Vandinn eykst en enginn stjórnarliði ræddi lög sem „beinlínis stefna lífi og heilsu fólks í hættu“

„Ég beið eftir því að meðferð stjórnvalda á flóttafólki kæmi til umræðu við stefnuræðu forsætisráðherra og jafnvel talað um lausnir í því máli eins og ráðherra hafa látið í veðri vaka að væru framundan,“ skrifaði Drífa Snædal á Facebook að kvöldi miðvikudags, eftir að forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína og þingið tók hana til umræðu. „Enginn stjórnarliði,“ hélt Drífa áfram, „ræddi þá staðreynd að tugir einstaklinga hafi verið sviptir þjónustu og væru á götunni án möguleika á framfærslu ef ekki væri fyrir frjáls félagasamtök og velviljaða einstaklinga.“

„Þverpólitískt samtal um málefni útlendinga“

„Ég held að aldrei fyrr hafi verið sett jafn mannfjandsamleg lög á Íslandi,“ skrifaði Drífa, „lög sem beinlínis stefna lífi og heilsu fólks í hættu. Stjórnarliðar sáu sem sagt ekki ástæðu til að ræða það neitt – halda að vandinn fari ef hann er ekki ávarpaður. Það er ekki rétt, vandinn eykst með hverjum deginum og enn er beðið eftir boðuðum lausnum sem hvergi glittir í.“

Stuðningsfólk Vinstri grænna geta teflt því fram, ríkisstjórninni til varnar, að forsætisráðherra vék þó máli sínu að því að þingmaður úr stjórnarandstöðu vildi gefa útlendingamálum gaum, er hún sagði í stefnuræðunni: „Ég fagna því ef við getum unnið þverpólitískt í fleiri málum. Ég fagna því til að mynda að sjá málefnalegt frumkvæði Viðreisnar að því að eiga þverpólitískt samtal um málefni útlendinga. Ég held að slík vinnubrögð geti fært samfélaginu öllu árangur, ekki síst í viðkvæmum málaflokki á borð við þann sem ég nefni hér.“

Beint í kjölfarið sagðist forsætisráðherra ekki vera „aðdáandi þeirra stjórnmálamanna sem telja sér til tekna að semja aldrei, líta á hverja sátt sem uppgjöf og telja deilur sér til tekna fremur en sátt og samvinnu. Það er nefnilega fleira sem sameinar okkur í þessu landi en sem sundrar.“

„… hvernig bifreiðastyrkir til örorkulífeyrisþega geti nýst til kaupa á rafbílum“

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, sem er ábyrg fyrir skipulagi og störfum Útlendingastofnunar og lögreglu, tók ekki til máls á þingfundinum.

Það gerði aftur á móti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. Í ræðu hans var aftur á móti ekki vikið einu orði að útlendingum, innflytjendum, fólki á flótta, hælisleitendum, umsækjendum um vernd eða nokkru hugtaki sem gaf til kynna að til væri fólk af erlendum uppruna. Þungamiðjan í ræðu Guðmundar Inga virtist raunar heldur tilheyra umhverfisráðuneytinu, en segja má að ráðherrann hafi dregið meginviðfangsefni þess með sér inn í Félagsmálaráðuneytið er hann sagði: „Góðir landsmenn. Baráttan gegn loftslagsbreytingum er að mínu viti stærsta velferðarmál 21. aldarinnar.“ Þá sagði hann ráðuneytið vinna að tillögum „um hvernig bifreiðastyrkir til örorkulífeyrisþega geti nýst til kaupa á rafbílum“.

Af fjarveru mannúðarkrísunnar í ræðu ráðherrans mætta ætla að ráðuneyti félagsmála hefði engan snertiflöt við viðfangsefnið yfirleitt. Þó hefur hann, eins og Drífa Snædal nefnir, lýst því yfir að hann vinni að lausn á stöðunni.

Nú þegar styttist í að fimm vikur verði liðnar frá því að almenningi varð fyrst kunnugt um úthýsingu og réttindasviptingu þess hóps sem um ræðir, sá blaðamaður tilefni til að spyrjast fyrir um stöðu þeirrar lausnar. Nokkrum klukkustundum fyrir þingfundinn, um hádegisbil á miðvikudag, sendi blaðamaður Guðmundi Inga því einfalda fyrirspurn í tveimur liðum: hvers konar lausn er í bígerð og hvenær er hennar að vænta? Svör ráðherrans munu vitaskuld birtast ef og þegar þau berast.

„Að því sögðu,“ lauk Drífa framannefndri færslu sinni á Facebook, „ber að þakka Arndísi Önnu fyrir að fjalla um þessa stærstu mannúðarkrísu landsins og gera það vel.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí