Samherji hf., sem er innanlandshluti þessa auðhrings, hagnaðist um 14,3 milljarða króna í fyrra. Þetta er aðeins minna en ári fyrr, þegar hagnaðurinn var 17,3 milljarðar króna.
Um 800 manns vinna hjá Samherja, sé miðað við ársverk. Hagnaður fyrirtækisins er því tæplega 18 m.kr. á hvert ársverk, nánast 1,5 m.kr. á mánuði. Fyrirtækið tekur því til sín meiri arð af vinnu fólksins en það fær sjálft í laun.
„Góður árangur í rekstri byggist fyrst og fremst á þekkingu og metnaði starfsfólks og ég vil nota tækifærið og þakka öllu starfsfólki fyrir samstarfið á árinu,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja í tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Ég hlakka til að starfa með föður mínum og öllu því frábæra starfsfólki sem er hjá Samherja hf. að áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins,“ segir Baldvin Þorsteinsson, nýkjörinn formaður stjórnar og sonur Þorsteins Más, í sömu tilkynningu.
Skiljanlega eru þeir feðgar glaðir yfir að eigendur fyrirtækisins fái mest af arðinum af vinnu starfsfólksins. Og svo auðvitað arðinn af auðlindum þjóðarinnar.
Myndin er af Baldvini Þorsteinssyni.