Síldarvinnslan og Samherji þarfnast ekki fórna lítils samfélags

Austurfrétt birti í dag, miðvikudag, opið bréf frá Þóru Bergný Guðmundsdóttur til Gunnþórs Ingvasonar, forstjóra Síldarvinnslunnar – og frænda hennar, en fyrirtækið tilkynnti í gær, þriðjudag, um fyrirhugaða lokun fiskvinnslu á Seyðisfirði, sem Síldarvinnslan keypti á síðasta ári. „Kæri Gunnþór frændi minn,“ hefst bréfið, áður en Þóra sakar forstjórann um að hafa haft þessa lokun í bígerð um langa hríð.

Allir að mála myndir af óbilgjörnum mekanisma kapítalismans?

„Mig grunaði strax,“ skrifar Þóra „þegar þú skrifaðir hugljúfa grein fyrir nokkrum árum, um framtíð Seyðisfjarðar sem menningar, lista og ferðamannabæjar, að þú sæir nokkra leiki fram í tímann. Nú ætti að hagræða fyrir peningaöflin, leggja af „óarðbæra“ fiskvinnslu og láta okkur um að bjarga okkur án sjávarútvegsins, sem í ómunatíð hefur verið undirstaða lifibrauðs bæjarbúa.“

Þóra segir bæjarbúa sannarlega hafa staðið sig þokkalega á þeirri vegferð, „en það breytir ekki því að við viljum byggja bæinn okkar á fjölbreyttri aðkomu okkar að hafinu og auðlindum þess.“

„Það hryggir mig,“ skrifar Þóra, „að þú skulir beita þér í þágu peninga aflanna, sem neita að horfa á landið og miðinn sem samfélag og sameiginlega eign, og að atvinnulíf í í litlum bæ þarf að hvíla á mörgum stoðum. Sérðu fyrir þér að fólkið, sem hefur puðað alla sína æfi í fiskvinnslunni, verði ánægt með, að nú verði nóg að gera við að skipta á rúmum ferðamanna og bera í þá veitingar? Eða kannski að að allir bara kaupi sér trönur og fari að mála myndir af óbilgjörnum mekanisma kapítalismans.“

Grunur um tengsl við fiskeldisáform

Hún segir þau frændsystkinin hafa alist upp í sömu götu og þau hafi bæði „skuld að gjalda því bæjarfélagi sem gerði okkur að því sem við erum.“ Þó bætir hún því við að hún áfellist hann ekki, „veit fullvel að sterkari öfl en þú ráða för. En ég skora á þig að horfa heim og líta til þess fólks sem nú situr eftir og finnst að allt sem það hefur lagt að mörkum, sé einskis metið.“

Að síðustu nefnir hún sama orðróm um áformin að baki lokuninni og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður starfsgreinafélagsins Afls, nefndi í viðtali við Samstöðina, það er vilji Síldarvinnslunnar eða tengdra aðila standi til þess að veikja andstöðu meðal íbúa Seyðisfjarðar við fiskeldi í firðinum: „Ef næsti leikur í taflinu lítur að því, að það eina sem geti bjargað samfélaginu úr kröggunum, sé að skapa örfá störf við fiskeldi, bendi ég þér á að við, vinir þínir á Seyðisfirði, viljum ekki fórna náttúrfari fjarðarins okkar, fyrir fljótfenginn gróða auðmanna. Síldarvinnslan og Samherji eru ekki á neinni vonarvöl og þarfnast ekki neinna fórna lítils samfélags.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí