Sáralítil aukning flóttafólks til Íslands, utan fólks frá Úkraínu og Venesúela

Það er ekki að merkja neina fjölgun flóttafólks til Íslands að ráði ef undan eru skyldir þeir hópar sem stjórnvöld hafa sérstaklega boðið til landsins, flóttafólk frá Úkraínu og Venesúela. Fjölgun flóttafólks er því stjórnvaldsaðgerð, tengist sáralítið aukningu flóttafólks í heiminum. Tölur benda alls ekki til að aukinn fjöldi flóttafólks í heiminum leiti hingað til lands.

Það sem af er árinu hafa 3.124 manns komið til Íslands og óskað eftir hæli. Af þeim eru 1.158 frá Úkraínu, sem stjórnvöld hafa sérstaklega boðið til landsins. Frá Venesúela hafa 1.254 komið, en fyrir nokkrum árum bauð ríkisstjórnin fólki þaðan að koma hingað og fá forgangsvernd, fjögurra ára dvalarleyfi sem afgreitt var nánast sjálfkrafa. Þetta var liður í stuðningi ríkisstjórnarinnar við aðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn ríkisstjórn Nicolás Maduro. Þegar ljóst var að valdaskipti yrðu ekki í Venesúela breyttu íslensk stjórnvöld um stefnu gagnvart flóttafólki þaðan. En úrskurðarnefnd útlendingamála sagði það stangast á við jafnræðisreglu, sagði stjórnvöldum óheimilt að breyta um stefnu gagnvart afgreiðslu mála einstaklinga ef fyrir því lægju engar málefnalegar ástæður. Og stjórnvöldum hefur mistekist að sanna að nokkuð hafi breyst í Venesúela. Enda hefur ekkert breyst þar. Það eina sem breyttist var áhugi ríkisstjórnarinnar á málum þar. Ríkisstjórn Katrínar taldi sig vera að stuðla að valdaskiptum í Venesúela en sá svo að það var tóm óskhyggja. Flóttafólk þaðan var því notað sem leiksoppar í pólitíska leik. Úr mati Úrskurðarnefndarinnar má lesa að slíkt sé hvorki boðlegt né löglegt.

Af því flóttafólki sem eftir er, þegar fólk frá Úkraínu og Venesúela hefur verið dregið frá, eru um 65 frá nágrannalöndum Venesúela, margt í reynd flóttafólk þaðan. Eftir standa þá 647 manns sem hafa komið á átta og hálfum mánuði. Til samanburðar komu 675 flóttamenn frá öðrum löndum en Úkraínu og Venesúela hingað árið 2019, fyrir cóvid og áður en áhrifin af boði stjórnvalda til fólks frá Venesúela og Úkraínu komu fram.

Þetta er vissulega aukning. Ef hlutfallslega jafn margir koma það sem eftir lifir árs og hingað til má ætla að 913 komi sem ekki má tengja ákvörðunum stjórnvalda, eða 266 fleiri en 2019. Ef fjöldinn frá Úkraínu og Venesúela og nágrannalöndum verður hlutfallslega jafn mikill það sem eftir lifir árs, má reikna með um 3.495 manns frá þessum löndum, 3.305 fleiri en 2019. Fólk utan Úkraínu og Venesúela er því um 7% af fjölgun flóttafólks frá 2019. Það segir sig sjálft að aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem beinist að þessu fólki með lítil áhrif á kostnað eða umfang málefna hælisleitenda.

Af þeim 629 sem hingað hafa komið frá öðrum löndum en Úkraínu og Venesúela eru 588 frá löndum sem eru skilgreind óörugg af Útlendingastofnun. Þetta er flóttafólk sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að sinna, ekki endilega með því að veita hæli en til þess að taka við umsókn og afgreiða hana málefnalega. Eftir standa 41 einstaklingur sem kemur frá upprunalöndum sem skilgreind eru örugg af Útlendingastofnun.

Það sést af þessu hversu ranga mynd stjórnvöld, ráðherrar og þingmenn, gefa af ástandi hælisleitenda. Að ekki sé talað um leiðara Morgunblaðsins, sem hitar reglulega undir pottum útlendingaandúðar. Í dag fjallar leiðarinn um að nauðsyn þess að verja landamærin, eins og við stöndum frammi fyrir einhvers konar innrás. Það er ekkert hæft í því. Allar þær ályktanir sem eru dregnar af rangri greiningu verða auðvitað rangar, heimskar og villandi. Í þessu máli, sem æði mörgum öðrum, er uppspretta upplýsingaóreiðu frá stjórnvöldum og meginstraumsfjölmiðlum. Ef slík óreiða finnst á samfélagsmiðlum er uppspretta hennar oftar en ekki frá stjórnvöldum og ríkisstyrktum fjölmiðlum á borð við Morgunblaðið.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí