Skýra þarf gildissvið og orðalag í innlendri löggjöf, þar með talið laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, svo tryggja megi sambærilega réttarvernd einyrkja og launafólks á Íslandi, segir í tilkynningu sem Bandalag háskólamanna (BHM) lét frá sér á mánudag.
Í tilkynningunni er vísað til nýlegs úrskurðar Evrópudómstólsins í máli manns í Póllandi sem missti áralangt viðskiptasamband við verkkaupa eftir að hann birti myndband af sér og sambýlismanni sínum í nafni umburðarlyndis gagnvart samkynhneigðum.
Bann við mismunun nær einnig til sjálfstætt starfandi
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að reglur um bann við mismunun fólks á vinnumarkaði á grundvelli kyns, þjóðernis, kynhneigðar eða annarra þátta gildi ekki aðeins um launafólk heldur einnig um réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga. Þannig hafi verið brotið á manninum með riftingu samnings um þjónustu sem hann hafði veitt sama fyrirtæki um árabil.
Segir í tilkynningu BHM: „Samkvæmt dóminum ætti ákvörðun um gerð eða endurnýjun samnings við sjálfstætt starfandi einstakling að njóta verndar samkvæmt evrópureglum um bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar. Ákvæði landsréttar um frelsi til samningsgerðar gangi ekki framar slíkum reglum.
Að mati BHM þarf að skýra gildissvið og orðalag í innlendri löggjöf, þ.m.t. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, svo tryggja megi sambærilega réttarvernd einyrkja hér á landi. Í því efni ber jafnframt að horfa til alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist á sviði félagslegra réttinda og 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar.“
Úrskurður Evrópudómstólsins féll 12. janúar á þessu ári.