Sigmundur Davíð flytur út kynjatvíhyggju til Bretlands

Á laugardag birti breska vikuritið The Spectator grein eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson undir titlinum „How trans ideology took over Iceland“ eða Hvernig trans hugmyndafræði yfirtók Ísland. Í stuttu máli segir forsætisráðherrann fyrrverandi þar ekki farir sínar sléttar af síðustu misserum í íslensku samfélagi.

Greinin hefst á frásögn Sigmundar Davíðs af því þegar Samtökin 22 leituðu á náðir Miðflokksins eftir að aðrir höfðu neitað þeim um vettvang fyrir fyrirhugaða ráðstefnu. Sigmundi Davíð brá þegar Miðflokkurinn reyndist verða fyrir gagnrýni fyrir að hýsa ráðstefnu Samtakanna. Að eigin sögn var hann „flabbergasted“ – forviða.

Samtökin 22

Samtökin 22 virðast hafa verið stofnuð til höfuðs Samtökunum 78, þungamiðju réttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi í hartnær hálfa öld. Á vefsíðu Samtakanna 22 virðist aðeins að finna eitt baráttumál sem aðgreinir þau frá hinum rótgrónu baráttusamtökum, sem er afstaða Samtakanna 22 til málefna trans fólks. Í því samhengi leggja þau fram einarða kynjatvíhyggju: „Kyn er er tvískipt; kvenkyns og karlkyns og er ákvarðað við getnað, sést við fæðingu (eða í móðurkviði) og er skráð.

Fjölmenn eru nýju samtökin ekki. 300 samkynhneigðir undirrituðu yfirlýsingu sem birtist í apríl sl. og fordæmdu „að vísað sé til Samtakanna 22 sem hagsmunasamtaka samkynhneigðra, hvorki þau né talsmaður þeirra tala í okkar nafni“ enda hafi samtökin „fátt annað á afrekaskrá sinni en fordómafulla umsögn um frumvarp til lögbanns á bælingarmeðferðum og formlega kvörtun til forsætisnefndar Alþingis undan samkynhneigðum varaþingmanni.“ Samtökin 22, sagði í yfirlýsingunni, „virðast í raun fyrst og fremst stefna að upplausn hinsegin samfélagsins eins og við þekkjum það í dag. Okkur þykir því ljóst að starf Samtakanna 22 snúist ekki um réttindabaráttu eða hagsmunagæslu samkynhneigðra heldur baráttu gegn réttindum og hagsmunum annarra hópa.“

Í grein sinni í The Spectator lýsir Sigmundur Davíð Samtökunum 22 sem svo að þau „efist um að líffræðilegir karlmenn keppi í íþróttum kvenna, séu á móti beinni kynfræðslu fyrir ung börn og vilji ekki kerfi þar sem foreldrar og læknar mega ekki efast um hvort barn ætti að skipta um kyn.“

Grein Sigmundar Davíðs á vef The Spectator.

Sigmundur rekur sögu baráttu sinnar

Málþing Samtakanna 22 fór að lokum fram fyrir tómum sal Miðflokksins. Sigmundur segir að átökin um málþing Samtakanna 22 hafi þó ekki verið fyrsta reynsla hans af því að vera hissa á þessum málum. Íslensk stjórnvöld hafi áður lagt fram fumvarp um kynrænt sjálfræði sem þau hafi viljað koma í gegnum þingið án nokkurra deilna um áhrif þess á „íþróttir kvenna, einkarými eða fangelsi“. Efasemdum Miðflokksmanna um frumvarpið hafi aðeins verið svarað með dónaskap.

Það segir Sigmundur að hafi þó aðeins verið byrjunin. Síðan þá hafi stjórnvöld kynnt til sögunnar lög sem torveldi „hefðbundnar skurðaðgerðir á börnum með fæðingargalla – hafi gallarnir eitthvað að gera með æxlunarfæri“. Hér virðist þurfa að skilja þingmanninn sem svo að hann eigi við það ákvæði laganna sem segir að „varanlegar breytingar á kyneinkennum barns yngra en 16 ára sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni skulu einungis gerðar í samræmi við vilja barnsins“. Sigmundur fullyrðir í greininni að íslenskir foreldrar hafi tekið að ferðast með börn sín til annarra landa til að láta framkvæma slíkar aðgerðir.

Sigmundur segir að flokkur hans hafi verið sá eini sem gagnrýndi þessi ákvæði laganna á þingi, þar sem hæðst hafi verið að þingmönnum hans fyrir vikið. Hann fullyrðir einnig að fjöldi heilbrigðisstarfsfólks hafi haft samband við þingmenn flokksins persónulega til að þakka þeim fyrir gagnrýnina en ekki þorað að viðra skoðanir sínar opinberlega af ótta við að missa störf sín eða framtíðarhorfur.

Segir stjórnvöld eyða orðunum „kona“ og „móðir“

Loks segir fyrrverandi forsætisráðherra að ríkisstjórnin hafi nú tekið að eyða orðunum „kona“ og „móðir“ úr lagafrumvörpum og notist í þeirra stað við „leghafa“ og „fæðandi foreldri“.

„Hvernig komst ég í þessa stöðu?“ spyr hann loks, „að þurfa að verja tíma mínum í að afsaka staðfestu mína í þágu málfrelsis og að benda á það sem nú má líklega kalla „almennu kenninguna um raunveruleikann“? … Ég er bara gaur sem hóf störf á mínu sviði til að vera stjórnmálamaður miðjunnar og heilbrigðrar skynsemi …“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí