Mörg þúsund manns tóku á þriðjudag þátt í mótmælagöngu í höfuðborg Haítí, Port-au-Prince, til að krefjast verndar fyrir glæpagengjum sem fara ránshendi um hverfi borgarinnar og víðar. Africa News greindi frá mótmælunum.
„Við viljum öryggi!“ hrópaði mannfjöldinn sem gekk í tvo tíma, frá miðborginni að aðsetri forsætisráðuneytisins, þar sem lögregla leysti mótmælin upp með táragasi.
Mótmælendur brugðust við þeirri aðför með því að kveikja í dekkjum ásamt einu farartæki í eigu ríkisins.
Glæpagengi tekið völd frá aftöku forseta
Frá árinu 2021, þegar Jovenel Moise forseti var ráðinn af dögum, segja sérfræðingar að glæpagengi hafi náð völdum í allt að 80 prósent höfuðborgarinnar, þá einkum í hverfum og samfélögum sem þegar eiga við langvarandi fátækt að stríða.
Frá janúar til mars á þessu ári hefur verið tilkynnt um 1.600 manndráp, líkamsárásir og mannrán, sem er þriðjungsaukning frá síðustu þremur mánuðum ársins 2022, samkvæmt skýrslu SÞ.
Forsætisráðherra Haítí og aðrir ráðamenn hafa farið fram á aðstoð alþjóðlegs liðsafla til að kveða ofbeldið í kútinn. Kenýa bauð fram fjölþjóðlegt lögreglulið undir lok júlí, en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur enn ekki greitt atkvæði um heimild til beitingar fjölþjóðlegs liðsafla í landinu.