Aðgerðasinnar svara lögreglu: „Þetta er skip, ekki heimili“

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, tók þátt í aðgerðum við Reykjavíkurhöfn frá mánudegi til þriðjudags, þar sem tvær konur mótmæltu hvalveiðum með því að taka sér stöðu í möstrum tveggja skipa Hvals hf. Mörgum ofbauð það hátterni lögreglu að taka bakpoka af annarri kvennanna, með vistum og vatnsbirgðum. Ásgeir hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að það hafi verið til að „stytta mótmælin, auka líkurnar á að þeim lyki fyrr en illa.“ Þá líkti hann stöðunni við það „ef þú kæmir að einhverjum í stofunni þinni með bakpoka og nesti“, og sagði að þá „myndir þú ekki telja það mannréttindi þess einstaklings að fá að vera með töskuna og nesti.“

Í ljósi þess að lögregla neitaði eftir þetta, í 30 klukkustundir alls, bæði almenningi og heilbrigðisstarfsfólki að veita konunum aðgang að nauðsynjum á við vatn og mat, hefur Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, velt upp þeirri spurningu hvort þar hafi verið framið mannréttindabrot.

Ólöf Tara Harðardóttir, aðgerðasinni, lagði orð í belg á miðvikudag og benti á að um væri að ræða skip, ekki heimili. Á Facebook sagði hún: „Lögreglan þarf að vísa í lög þegar svona ákvarðanir eru teknar, ekki taka geðþótta ákvarðanir.“

Fram hefur komið að mótmælandinn sem lögregla svipti eigum sínum í aðgerðinni heitir Anahita Sahar Babaei. Ólöf Tara sagði ennfremur: „Það sem mér þykir þó mest óhugnandi hlutinn af aðgerðum lögreglu er að heilbrigðiskerfið svarar skipunum lögreglunnar og hún getur neitað fólki um heilbrigðisþjónustu eins og þau gerðu ítrekað gegn Anahitu.“

Svona fordæmi veita svigrúm fyrir valdníðslu

Færsla Ólafar Töru er svohljóðandi í heild:

„Þetta er skip, ekki heimili.

Lögreglan þarf að vísa í lög þegar svona ákvarðanir eru teknar, ekki taka geðþótta ákvarðanir.

Mörgum þykir hún eiga þetta skilið, en átta sig ekki á því að svona fordæmi veita meira svigrúm fyrir valdaníðslu og kerfisbundið ofbeldi.

Það sem mér þykir þó mest óhugnandi hlutinn af aðgerðum lögreglu er að heilbrigðiskerfið svarar skipunum lögreglunnar og hún getur neitað fólki um heilbrigðisþjónustu eins og þau gerðu ítrekað gegn Anahitu.

Anahita og Elissa brenna fyrir þeim málstað að vernda líf og tilverurétt hvala, brenna svo sterk fyrir þeirri baráttu að þær voru þarna uppi í 31 klukkustund.

Borgararleg óhlýðni er mikilvæg þegar kerfið bregst og við eigum mörg dæmi um slíkt sem hefur oft eftirá sannað að var mikilvægt að einhver fórnaði sér fyrir málstaðinn.

Ef þið eruð þau sem réttlæta aðgerðir lögreglu og finnst þær eiga það skilið þá langar mig að biðja ykkur að skoða hvað veldur þeirri heift sem býr innra með ykkur. Að ykkur finnist ókunnug kona sem í krafti réttlætiskenndar tekur upp hanskan fyrir hvali eigi það skilið að vera í lífshættu vegna aðgerða lögreglu.

Meirihluti samfélagsins hefur meiri samkennd með nauðgurum og barnaníðingum en konu sem friðsamlega mótmælti og var alltaf kurteis við lögregluna í samskiptum sínum.

Mig langar líka að minna allar konur á að við stöndum á herðum sterkra kvenna sem voru stundum óþekkar og brutu lög og þessvegna höfum við réttindi í dag.

Rétt eins og Anahita og Elissa gerðu fyrir hvalina í einn og hálfan sólarhring.

Áfram hugrakkar konur✊🏼“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí