannig að hún hefur í rauninni allan þennan tíma neyðst til þess að vera í úrræðum á vegum Útlendingastofnunar.

Og síðan er bara bankað upp á þegar þessi lög taka gildi og ráðist á þennan hóp.“

Að geta ekki verið og geta ekki farið

„Og Blessing, án þess að ætla að tala eitthvað sérstaklega mikið um einstök mál – ég er náttúrlega bara að tala um mál sem hafa verið í umræðunni – en það er ekki hægt að senda hana úr landi. Hún er ekki með dvalarleyfi neins staðar annars staðar. Hún getur ekki farið til Nígeríu, fyrir utan það náttúrlega að fólk fer á flótta af ástæðu og fer sjaldan til baka til heimalandsins, að þá eðlilega getur hún ekki orðið sér úti um skilríki. Það er erfitt að eiga í samskiptum við land sem þú flýrð frá. Þannig að þó að það væri reynt, þá myndi það ekki ganga. Hún er hér, hún getur ekki neitt farið og hún er gerð heimilislaus. Það á líka við um Mary og Esther sem voru með henni. Þær eru í sömu stöðu. Þetta eru þrjár konur sem eru þolendur mansals, hafa sótt um vernd á Íslandi og verið hér árum saman án þess að fá úrlausn sinna mála.

Og það sem gerist síðan á föstudaginn er að við fáum fregnir af því að það sé verið að bera þær út úr úrræðinu í Hafnarfirði, sem nú er semsagt á vegum Ríkislögreglustjóra. Að bera einhvern út þýðir að þú ert leiddur út úr húsnæðinu með töskuna þína og pokana þína eða hvað það er sem þú ert með með þér og þú ert skilin eftir á gangstéttinni. Þannig að þær fengu bara fylgd út og voru skildar eftir þar.“

Sturlunarástand sem stjórnvöld bjuggu til

„Þetta eru í heildina – það er misjafnt hvað tölurnar eru að segja, en þetta eru nokkrir tugir einstaklinga. Og við erum ekki einu sinni búin að ná til helmings af þeim. Og allt eru þetta auðvitað einstaklingar sem þurfa að komast í skjól, þau þurfa að borða. Við erum bara að gera það sem við getum. Við erum að bregðast við einhvers konar sturlunarástandi. Sem stjórnvöld eru búin að búa til.

Og það angrar mig mjög mikið að fólk talar mjög mikið um þegar og ef og kannski. Það er ekkert ef flóttafólk verður heimilislaust eða þegar eitthvað breytist. Þetta er staðan núna. Það er fólk sem er búið að vera dögum og jafnvel vikum saman á götunni. Og ég ítreka: fólk með ekki neitt tengslanet. Það hefur ekki á neinn stað að sækja. Það er til dæmis, þú þarft kennitölu til þess að fara í neyðarskýlin, þannig að það er ekki hægt að fara þangað, í gistiskýlin, af því að við erum að tala um einstaklinga sem eru ekki með kennitölu. Og yfirvöld benda bara á hvern annan. Sveitarfélög hafa hreinlega sagt að þau ætli ekki að bregðast við þessum aðstæðum. Þau ætli ekki að aðstoða þetta fólk. Á sama tíma og félagsmálaráðherra bendir á sveitarfélögin.

Þannig að við erum bara í þeirri stöðu að það er enginn í kerfinu að gera neitt til þess að breyta þessu. Það er ekkert um að vera sem leiðir af sér einhvers konar viðbrögð fyrir fólkið. Þannig að það sem við erum að horfa á er allavega að næstu daga mun fólk halda áfram – ef eitthvað verður gert, örugglega ekki. En það eru yfirvofandi fleiri, að það verði fleiri bornir út. Og þarna í Hafnarfirði eru ennþá einhverjir tugir. Það eru, mér skilst, allavega tvær eða þrjár konur þarna í viðbót. Og einhverjir menn. Og það er náttúrlega það sorglega í þessu, að það vissu allir í hvað stefndi. Það var vitað að þetta myndi gerast ef þessi lög yrðu samþykkt.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí