Sveitarfélögin koma úthýstum ekki til bjargar en funda með ráðherrum í fyrramálið

Sveitarfélögum landsins er hvorki heimilt né skylt að leggja því aðkomufólki lið sem í sumar hefur verið úthýst úr úrræðum yfirvalda án alls stuðnings og án atvinnuréttinda. Þetta er niðurstaða lögfræðiálits sem unnið var fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga og birtist sem minnisblað á vegum þess í dag. Í lok minnisblaðsins segist sambandið telja brýnt að leysa úr óvissu fólksins sem um ræðir og lýsir sig reiðubúið til fundahalda með þeim ráðuneytum sem að málinu koma.

Fulltrúar sveitarfélaganna munu funda með ráðherrum dómsmála og félagsmála á föstudagsmorgun, um mannúðarkrísuna sem upp er komin. Þetta kom fram í samtali blaðamanns við Heiðu Björg Hilmisdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Formaðurinn segir að niðurstaða lögfræðiálitsins hafi ekki komið sveitarfélögunum á óvart: „Nei, hún gerði það í rauninni ekki. Hún er alveg í takt við það sem við bentum á þegar verið var að setja lögin, að þetta væri mjög óljóst, og þarna væri verið að setja fólk í óviðunandi aðstæður. Aukin hætta á heimilisleysi og mansali og annað sem við nefndum í umsögninni okkar.“

Enn ekkert samtal hafið en Heiða segist vongóð

Kom til einhvers samtals af hálfu stjórnvalda við sveitarfélögin áður en þessar afleiðingar laganna komu fram í sumar?

„Nei.“

Einhver tilraun til samráðs?

„Nei.“

Alls engin?

„Nei. Ekki neitt, ekki við okkur. Ég hef ekki vitað til þess hjá þeim sveitarfélögum sem ég hef heyrt í og ekki sambandið.“

Nú fundið þið með ráðherrum í fyrramálið, samtalið er þá þegar hafið?

„Ja, í rauninni ekki. Í rauninni erum við bara búin að senda skýr skilaboð til þeirra um að boltinn er hjá þeim. Þau verða að taka ábyrgð á því fólki sem þarna er verið að vísa út á götu. Það er ekki neitt sem okkur finnst ásættanlegt að þeim vanda sé svo bara ýtt til okkar. Við erum þarna með fólk sem ekki má vinna, hefur ekki rétt til heilbrigðisþjónustu, er ekki með kennitölu. Þetta er eitthvað sem þau þurfa að leiða til lykta. Það er ekki hægt að hafa fólk í tugatali á Íslandi án allrar þjónustu. Það finnst okkur óásættanlegt. Það er engin þjónusta sem sveitarfélögin eru með sem henta þessum hópi. “

Ertu vongóð um að ráðherrum finnist liggja á að leysa málið?

„Já, ég ætla bara að leyfa mér að vera það. Ég held að enginn vilji vera með þessa stöðu. Og ég vona að þau séu að leita leiða og lausna í dag. Og vonandi koma þau með eitthvað á fundinn á morgun sem við getum rætt. Ef við getum rætt erum við auðvitað tilbúin til þess. Það liggur á að finna lausn fyrir þessa einstaklinga sem eru í þessari erfiðu stöðu. Það er aðalmálið.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí