Nú um miðjan þriðjudag hafði mótmælaaðgerð staðið við Reykjavíkurhöfn á annan sólarhring, þar sem tvær manneskjur hlekkjuðu sig við möstur hvalveiðiskipa Hvals hf. til að hindra að hvalveiðar hefjist á ný.
Fram hefur komið í umfjöllun annarra fjölmiðla að lögregluþjónar hafi fjarlægt bakpoka annarrar konunnar, með nesti hennar og vatnsbirgðum. Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, segist velta því fyrir sér hvort þar sé brotið á mannréttindum mótmælenda og segir lögregluna á gráu svæði, lagalega. Að sögn samtakanna Captain Paul Watson Foundation hefur mótmælandinn sem á í hlut nú, eftir hádegi á þriðjudag, verið án vatns í yfir 30 klukkustundir. Uppfært: Sú steig niður úr mastrinu stuttu eftir birtingu þessarar fréttar.
Komið hefur fram að lögregla hafi neitað fólki um að færa mótmælendunum birgðir upp í möstrin. Þá hefur spurst að þann sólarhring nú er liðinn hafi fólk sem viðstatt er við höfnina ítrekað hringt á 112 til að óska eftir aðstoð sjúkraliða eða sjúkrabíl, til að hlú að konunum, en verið tjáð að lögregla neiti heilbrigðisstarfsfólki að sinna þeim erindum. Fulltrúi lögreglunnar hefur borið því við að stofnunin meðhöndli aðstæðurnar sem húsbrot.
Blaðamaður freistaði þess að ná tali af fulltrúum löggæslunnar og tengdra stofnana til að afla upplýsinga um hvaða lagaheimildir lögreglan styðst við þegar hún neitar fólki um heilbrigðisaðstoð og aðhlynningu í aðstæðum sem þessum, og hvernig boðvaldi lögreglu yfir heilbrigðisstarfsfólki er háttað í slíkum aðstæðum.
„Þeim er velkomið að koma niður“
Framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, Jón Svanberg, var fyrstur til svars. Hann sagðist upptekinn þegar til hans náðist í síma en svaraði skriflegri fyrirspurn um málið með því að vísa til lögreglu: „Á vettvangi sem er lokaður að ákvörðun lögreglunnar þá er það hennar að fara þar með stjórn. Ég verð því að vísa fyrirspurn þinni þangað.“
Blaðamaður hafði þá samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og varð Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi, fyrir svörum. „Eftir því sem mér skilst,“ sagði hann, „og eins og fram kom í viðtali við Kristin Helga Þráinsson sem er á staðnum og svarar fyrir þetta, þá snerist þetta um að það væri hættulegt að fara þarna upp.“
– Já en lögreglumenn hafa farið þarna upp nú þegar?
„Já en það er ekki verið að senda hvern sem er þarna upp að óþörfu.“
– En vitað er að lögreglan tók af einni þeirra vatn og nesti, mótmælendur segja að það væri ekki óþarft að fá aðstoð þarna upp þar sem hún gæti orðið veikburða eftir því sem tíminn líður.
„Já, þeim er velkomið að koma niður og fá vatn og fá að borða. Það er alveg guðvelkomið.“
„Ég ætla ekki að diskútera þetta við þig“
– Einmitt en þau eru í mótmælaaðgerð. Ég er að velta fyrir mér við hvaða lög er stuðst – ég veit að það er vísað til húsbrots en á móti kemur stjórnarskrárvarinn réttur til tjáningar og samkoma. Er þetta ábyggilegt, eru valdheimildir lögreglu ábyggilegar þarna, að neita þeim um heilbrigðisaðstoð?
„Ég ætla ekki að fara að diskútera þetta við þig.“
– Hvað segirðu?
„Ég ætla ekki að fara að diskútera þetta við þig í þessu símtali.“
– Nei, einmitt. Veistu við hvern ég ætti að ræða þetta?
Upplýsingafulltrúinn benti þá á Kristján Helga Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjón, sem er á vettvangi, og Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóra.
Í þriðja símtali blaðamanns vegna málsins var þess því freistað að ná tali af Ásgeiri, sem reyndist upptekinn. Fljótt á litið virtist ekki tilefni til að ætla að sá lögregluþjónn sem stýrir aðgerðum á vettvangi yrði í sömu mund fúsari en aðrir til að ræða lagalegar forsendur aðgerðanna og náði þessi eftirgrennslan því ekki lengra að sinni.