Sjálfboðaliðar bugast, stjórnvöld þegja, ráðherra félagsmála svarar ekki

Sjálfboðaliðar, aðgerðasinnar og velviljaðir borgarar sem hafa veitt tugum flóttafólks stuðning síðustu vikur bugast nú eitt af öðru og sjóðir hjálparsamtaka þurrkast upp, án þess að stjórnvöld gefi til kynna að nokkurrar breytingar sé að vænta á framkvæmd eða stefnu.

Þetta kemur fram í grein sem Sema Erla Serdaroglu, formaður hjálparsamtakanna Solaris, birti á Facebook á föstudagskvöld. Í svari hennar við athugasemd við greinina kemur að auki fram að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra, hafi enn ekki átt orðastað við fulltrúa samtakanna Solaris, né svari hann erindum hennar.

„Þeim hefur tekist ætlunarverk sitt,“ skrifar Sema í greininni. „Heimilislaust flóttafólk er orðið normið í íslensku samfélagi. Nú er eina spurningin hversu langt er í að kerfisbundinn rasismi, meðvirkni og valdsýki muni drepa fyrsta heimilislausa flóttamanninn.“

Án húsnæðis, framfærslu og heilbrigðisþjónustu

Fjórar vikur eru liðnar frá því að fyrst fréttist af því að stjórnvöld hefðu svipt flóttafólk allri þjónustu og gert því „ókleift að uppfylla grunnþarfir sínar um þak yfir höfuðið, næringu, hreinlæti og öryggi“ eins og Sema Erla orðar það í upphafi greinar sinnar.

Þar fylgja stjórnvöld nýrri setningu í 33. grein Laga um útlendinga, hluta þeirra breytinga á lögunum sem stjórnarflokkarnir knúðu gegnum Alþingi síðasta vor. Umrædd setning krefur stofnanir um að fella niður alla þjónustu við umsækjendur um vernd 30 dögum eftir að umsókn þeirra er synjað, með því að tilgreina að hver sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni njóti þeirra réttinda sem lögin skilgreina „að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin varð endanleg á stjórnsýslustigi. Að þeim tímafresti loknum falla réttindin niður.“

Réttindin sem um ræðir eru meðal annars húsnæði, framfærsla, nauðsynleg heilbrigðisþjónusta og skyldunám í grunnskóla ef börn eiga í hlut. Þá tilgreina lögin sérstaklega að hver sem hefur verið þolandi misnotkunar, vanrækslu, pyndinga eða grimmilegrar, ómannúðlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða þjáðst vegna vopnaðra átaka skuli eiga kost á „viðeigandi heilbrigðisþjónustu og sálgæslu og annarri nauðsynlegri þjónustu samkvæmt barnaverndarlögum.“

Að hrinda þessum nýmælum í framkvæmd og fella niður framangreind réttindi 30 dögum eftir synjun umsóknar þýðir að fólki sem þó er ekki unnt að brottvísa er úthýst úr húsnæðisúrræði á vegum stjórnvalda, án þess að eiga þess kost að framfæra sér með löglegum hætti, enda er sama hópi meinað um atvinnuleyfi. Á þessar fyrirsjáanlegu afleiðingar bentu þingmenn Pírata, öðrum fremur, áður en breytingin var samþykkt. Eftir að afleiðingarnar komu í ljós hafa tugir hjálparsamtaka andmælt framferði stjórnvalda.

Dæma flóttamenn til hungurs svo hægt sé að loka þá í fangabúðum

Þegar fyrst fréttist af úthýsingunum höfðu „nokkrir einstaklingar þegar verið heimilislausir vikum og jafnvel mánuðum saman,“ skrifar Sema Erla. „Á síðustu vikum hafa að minnsta kosti 60 einstaklingar verið skildir eftir, án allra mögulegra bjarga, á götunni. Síðustu daga hefur svo að meðaltali ein manneskja á flótta verið gerð heimilislaus á Íslandi á dag.“

Sema segir enga tilviljun að nú sé gefið í. „Á þessum tímapunkti eru flestir orðnir samdauna fréttum af ungum flóttamönnum sem stjórnvöld hafa dæmt til hungursneyðar og ætla að búa til glæpamenn úr svo hægt sé að loka þá í fangabúðum.“ Hún segir að á þessum tímapunkti kippi sér enginn upp við heimilislaust flóttafólk: „Það er orðinn „venjulegur hlutur af samfélaginu!“ Lang flestir eru svo meðvirkir og gegnsýrðir af kerfisbundnum rasisma að þeim er drullusama um fólkið frá Afríku og Mið-Austurlöndum (héldu þið að þetta væri hvítt fólk?) sem á hverjum degi upplifir þá niðurlægingu að geta ekki séð um sig sjálft og vera upp á annað fólk komið með að lifa að!“

Sjálfaboðaliðar og aðgerðasinnar bugast

„Í fjórar vikur,“ skrifar hún, „hafa nokkrir fulltrúar Solaris og No Borders staðið vaktina dag og nótt og gripið á þriðja tug einstaklinga á flótta sem enginn vill vita af, sem mega hvergi vera, sem geta ekkert farið. Þökk sé góðu fólki í samfélaginu okkar sem hefur stutt við neyðarsjóðinn okkar, boðið fram húsnæði og aðstoðað með öðrum hætti höfum við getað séð til þess að fólk geti að minnsta kosti sofið, borðað og sturtað sig.

Á sama tíma og líflína fólks styttist, sjóðirnir okkar þurrkast upp og við bugumst hvert á fætur öðru; heyrist lítið úr stjórnmálunum, önnur mannréttindasamtök eru upptekin af öðru (að mestu af eigin orðspori og frama), fulltrúar ríkis og sveitarfélaga svara ekki póstum og skilaboðum og ráðherrar svara ekki símtölum.“

„Þeim hefur tekist ætlunarverk sitt,“ skrifar Sema Erla loks. „Heimilislaust flóttafólk er orðið normið í íslensku samfélagi. Nú er eina spurningin hversu langt er í að kerfisbundinn rasismi, meðvirkni og valdsýki muni drepa fyrsta heimilislausa flóttamanninn.“

Undir grein Semu skrifar Morgane Priet-Mahéo athugasemd og spyr: „Guðmundur Ingi segir að það sé samtal í gangi með samtökin, hefur þú heyrt frá honum?“ Sema Erla svarar því til að hún hafi ekki heyrt „orð frá honum eða öðrum og hann hefur ekki svarað þegar ég hringi í hann.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí