Það kostar lítið að veita fólki vernd, mikið að loka það úti

Í þingumræðum um fjárlög leiðrétti Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir á dögunum misskilning sem hún sagðist hafa rekið sig á, um í hverju kostnaðurinn við hæliskerfið felst. Arndís byrjaði á að þakka Jóhanni Friðriki Friðrikssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, kærlega fyrir að spyrja sig að því og útskýrði síðan að kostnaðurinn við kerfið „fer ekki í að hjálpa fólki. Þessi kostnaður fer í málsmeðferð hjá Útlendingastofnun. Það eru lögfræðingar og aðrir sem sinna meðferð umsókna. Það eru tekin viðtöl og annað slíkt.“

Stærsti liðurinn sagðist Arndís þó ekki telja að væri lögfræðikostnaðurinn sem slíkur, heldur uppihald á meðan fólki er meinaður aðgangur að vinnumarkaði:

„Stærsti liðurinn held ég að sé uppihald einstaklinga, umsækjenda um alþjóðlega vernd. En hvers vegna þarf að halda þeim uppi? Það er ekki vegna þess að þeir bara geti ekki unnið og eigi svo bágt og séu komnir hérna til þess að leggjast á velferðarkerfið. Nei, það er vegna þess að þeir mega ekki vinna. Meðan einstaklingur er að bíða eftir svari við umsókn sinni þá má hann að jafnaði ekki vinna. Þá þarf að sjálfsögðu að halda fólki lifandi og sem betur fer erum við enn þá öll sammála um það þó að, eins og ég nefndi hérna áðan, það sé alltaf verið að færa hjá manni mörkin.“

Kostnaðurinn við að loka fólk úti

Þá sagði Arndís að málsmeðferðartími hælisumsókna sé alltof langur, sem auki ekki aðeins á kvöl þeirra sem bíða heldur um leið á kostnað við úrvinnsluna:

„Hvar er stysti málsmeðferðartíminn í þessum málum? Hann er langstystur í þeim málum þar sem þykir augljóst hver niðurstaða umsóknarinnar á að vera. Þetta átti við um tíma hjá einstaklingum frá Sýrlandi, einstaklingum frá Úkraínu, einstaklingum frá Venesúela og svo sannarlega ákveðnum löndum þar sem það er svona, hvað eigum við að segja, neikvæð flýtimeðferð, sem átti við einstaklinga t.d. frá Balkanríkjunum. Ef einstaklingur sækir um sem er danskur ríkisborgari þá fer hann í flýtimeðferð og það tekur mjög stuttan tíma. Málin taka lengri tíma ef við ætlum að segja nei, það tekur lengstan tíma að segja nei. Það tekur marga, marga mánuði og svo er það kært og það fer til kærunefndar útlendingamála og allan þennan tíma þarf að halda fólki uppi. Það er ekki vegna þess að fólk vilji það. Þessir einstaklingar vilja það ekki.“ Svo mælti Arndís í umræðum um fjárlög á alþingi þann 15. september síðastliðinn.

Eins og fram kom í umfjöllun Samstöðvarinnar fyrr í dag hefur því flóttafólki sem leitar verndar á Íslandi ekki fjölgað að neinu marki á undanliðnum árum, nema frá þeim tveimur löndum sem íslensk stjórnvöld hafa átt frumkvæði að því að bjóða hingað og fá forgangsvernd. Sá kostnaður við kerfið sem framámenn í Sjálfstæðisflokknum látast nú berjast gegn felst þannig fyrst og fremst í að leita leiða til að segja nei við hin fáu sem stjórnvöld leggja allt kapp á að vísa úr landi, og útiloka þau frá samfélagsþátttöku á meðan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí